3. fundur 27. ágúst

Stjórnarfundur BSSL haldinn 27. ágúst 2020.

 Á fundinn sem haldinn var í fundarsal Búnaðarsambandsins mættu Erlendur Ingvarsson, Ragnar Lárusson, Gunnar Kr. Eiríksson. formaður, Björn Helgi Snorrason og Helgi Eggertsson. Sveinn Sigurmundsson sat fundinn og ritaði fundargerð.

  1. Fréttir frá Nautís

Sveinn greindi frá stöðu mála hjá Nautís. Fósturvísarnir sem teknir voru í janúar var úthlutað til bænda í samræmi við umsóknir. Nú er bara búið að setja upp 9 fósturvísa af 39 og svo virðist sem 2 kýr af þeim hafi haldið. Því var ákveðið að sæða kvígurnar sem fæddar eru 2019 með sæði úr Jens av Grani eins og kvígurnar 7 sem fæddar eru 2018 en nú er komið í ljós að þær hafa allar haldið og bera 5 af þeim um miðjan febrúar. Í vor fæddust 6 kálfar undan Emil av Lillebakken en 2 kýr höfðu látið í vor. Það komu 3 naut og 3 kvígur sem er heldur rýrt miðað við eftirspurnina eftir nautunum. Sæðistaka úr nautunum 4 sem fædd eru 2019 og voru seld um daginn hefur gengið vel. Alls hafa náðst liðlega 4000 skammtar í 9 sæðistökum. Nautið Valur 0017 er öflugastur og komnir 2019 skammtar úr honum. Haukur 0013 gefur mikið magn af sæði en þunnt þannig að ekki var hægt að þynna það til frystingar. Því miður virðast fáar kýr hafa haldið með þeim 26 fósturvísum sem settir voru upp í sumar en fangskoðun fer fram á morgun. Næsta vor gæti verið von í 13 kálfum undan Jens av Grani. Þá má geta þess að 3 kýr á Stóra Ármóti eru með fangi eftir fósturvísana sem skolaðir voru úr í janúar og bera tvær þeirra nú í október. Komi naut úr því mun það fara á Nautastöðina Hesti

  1. Aðalfundur.

Aðalfundurinn fyrir árið 2019 var fyrirhugaður fimmtudaginn 27 ágúst eða í dag. Vegna fjöldatakmarkana út af Covid var ákveðið að fresta fundinum. Nú leggur stjórnin til að við reynum aftur fimmtudaginn 29. október á Hótel Selfossi.

  1. Starfsemi Bssl og fyrirtækja þess.

Sveinn fór yfir stöðu fyrirtækjanna. Kynbót syndi það góða útkomu í 6 mánaða uppgjöri að ekki er þörf á hækkunum sæðingagjalda að svo stöddu. Helga Sigurðardóttir er enn í veikindaleyfi og Björg Agnarsdóttir fótbrotnaði í júní þegar hún datt í stiganum við að bera niður kassa. Kristín Björnsdóttir sem var hætt störfum hefur unnið mikla bókhaldsvinnu fyrir okkur nú í sumar. Á Stóra Ármóti hefur verið mikið unnið að viðhaldi í fjósinu. Skipt um lýsingu, vatnslagnir, þakið lagað, skipt um glugga og veggir fjósins að vestan og sunnanverðu klæddir auk mikillrar girðingavinnu Í skrifstofuhúsnæðinu var farið í endurbætur á kaffistofunni og er þeim að mestu lokið en fljótlega verður farið í að breyta opna rýminu á austurhliðinni í skrifstofur.

  1. Tillögur stjórnar BÍ um nýtt félagskerfi.

Í tillögum Bændasamtakanna er óskað eftir athugasemdum aðildarfélaganna fyrir 30. júní. Stjórnin fól Sveini að gera drög að svarbréfi sem stjórnin samþykkti og fer það hér á eftir

  1. Umræða um hlutverk og starfsemi búnaðarsambandanna.

Sveinn greindi frá því að framkvæmdastjórar þeirra búnaðarsambanda sem eru með einhverja starfsemi eru ásamt tveimur stjórnarmönnum BÍ í nefnd til að fjalla um hlutverk og starfsemi búnaðarsambanda. Nefndin hefur haldið 2 símafundi

  1. Önnur mál. Björn Helgi vakti máls á því að honum þætti umræða hagsmunasamtaka bænda um matvælaöryggi á tímum covid faraldursins kraftlítil. Málið rætt og þeim tilmælum beint til formanns og framkvæmdastjóra að huga að því hvernig sem best mætti leggja lið við að benda á mikilvægi íslensks landbúnaðar.

Búnaðarsamband Suðurlands fagnar stofnun Matvælasjóðs en hlutverk hans er að styrkja þróun og nýsköpun við framleiðslu og vinnslu matvæla úr landbúnaðar- og sjávarafurðum.

Áhersla sjóðsins er á nýsköpun, sjálfbærni, verðmætasköpun og samkeppnishæfni íslenskrar matvælaframleiðslu með það að markmiði að ná til verkefna, allt frá hugmyndum til markaðssetningar og hagnýtra rannsókna.

Á tímum Kórónu veiru faraldursins er nú sem aldrei fyrr mikilvægt að standa vörð um innlenda matvælaframleiðslu og huga að fæðuöryggi þjóðarinnar.

