Formannafundur 2001

Formannafundur að Njálsbúð
28. nóvember 2001

 

Þorfinnur Þórarinsson formaður Búnaðarsambands Suðurlands setur fundinn. Hann greindir frá tilgangi fundarins. Þetta er þverfaglegur fundur þar sem einstaka búgreinar eru ekki dregnar sérstaklega fram. Síðasti fundur fjallaði um landbúnaðinn í tengslum við  alþjóðaviðskipti. Málefni dagsins í dag væri rekstararumhverfi bænda í dag.

 

Þorfinnur stakk upp á og skipaði Guðmundur Stefánsson frá Hraungerði fundarstjóra og leggur fundarstjórnina í hans hendur.

 

Guðmundur tekur við stjórninni og greinir frá tilhögun fundarins. Flutt verða framsöguerindi og síðan verður mönnum gefinn kostur á að bera fram spurningar um efni erindisins. Í dagskrárliðnum “Umræður og önnur mál” er allt til umræðu. Dagskrá fundarins er að öðruleiti sem hér segir:

 

Starfsemi og staða BSSL. Sveinn Sigurmundsson
Fjárhagstaða bænda og vaxtastefna Lánsjóðs landb. Guðmundur Stefánsson
Breytingar á skattalögum og þýðing þess fyrir búrekstur. Nýtt bókhaldsforrit fyrir bændur. Unnsteinn Eggertsson og Ólafur Þór Þórarinssson.
Ávarp. Sigurgeir Þorgeirsson, framkvæmdastjóri BÍ
Ávarp. Guðni Ágústsson, landbúnaðarráðherra

 

Fyrsta framsagan var í höndum Sveins Sigurmundssonar þar sem hann fór yfir stöðu mála hjá Búnaðarsambandinu og þeim stofnunum sem því fylgir.

 

Sveinn greindi frá því að staða Búnaðarsambandins væri all sterk.  Nokkrar breytingar hafa orðið á starfsliði Búnaðarsambandsins frá síðasta fundi. Jón Finnur Hansson hefur hætt störfum.

 

Unnsteinn Eggertsson hefur komið í fullt starf að nýju þar sem hann mun vera með bændabókhald á sinni könnu. Það stendur til að Búnaðarsambandið setji á fót bændabókhaldsstofu eða -deild þar sem vaxandi eftirspurn er eftir slíkri þjónustu. Það þarf hins vegar að vera sér rekstrareining sem þarf að standa undir kostnaði.

 

Haukur Sigurðsson tekur við stöðu Unnsteins fyrir garðyrkjubændur. Þeir Pétur Halldórsson og Þröstur Aðalbjarnarson koma inn í hefðbundin ráðgjafastörf með megin áherslu á rekstrarleiðbeiningu.

 

Nýbúið er að gera nýjan kjarasamning sem þýða auknar álögur á Búnaðarsambandið. Ráðunautar hafa ekki fengið neinar launabætur frá því í janúar 2000. Um áramót hækkar laun um 3% og þá telur hækkunin um 16% frá janúar 2000. Auk þess er aukið mótframlag í lífeyrissjóði.

 

Aukin áhersla verður lögð í búrekstraráætlanir. Samkvæmt búnaðarlögum eru ætlaðar 10 milljónir í rekstraráætlanir.

 

Lækkun eignasatta verður til þess að skattbyrði Búnaðarsambandsins mun lækka umtalsvert.

 

Ýmis námskeið hafa verið haldin á vegum eða í samstarfi við Búnaðarsambandið og hafa verið vel sótt. Þau eru gæðastýringarnámskeið í sauðfjárrækt, búbótarnámskeið,  skýrsluhaldsnámskeið í sauðfjárrækt, fjárhundanámskeið, plægingar, uppeldi kvíga og námskeið í notkun á netinu og tölvupósti.

