5. fundur 2010 – haldinn 12. okt.2010

Fundinn sem haldinn var Selfossi sátu, Guðbjörg Jónsdóttir, Jón Jónsson nýkjörinn fulltrúi Skaftfellinga í stjórn, Ragnar Lárusson,  Egill Sigurðsson, Gunnar Eiríksson og Sveinn Sigurmundsson framkvæmdastjóri.

1. Verkaskipting stjórnar
Að venju þarf stjórnin að skipta með sér verkum fyrsta stjórnarfund eftir aðalfund. Guðbjörg Jónsdóttir var kjörin formaður, Egill Sigurðsson kjörinn varaformaður og Jón Jónsson ritari. Jón óskaði eftir því að Sveinn Sigurmundsson sæi um ritun fundargerðar og var það samþykkt

2. Tillögur frá aðlafundi
Teknar voru fyrir tillögur frá síðasta aðalfundi. Framkvæmdastjóri hafði þegar sent þær á þá aðila sem þær voru beint stílaðar á.

Tillögur allsherjarnefndar;

Tillaga 1
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn að Kirkjubæjarklaustri 31. ágúst 2010 skorar á stjórnvöld og Bændasamtök Íslands að tryggja innlendri kornrækt eðlilegt starfsumhverfi. Íslenskum landbúnaði verði þannig gert kleift að nýta betur sóknarfæri með aukinni kornrækt og gjaldeyrissparnaði fyrir þjóðarbúið. Send Bændasamtökum Íslands og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti

Greinargerð
Á undanförnum árum hafa orðið stórstígar framfarir í innlendri kornrækt. Með aukinni þekkingu og reynslu bænda af kornrækt hafa myndast sóknarfæri fyrir íslenskan landbúnað, sem mikilvægt er að hlúa að. Þannig liggur fyrir að hægt er að auka notkun byggs við mjólkurframleiðslu og stórefla hlutdeild  byggs  í fóðri svína. Einnig er hægt að nota umtalsvert magn af byggi í loðdýrarækt og við kjúklingaeldi.
Bændur hafa lagt áherslu á þá stefnumótun að akuryrkja þróist samhliða annarri búvöruframleiðslu, með það að markmiði að stuðla að hagkvæmari framleiðslu í landinu á grundvelli innlendrar fóðuröflunar og landnýtingar. Með því skapast augljóst sóknarfæri sem skylt er að nýta eins og kostur er, ekki síst m.t.t. fæðuöryggis þjóðarinnar, gjaldeyrissparnaðar og nýtingar landgæða.
Tryggja þarf að innlend kornframleiðsla njóti sambærilegra styrkja og innflutt korn.
Á Suðurlandi hefur umfang kornræktar á afmörkuðum svæðum aukist verulega. Reynslan af því  sýnir að hægt er að auka kornrækt á Suðurlandi, þar sem verulegt landrými er til staðar.

Tillaga 2
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn að Kirkjubæjarklaustri 31. ágúst 2010 skorar á Bændasamtök Íslands að hlutast til um að ekki sé sett á markað kjötafurðir langt undir framleiðsluverði. Send Bændasamtökum Íslands.

Greinargerð
Veruleg röskun á kjötmarkaðnum hefur orðið vegna offramboðs á svínakjöti sem er vegna tilstuðlans fjármálastofnana. Þetta hefur haft áhrif á allan kjötmarkaðinn. Það eru liðin rúm sjö ár síðan svipað ástand á kjötmarkaðinum kom upp og þá einnig vegna óeðlilegrar afskipta fjármálastofnunar  af framleiðslu á kjötafurðum.

Tillaga 3
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn að Kirkjubæjarklaustri 31. ágúst 2010 hvetur Búnaðarsamband Suðurlands til að veita bændum nú sem hingað til upplýsingar og ráðgjöf í samskiptum við fjármálastofnanir í lánamálum sínum eftir því sem kostur er.

Greinargerð
Ráðunautar Búnaðarsambands Suðurlands hafa unnið gott starf síðan hrunið varð, lögð verði áhersla á að þeirri vinnu og stuðningi sé haldið áfram. Það virðist vera að langt sé í land með niðurstöðu á gengistryggðum lánum bænda sem og annarra. Einnig er fyrirgreiðsla banka mjög misvísandi.

