190 milljónir króna í bætur vegna eldgossins

Áætlun Bjargráðasjóðs um bætur til bænda vegna eldgossins í Eyjafjallajökli hljóðar upp á 190 milljónir króna. Þessi áætlun, sem er til bráðabirgða, var lögð fyrir fund ríkisstjórnar í morgun. Í henni er gert ráð fyrir bótum upp á 55 milljónir vegna endurræktunar túna, að bætur vegna uppskerubrests verði 68 milljónir, og að bætur vegna afurðatjóns og flutnings búfjár verði upp á um 30 milljónir.

Aðrar bætur felast í sértækum aðgerðum, til dæmis vegna skemmda á landi bæjarins Önundarhorns, þar sem jökulleir lagðist yfir túnin í upphafi gossins. Stjórn Bjargráðasjóðs fundar með landbúnaðarráðherra eftir helgi, og þá verða næstu skref ákveðin.


Bæta þarf allt að hundrað milljónum króna í Bjargráðasjóð til að bæta bændum það tjón sem eldgosið í Eyjafjallajökli olli þeim. Í sjóðnum eru 100-120 milljónir. Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra segir að ríkisstjórnin ráði við það að setja  þetta auka fjármagn í sjóðinn. Steingrímur segir að þetta séu ekki hærri fjárhæðir en hann hafi búist við.


 


back to top