 

Stöðug umræða hefur verið um gjaldtöku Búnaðarsambandsins fyrir einstök verkefni. Heimilt er að taka gjald fyrir ákveðin verk, s.s. áætlanagerð (fóður, áburðar og rekstrar), ómmælingar, mælingar á skurðum, landmælingar/landskipti, virðingargjörð og stofnun félagsbús/einkahlutafélags. Heimilt er að taka allt að 2000 kr á tímann fyrir þessa vinnu.

 

Rekstur kynbótastöðvarinnar er í samræmi við áætlanir.

 

Reksturinn að Stóra-Ármóti hefur gengið vel undangengin ár en rekstur síðasta árs var aftur á móti öllu þyngri þar sem verðbólguþróunin hefur verið erfiðurljár í þúfu. Nýir bústjórar tóku þar við 1. september, þau Hilda Pálmadóttir og Höskuldur Gunnarsson. Starfsemin á Stóra-Ármóti hefur verið með hefðbundnu sniði, Tilaunir í fóðrun á nautgripum þar sem prótein í mjólk var til athugunar. Úr þeim koma nokkuð athyglisverðar niðurstöður/vísbendingar en það vantar nokkuð upp á að þeim sé fylgt eftir með því að koma fróðleiknum á framfæri. Á Stóra-Ármóti er ræktunarkjarni og vambaropskýr sem eru einskonar efnagreiningarverkssmiðjur. Sauðféð var hýst í annarri fjóshlöðunni, þær voru rúnar beint inn á hálm. Svo virðist sem þeim líði mjög vel þarna þrátt fyrir að vera í óeinangraðri byggingu.

 

Svo virðist sem þróunin hafi verið í þá átt að sauðfjársæðingarstöðvarnar séu að verða landsstöðvar þar sem þær þjóna öllu landinu. Að venju hefur verið gefin út vegleg hrútaskrá. Sauðfjársæðingastöðin stendur mjög vel þar sem útflutningur á sæði hefur verið umtalsverður. Tekjur af útflutningi á sæði árið 2000 voru um 1,6 milljónir kr. hefur sá útflutningur verið eingöngu vestur um haf. Áhugi austanhafs hefur verið að kvikna þannig að það hefur verið skoðað að fá ESB leyfi á stöðina svo hægt sé að flytja sæði til Evrópu. Á vegum Sauðfjársæðingarsöðvarinnar voru tveir ráðunautar sendir til BNA á ullar og sauðfjársýningu í New York fylki þar sem íslenska kindin var í öndvegi.

 

Sveinn fór jafnframt yfir hvaða þjónustu Búnaðarsambandið hefur verið að veita einstökum  búgreinum. Í nautgriparæktinni hefur hæst borið á góma Sunnuverkefnið síðan hefur skoðun kúa verið nokkuð veigamikill þáttur. Fjósbyggingarhópurinn hefur verið öflugur vettvangur vangaveltna og umhugsunar. Fræðslu/kynnisferðir er nokkur þáttur og ætlunin er að halda myndasýningu á kúm í janúar.

 

Í sauðfjárræktinni hefur mikill tími farið í haustverkin, þ.e. hrútasýningar, lambaskoðanir og endaði með myndasýningum þar sem bestu veturgömlu hrútarnir í hverri sýslu voru verðlaunaðir. Á fyrri hluta ársins voru gæðastýringarnámskeiðin fyrirferðamikil. Ráðinn var maður til þess að koma á fót svipuðu verkefni og Sunnunni í nautgriparæktinni, þ.e. Sómaverkefnið. Verkefnið er að sigla af stað en það er eins og gengur að um leið og mönnum er fengið eitthvað verkefni í hendur er hætta á að þeir verði gripnir í önnur störf.