Tillaga 4
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn að Kirkjubæjarklaustri 31. ágúst 2010 styður eindregið þá breytingu á búvörulögum sem liggur nú fyrir Alþingi og að sú breyting verði samþykkt sem fyrst á komandi haustþingi. Send formanni landbúnaðarnefndar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti og Landsambandi Kúabænda.

Tillaga 5
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn að Kirkjubæjarklaustri 31. ágúst 2010 skorar á Bændasamtök Íslands að beita sér með markvissari hætti til að standa vörð um réttindi bænda í samningum við ríkisvaldið á næstu mánuðum. Jafnframt að halda úti markvissari kynningu á stöðu bænda og kjörum þeirra. Fundurinn mótmælir skerðingu á mótframlagi til Lífeyrissjóðs bænda á núverandi fjárlögum, sem og hugsanlegri skerðingu á öðrum samningum við bændur.Send sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti.

Farið var yfir tillögur fjárhagsnefndar;

Tillaga 6
 Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn að Kirkjubæjarklaustri 31. ágúst 2010 samþykkir fyrirliggjandi fjárhagsáætlun BSSL fyrir árið 2010.

Tillaga 7
 Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn að Kirkjubæjarklaustri 31. ágúst 2010 leggur til að við gerð fjárhagsáætlunar Kynbótastöðvar Suðurlands fyrir árið 2010 verði sæðingagjöld, kr 1.000,- á kú.

Tillaga 8
 Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn að Kirkjubæjarklaustri 31. ágúst 2010 samþykkir óbreytt árgjald til BSSL, alls kr. 1.000,- á félagsmann.

Tillaga 9
 Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn að Kirkjubæjarklaustri 31. ágúst 2010 samþykkir að þóknun aðalfundarfulltrúa miðist við dagpeninga ríkisstarfsmanna. Miða skal við fæðispeninga heilan dag og minnst 10 tíma ferðalag (nú kr 8.750,-) x 2. (þ.e. nú 17.500,-).

Tillaga 10
 Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn að Kirkjubæjarklaustri 31. ágúst 2010 samþykkir að laun stjórnarmanna verði kr. 10.000,- fyrir hvern stjórnarfund auk dagpeninga og aksturs samkvæmt ríkistaxta og framreiknað með vísitölubreytingum samkvæmt grunni í launavísitölu frá apríl 2005. Formaður fái tvöföld laun og dagpeninga á við aðra stjórnarmenn auk aksturs. Formaður fái að auki eingreiðslu sem nemur kr. 150.000,- miðað við árið 2003 sem framreiknast með launavísitölu.

Tillögur fagmálanefndar;

Tillaga 11
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn á Kirkjubæjarklaustri 31. ágúst 2010 lýsir yfir ánægju sinni með skjót viðbrögð almannavarna, fagaðila og sjálfboðaliða vegna eldgoss í Eyjafjallajökli. Fundurinn þakkar fyrir alla þá miklu vinnu og aðstoð sem íbúar fengu hjá þessum aðilum á áhrifasvæði gossins í Eyjafjallajökli.

Tillaga 12
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn á Kirkjubæjarklaustri 31. ágúst 2010 sendir kærar kveðjur til norskra bænda með innilegu þakklæti fyrir þann samhug og stuðning sem þeir hafa sýnt bændum við Eyjafjallajökul, m.a. með myndarlegri fjársöfnun í Noregi vegna eldgossins 2010. Eiríkur Blöndal hefur þegar farið með þessa tillögu á aðalfund norsku bændasamtakanna

Til norske bonder
Ársmotet i bondelaget på sør Island sender varme hilsener til norske bonder og takker for det samhold og støtte som de har vist for bondene ved Eyjafjallajökull bl.a. med en innsamlings ahjon í Noreg pga vulkenutbruddet 2010.

Tillaga 13
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn á Kirkjubæjarklaustri 31. ágúst 2010 beinir því til Matvælastofnunar að rannsökuð verði áhrif ösku og flúors á búfénað vegna eldgossins í Eyjafjallajökli, sérstaklega m.t.t. lungna, meltingarfæra og beina ungviðis. Send Matvælastofnun

Tillaga 14
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn á Kirkjubæjarklaustri 31. ágúst 2010 samþykkir að stjórn BSSL beiti sér fyrir því að farið verið yfir stöðu mála vegna eldgossins í Eyjafjallajökli. Mætti þar nefna það sem betur mætti fara í viðbrögðum og upplýsingaöflun. Auk þess verði könnuð langtímaáhrifum á búfénað, vélar og fleira. Leitað verði eftir áliti bænda á áhrifasvæði gossins. Send Matvælastofnun og aðgerðarhópi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins

3. Framlög til ráðgjafaþjónustu
Sveinn fór yfir stöðuna sem fyrir liggur gagnvart tekjum frá ríkinu á næsta ári. Skerðing gæti orðið á bilinu 15% til 20 % á framlagi til ráðgjafaþjónustu búnaðarsambandanna og eitthvað svipað á framlagi vegna búfjárræktar. Unnið er áfram að gerð búnaðarlagasamnings en þar verður tekinn afstaða til fjármuna sem eiga að renna til einstakra liða samningsins.

