3. fundur 2006

Stjórnarfundur hjá Búnaðarsambandi Suðurlands, haldinn 4. apríl 2006 á skrifstofu sambandsins og hófst hann kl, 10 f.h. Mættir voru stjórnarmennirnir Þorfinnur Þórarinsson, Eggert Pálsson, Guðni Einarsson, Guðmundur Stefánsson og Egill Sigurðsson og Sveinn Sigurmundsson framkvæmdastjóri.


1. Arnór Eggertsson löggildur endurskoðandi, Ólafur Þórarinsson bókari, Sveinn Sigurmundsson framkvstj. og skoðunarmennirnir Vilhjálmur Eiríksson og Elvar Eyvindsson fóru yfir og skýrðu reikninga sambandsins fyrir árið 2005. Tap er á bændabókhaldi og skrifstofu- og ráðnautaþjónustu, hagnaður á Sauðfjársæðingastöðinni og Kynbótastöðinni. Hagnaður er hjá Búnaðarsambandinu í heild þegar allar deildir eru teknar saman fyrir afkomu dótturfélagsins Stóra-Ármóts ehf. en tap eftir afkomu dótturfélagsins. Egill ræddi um óljósar eftirlaunaskuldbindingar Búnaðarsambands Suðurlands og óskaði eftir því að farið verði í ítarlega ofan í saumana á því máli. Rætt var um nauðsyn þess að endurskoða gjaldskrá og rekstur bændabókhaldsins og líka rekstur skrifstofu- og ráðunautaþjónustu. Reikningar voru síðan undirritaðir af stjórn, skoðunarmönnum og löggiltum endurskoðanda. Bókari, skoðunarmenn og endurskoðandi viku síðan af fundi.

2. Rætt var að aðalfundurinn verði með líku sniði og undanfarið, þó var ákveðið að óska eftir að tillögur, sem lagðar verða fyrir aðalfund berist skrifstofu Búnaðarsambands Suðurlands 10 dögum fyrir fund, til þess að fundarfulltrúar geti  kynnt sér þær á heimasíðu sambandsins. Á aðalfundi verður erindi um landbúnaðar- og skipulagsmál.

3. Sveinn sagði frá starfseminni, s.s. breytingum á starfsmannahaldi.

4. Þorfinnur sagði frá drögum að kjarasamningum við frjótæka. Stjórnarmenn gera ekki athugasemd við að samningurinn verði staðfestur.

5. Rætt var um eflingu leiðbeininga varðandi heilfóður fyrir mjólkurkýr.


Fleira ekki gert, fundargerð upplesin og samþykkt og fundi slitið.


Guðmundur Stefánsson, fundarritari


back to top