2. fundur 2012 – haldinn 29. mars

Stjórnarfundur BSSL 2/2012

Á fundinn sem haldinn var í fundarsal Búnaðarsambandsins mættu Guðbjörg Jónsdóttir, Jón Jónsson, Egill Sigurðsson og Gunnar Kr. Eiríksson. Þórir Jónsson mætti í forföllum Ragnars Lárussonar. Endurskoðendurnir Jón Rafnar Þórðarson og Halldór Arason ásamt félagskjörnu skoðunarmönnunum, þeim Hrafnkeli Karlssyni og Ólafi Kristjánssyni og Ólafi Þór Þórarinssyni, bókara, sátu fundinn undir liðnum ársreikningar. Þá sat Sveinn Sigurmundsson fundinn.

1. Undirbúningur fyrir aðalfund. Ákveðið að bjóða formanni og framkvæmdastjóra Bændasamtakanna, rektor LbhÍ og formanni ungra bænda á Suðurlandi. Kosningar til búnaðarþings, umræða um breytta tilhögun ráðgjafastarfsemi samkvæmt ályktun nýliðins búnaðarþings og nefndarstörf verða 5 á fundinum.

2. Ársreikningar Búnaðarsambandsins og fyrirtækja þess voru lagðir fram. Rekstrartekjur fyrir utan Stóra Ármót er 251 milljónir sem er veruleg aukning frá fyrra ári eða úr 223 milljónum. Rekstrargjöld eru tæpar 246 milljónir og rekstrarhagnaður 5,3 milljónir. Að teknu tilliti til fjármagnsliða og dótturfélags er hagnaðurinn 9,5 milljónir. Samkvæmt efnahagsreikningi eru heildareignir 248,8 milljónir en eigið fé í árslok var 218.8 milljónir. Veltufjármunir eru 138 milljónir í árslok. Veltufé frá rekstri var 11,7 milljónir á móti 1,7 milljóna tapi fyrra ár. Til að átta sig á stöðu Búnaðarsambandsins verður að skoða hvert fyrirtæki fyrir sig. Bændabókhaldið veltir rúmum 20 milljónum. Nú var hagnaður upp á 900 þúsund á móti 900 þúsund króna tapi árið á undan. Gjaldskráin var óbreytt og þvi verður þessi breyting ekki skýrð öðruvísi en að afköst hafi aukist. Staða Sauðfjársæðingastöðvarinnar er vel ásættanleg. Velta er rúmar 13 milljónir og tap upp á 280 þúsund. Viðhald og endurbætur á girðingum sem var gjaldfært upp á 1,6 milljónir. Kynbótastöðin kemur lakast út af fyrirtækjunum. Heildargjöld tæpar 81 milljónir og tap 4,4 milljónir. Húsnæðið í Þorleifskoti var allt málað að utan og bílaplön löguð og kostnaðurinn upp á 2,4 milljónir gjaldfærður. Klaufskurðurinn var niðurgreiddur um milljón og svo hækkaði bifreiðakostnaður um 2,5 milljónir. Búnaðarsambandið er með veltuaukningu um 24 milljónir og hagnað fyrir utan fjármagnsliði upp á 11,4 milljónir. Lokaniðurstaðan er svo hagnaður um 13,3 milljónir þegar fjármagnsliðir, dótturfélag og tekjuskattur hefur verið tekinn inn. Hagnaðurinn skýrist einkum af tvennu. Framlög vegna mikils kostnaðar út af gosinu í Eyjafjallajökli árið á undan og leiðrétting á búnaðargjaldi í lok árs. Undirritaðir og samþykktir.

3. Sameining ráðgjafaþjónustu. Á nýliðnu búnaðarþingi var samþykkt að sameina ráðgjafastarfsemi búnaðarsambandanna og Bændasamtaka Íslands. Rætt um næstu skref í stöðunni. Guðbjörg hefur verið skipuð í verkefnastjórn sem á að ráða verkefnisstjóra sem á að gera tillögur um með hvaða hætti sameiningin eigi að eiga sér stað

Sveinn Sigurmundsson


back to top