Hvítur kvígukálfur boðinn upp á Sunnlenska sveitadeginum

Á Sunnlenska sveitadeginum þann 3. maí milli kl 15 og 16 mun Böðvar Pálsson sveitarhöfðingi á Búrfelli bjóða upp hvítan kvígukálf sem Guðbjörg Jónsdóttir bóndi á Læk ánafnar sýningunni til minningar um mann sinn Gauta Gunnarsson.
Litarhaft kálfsins er einstakt en hann alhvítur og eru slíkir gripir fáséðir. Ágóðinn af uppboðinu rennur til góðra mála.

Fyrirhugað er að uppboði loknu fari kálfurinn hvíti í Húsdýragarðinn í Reykjavík, en þar starfaði Gauti í nokkur ár sem yfirdýrahirðir við góðan orðstýr eða allt þar til hann hætti til að taka við draumstarfinu sínu og köllun að gerast bóndi. Sá draumur rættist er hann fluttist að Læk í Flóahreppi ásamt fjölskyldu sinni, en því miður lést hann af völdum krabbameins á síðasta ári, langt um aldur fram, frá konu og fjórum börnum sem hafa ákveðið að bregða búi.
Fjölskyldan hefur kynnst mikilvægi þess að hafa sjúkrahús í heimabyggð bæði fyrir sjúklinga og aðstandendur þeirra og langar að þakka fyrir sig með þessum hætti. Þessi kálfur hefur sérstaka merkingu fyrir fjölskylduna á Læk í senn tákn um von og bjartari tíma. Viðeigandi er að í samvinnu við forsvarsmenn Heilbrigðisstofnun Suðurlands hefur verið ákveðið að féð renni til umbóta og fegrunar nýrrar göngudeildar krabbameins- og gigtarsjúklinga.
Það er von okkar að Sunnlendingar og gestir sýningarinnar leggi þessu göfuga málefni lið, sem snertir okkur öll og bjóði kröftuglega í kálfinn hvíta.

Nánar um Sunnlenska sveitadaginn sem Jötunn og Vélaverkstæði Þóris standa fyrir hér.

 


back to top