1. fundur 2004

Stjórnarfundur hjá Búnaðarsambandi Suðurlands haldinn þann 10. febrúar 2004 í húsnæði Landgræðslunnar í Gunnarsholti. Mættir voru stjórnarmennirnir Þorfinnur Þórarinsson, Eggert Pálsson, Egill Sigurðsson, Guðmundur Stefánsson og Guðni Einarsson. Þá var Sveinn Sigurmundsson framkvæmdastjóri einnig mættur. Fyrir fundinn var gengið um húsakynni Landgræðslunnar í Gunnarsholti í fylgd heimamanna, sem kynntu starfsemina.


  1. Sveinn Runólfsson landgræðslustjóri sat fundinn undir þessum lið og ræddi samskipti við BSSL t.d. í tengslum við gæðastýringu í sauðfjárrækt. Rætt var um hvort verkefnið Betra bú hjá Landgræðslunni geti tengst t.d Sómaverkefni hjá BSSL. Rætt var um tölvutækar gagnaupplýsingar á landupplýsingasviði og aðgang að þeim.

  2. Sveinn Sigurmundsson skýrði frá undirbúningi við kaup á heilfóðurvagni í fjósið á Stóra-Ármóti.

  3. Sveinn gaf yfirlit um sauðfjársæðingarnar í vetur. Tæplega 13.500 ær voru sæddar með fersku hrútasæði en liðlega 1.300 ær með frystu hrútasæði.

  4. Kynnt var svarbréf Bændasamtakanna við fyrirspurn um kaup á frosnu nautasæði.

  5. Rætt um tímasetningu og staðsetningu aðalfundar. Dagarnir kringum sumardaginn fyrsta  21. eða 23. apríl nefndir. Fundarstaður Árnessýsla. Kosið verður um fulltrúa Vestur Skaftfellinga í stjórn Búnaðarsambandsins.

  6. Kynnt var bréf frá LBH þar sem fram kemur að LBH telur sér ekki fært að framlengja samstarfssamning við BSSL um endurmenntun. Rætt um að vinna að því að finna nýjan grundvöll fyrir námskeiðahaldinu.

  7. Starfsemin rædd. Starfsemi Hrossaræktarsambandsins er meira inn á gólfi hjá BSSL en áður. Einnig var forðagæslan rædd, en hún er til húsa hjá BSSL. Framþróun Sunnuverkefnisins var til umræðu, en allmikill tími fer í verkefnið. Ákveðið var að halda jarðræktarnámskeið fyrir vorið ef nægileg þátttaka fæst og stefna einnig að því halda félagsmálanámskeið fyrir bændur við hentugleika.

  8. Sveinn gerði grein fyrir fjárhagslegri stöðu Búnaðarsambandsins.

  9. Sveinn sagði frá söguritun Páls Lýðssonar fyrir Búnaðarsambandið.

  10. Önnur mál, – Þorfinnur skýrði frá kjarasamningagerð við frjótækna. Sveinn skýrði frá samstarfi við Samband garðyrkjubænda. Varðandi val félagsmanna  á aðalfélagi fyrir aðild sína að BSSL. Talið rétt að auglýsa í fréttabréfi eftir að þeir gefi sig fram sem vilja breytingu á aðalfélagi sínu.  Aðalfélag er skilgreint í lögum sambandsins það félag sem stendur skil á árgjaldi til þess. Fram kom áhugi á að tillaga frá aðalfundi um vegamál fari fyrir Búnaðarþing.

Fleira ekki gert, fundargerð upplesin og samþykkt.

Guðmundur Stefánsson,
fundarritari


back to top