5% aukning á framleiðslu lambakjöts

Horfur eru á að framleiðsla á lambakjöti verði talsvert meiri á þessu ári en í fyrra. Samkvæmt nýjum tölum frá Bændasamtökum Íslands er aukningin um 5% milli ára. Miðað við síðustu 12 mánuði nemur framleiðslan 9.592 tonnum. Fara þar aftur til ársins 2000 til að finna álíka mikla framleiðslu.
Mun minna var flutt út af lambakjöti í þessari sláturtíð en í fyrra. Á síðustu þremur mánuðum hafa verið flutt út 884 tonn, sem er 42% minna en á sama tímabili í fyrra.

Sala á kjöti var 3,6% meiri í október en í sama mánuði í fyrra. Sala á nautakjöti jókst um 17,7%, kjúklingum um 7,7% og lambakjöti um 3,4%, en sala á svínakjöti dróst saman um 5,8%. Miðað við síðustu 12 mánuði er sala á lambakjöti örlítið meiri en á svínakjöti, en þessar tvær kjöttegundir hafa skipst á um að vera í öðru sæti yfir mestseldu kjöttegundir á landinu. Kjúklingar hafa síðustu ár verið sú kjöttegund sem selst mest og hefur nú 30% markaðshlutdeild.


Samkvæmt októberyfirliti Samtaka afurðastöðva í mjólkuriðnaði er sala á próteingrunni sl. 12 mánuði 113,7 milljónir lítra, það er 0,7% samdráttur. Sala á fitugrunni er rétt tæpar 111 milljónir lítra, sem er aukning um þriðjung úr prósenti. Um 3% samdráttur er í sölu á drykkjarmjólk á tímabilinu, þá er lítils háttar samdráttur í skyrsölu. Um og yfir 3% aukning er í sölu á rjóma, viðbiti og osti. Nýlega var tekin ákvörðun um að greiðslumark ársins 2012 skyldi verða 114,5 milljónir lítra, salan er því nokkuð undir þeim væntingum sem þar voru gerðar, að því er fram kemur á vef Landssambands kúabænda.


Sjá nánar:
Framleiðsla, sala og birgðir búvara – október 2011


back to top