Ályktun þessi kæmi á heimasíðu og fésbókarsíðu BSSL Athuga líka hvort Bændablaðið vildi birta hana.

Fleira ekki og fundi slitið

Sveinn Sigurmundsson

 

Selfossi 29 júní 2020

Bændasamtök Íslands

B/t Gunnars Þorgeirssonar

 

Efni; Tillögur stjórnar BÍ að breyttu og einfaldara félagskerfi

Stjórn Búnaðarsambands Suðurlands hefur fjallað um tillögur stjórnar BÍ um breytt og einfaldara félagskerfi og vill koma eftirfarandi sjónarmiðum á framfæri.

Í dag er Búnaðarsamband Suðurlands aðildarfélag Bændasamtaka Íslands með 1240 félagsmenn og til Búnaðarþings eru kosnir 7 fulltrúar af Suðurlandi af 52 búnaðarþingsfulltrúum eða 13,5 %.

Í tillögum BÍ er ekki gert ráð fyrir félagspólítískri aðkomu búnaðarsambandanna en að sameina öll búgreinafélögin Bændasamtökum Íslands og að það verði bein aðild að Bændasamtökunum gegnum búgreinafélögin. Nú eru ekki allir bændur í búgreinafélögum bæði vegna þess að þeir eru ekki með búgreinatengda starfsemi og svo er þátttaka bænda í sumum búgreinafélögunum því miður frekar bágborin. Ekki verður annað séð en að bændum og dreifbýlisfólki sem munu koma að því að kjósa til Búnaðarþings sem er æðsta vald Bændasamtakanna muni fækka verulega.

Betur þarf að útfæra hvernig skuli komið að kosningu til Búnaðarþings Verður svæðisskipting innan búgreinanna.. Verður rafræn kosning ? Þeir sem eru beinir aðilar að BÍ en ekki búgreinafélögum hafa ekki kosningarétt og þá fækkar þeim bændum enn sem hafa rétt á að kjósa til Búnaðarþings.

Gert er ráð fyrir 100 fulltrúum á Búnaðarþingi sem er helmings fjölgun. Er líklegt að þingið verði skilvirkara og markvissara með þeim hætti.

Af 100 Búnaðarþingsfulltrúum er gert ráð fyrir að 14 af þeim komi frá félögum sem ganga þvert á búgreinar og þá 1 fulltrúi frá hverju óháð umfangi og félagafjölda. Búnaðarsamband Suðurlands á að fá 1 fulltrúa samkvæmt þessarri leið en þarna er ekkert tillit tekið til stærðar eða umfangs félaganna. Stjórn BSSL er ósátt við þessa skiptingu.

Ein af rökum BÍ fyrir því að Búgreinafélögin ein skipti máli er kemur að æðsta valdi bændastéttarinnar er að þau komi að hagsmunagæslu búgreinanna sem vissulega er rétt en það er fjallað um ýmislegt annað á Búnaðarþingi s.s. rekstur BÍ og  fyrirtækja þess,  útgáfu og kynningarstarf, ráðgjafastarfsemi sem og fleira er lýtur að stoðkerfi bænda.

Tekið er undir mikilvægi þess að koma á formlegum samstarfsvettvangi samtaka bænda og afurða og þjónustufyrirtækja í landbúnaði og halda áfram með það samtal sem félagskerfisnefndin var byrjuð á.

Í tillögum BÍ kemur fram það sjónarmið að standa skuli vörð um starfsemi búnaðarsambanda og jafnvel auka vægi þeirra er kemur að þjónustu fyrir bændur. Þetta er vissulega meining þeirra sem að þessu standa í dag en er hægt að treysta þessu sé litið til framtíðar þegar búið verður að færa það vald sem svæðisöflin og grasrótin hafa í dag til búgreinafélaga sem starfa á landsvísu.

Árið 2012 var tekin sú ákvörðun á Búnaðarþingi að færa ráðgjafastarfsemi sem rekin var í nálægð við bændur á héraðavísu í fyrirtæki á landsvísu, Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins RML tók til starfa í ársbyrjun 2013. Þá voru fjármunir og starfsemi fært frá búnaðarsamböndunum og nú liggur fyrir tillaga um að taka hlutverk þeirra í félagspólitíkinni líka af þeim. Hvað er þá eftir hjá búnaðarsamböndunum sem hafa ekki annað fjármagn en félagsgjöld og rekstur fyrirtækja. Með sama áframhaldi verður ekki annað séð en að svæðisöflin séu á útleið.

Verkefni dagsins í félagskerfi landbúnaðarins snýst um hvernig megi ná bændum sameinuðum í ein öflug samtök sem eru þá Bændasamtök Íslands. Er tillaga sú sem fyrir liggur og gengur út á að hafna svæðisöflunum með þúsundum bænda á bak við sig vænlegasta leiðin ?

Stjórn Búnaðarsambands Suðurlands leggur ríka áherslu á héraðstengingu við BÍ og í ljósi þess er rétt að vinna betur með tillögur félagskerfisnefndar og í samstarfi við hana en tillögurnar voru lagðar fyrir síðasta Búnaðarþing

 

 

Virðingafyllst fyrir hönd stjórnar BSSL

 

_____________________________________

Sveinn Sigurmundsson

Framkvæmdastjóri

 

 

 

 

 


back to top