4. Fjármál bænda
Runólfur mætti á fundinn og fór yfir afkomu Sunnubúanna frá 2005. Mikill breytileiki er í afkomu milli búa og víða hægt að bæta búreksturinn. Þá ræddi Runólfur um skuldastöðu bænda og stöðuna gagnvart gengistryggðu lánunum.

5. Starfsemin næstu vikur
Sveinn fór yfir það helsta sem er á döfinni í starfseminni á næstunni. Lambaskoðun, hrútasýningar og jarða- og húsabótaúttektir standa yfir og kvíguskoðun lýkur fljótlega. Eggert Þröstur Þórarinsson hefur látið af störfum en hann hefur einkum unnið við fjármálaráðgjöf og rekstrargreiningar í Sunnu verkefninu. Bragi Ágústsson frjótæknir er í veikindaleyfi.

6. Eldgosið í Eyjafjallajöklli
Mikil vinna hefur farið fram af hálfu starfsmanna Búnaðarsambandsins við mat á tjóni út af eldgosinu. Búnaðarsambandið hefur séð um skipulag fjárflutninga af og á gossvæðið og er þar sérstaklega hægt að nefna hlut Hermanns Árnasonar sem hefur haft veg og vanda af þeim. Sveinn hefur sinnt afleysingaþjónustunni en fram undir þetta hafa tveir menn starfað við hana. Tómas Sturlaugsson sem verður fram að áramótum og Árni Gunnarsson.

7. Niðurstöður heysýna á gossvæðinu
Hátt járninnihald í öskublönduðu heyi veldur mönnum aðeins áhyggjum. Sveinn greindi frá fundi sem hann ásamt Margréti Ingjaldsdóttur sótti á Matvælastofnun. Helstu niðurstöður fundarins voru;
Afla upplýsinga um mælingar á járni í heyi bæði í ár og fyrri ár. Kanna hvort hægt sé að fá fóðurbæti með minna járni. Ræða betur um þörf á blóðefnamælingum búfjár og skipuleggja þær sé til þess þörf. Athuga mælingar á járni í þeim heysýnum sem búið er að taka og meta stöðuna út frá því. Skrifa drög að leiðbeiningum um fóðrun búfjár á gossvæðinu. Að fundi loknum valdi Margrét 50 heysýni vítt og breytt um Suðurland þar sem járninnihald verður rannsakað sérstaklega.

8. Niðurskurður í heilbrigðiskerfinu
Guðbjörg greindi frá fundi með Kjartani Ólafssyni vegna fyrirhugaðra mótmæla á Selfossi vegna niðurskurðar í heilbrigðiskerfinu sem bitnar hart á landsbyggðinni og að Búnaðarsambandið hefði lagt málinu lið með kynningu á heimasíðunni.

Ákveðið var að stefna að stjórnarfundum annan föstudag í hverjum mánuði, en tíðni þeirra færi eftir málefnum sem liggja fyrir. Egill benti á að ef fundir væru sjaldnar en á 2ja mánaða fresti væri hætta á að stjórnarmenn slitni úr tengslum við starfsemina.

Stefnt er að fundi stjórnar með Hrossaræktarsamtökum Suðurlands fljótlega þar sem starfsemin í hrossarækt yrði rædd.

Næsti stjórnarfundur var fyrirhugaður föstudaginn 12. nóvember í Gunnarsholti og þar með þiggja boð Landgræðslunnar um að fá aðstöðu þar fyrir stjórnarfundi. Eftir samtal við Svein Runólfsson ákváðum við föstudaginn 5. nóvember kl 11:00 en um leið fáum við kynningu á starfsemi og helstu verkefnum Landgræðslunnar.

Fleira ekki fyrir tekið og fundi slitið
Sveinn Sigurmundsson


back to top