 

Það sem hæst hefur borið í hrossaræktinni hjá starfsemi Búnaðarsambandssins eru kynbótasýningarnar, mat á unghrossum og skýrsluhaldið. Í jarðræktinni hefur áburðar- og ræktunarleiðbeiningar, jarðabótaúttektir, mat á landi og landskipti tekið mestan tímann. Aðrar búgreinar  hafa ekki fengið eins mikinn tíma starfsmanna nema þá garðyrkjan þar sem Unnsteinn hefur verið að hálfu verið á vegum Búnaðarsambandsins.

 

Þróunarverkefni hafa verið af ýmsum toga og eru þar umtalsverðar upphæðir sem hægt er að sækja í. Þessi framlög munu aukast á næstu árum.

 

Guðmundur Stefánsson framkvæmdastjóri Lánasjóðs landbúnaðarins var með næstu framsögu. Þar tók hann fyrir fjárhagsstöðu bænda og vaxtastefnu Lánasjóðsins.

 

Guðmundur greindi frá því að Lánasjóðurinn hefði ekki undir höndum beinar tölur sem vísuðu á hvernig fjárhagsstaða bænda væri en hefðu ákveðnar vísbendingar um það miðað við heildarskuldastöðu bænda. Skuldir bænda eru miklar eða um 34 milljarðar kr. Þær skiptast síðan í langtímaskuldir sem nema um 58% af heildarskuldum og skammtímaskuldir sem eru þá 42% af heildarskuldum. Af langtímaskuldunum skiptist það þannig að bændur skulda Lánasjóðnum sem nemur  38% af heildarskuldum.

 

Skuldir eru miklar og eru skuldsetning vaxandi. Það er spurning hversu langt þessi þróun megi ganga. Mest öll fjárfesting í dag er bundin útlögðum kostnaði þar sem nánast öll þjónusta er keypt þetta gerir það að verkum að fjárfestingin verður dýrari fyrir vikið. Skuldþol bænda er mismunandi eftir því hvernig búskap þeir stunda. Það er áætlað að kúabú þoli skuldsetningu upp á þrefalda ársveltu búsins önnur bú þola ekki eins mikla skuldsetningu eða um tvöfalda ársveltu.

 

Hlutverk  Lánasjóðsins er að tryggja landbúnaðinum aðgang að lánsfé til fjárfesinga á æskilegum kjörum sem stuðlar að æskilegri þróun atvinnuvegarins. Lánasjóðurinn er þjónustustofnun ekki stjórntæki og fylgir einungis þeirri landbúnaðarstefnu sem er við líði hverju sinni.

 

Vaxtastefna Lánasjóðsins fellst í því að viðhalda eigin fé, skila hóflegum hagnaði, halda rekstrarkostnaði í lágmarki, halda lágum vöxtum í landbúnaðinum og vera vaxtarleiðandi í landbúnaði.

 

Menn hafa velt því fyrir sér hvort vextir geti orðið of lágir og hvaða ókosti því geta fylgt. Því getur fylgt skakkt arðsemismat á fjárfestingum og getur hleypt lífi í jafnvel óarðbæran rekstur. Getur leitt til fjárfestingagleði og þar af leiðandi jafnvel offjárfestingar. Þegar menn eru að velta fjárfestingum fyrir sér verða menn að hafa í huga að fjárfestingin beri sig.

 

Partur af búnaðargjaldi fer til þess að greiða niður vexti af lánum til bænda (1,15% af afurðarstöðvarverði). Ef framlagið verður lækkað verður það til þess að vextir munu hækka að nokkur leiti. Guðmundur sýndi að þegar sjóðir atvinnuveganna voru sameinaðir í FBA og síðan fluttir til Íslandsbanka hafi vaxtastig á lánsfé til annarra atvinnuvega hafi hækkað um 100%. Það er því hagsmunamál bænda að halda í Lánasjóðinn þar sem öruggara er um að fjármagnið haldist ódýrara en í almenna bankakerfinu.

 

Vanskil bænda eru ekki nánda eins almenn eins og út á hinum almenna markaði. Bændur eru almennt skilafólk og er það þeim til hróss. Vanskilin voru svipuð milli áranna 1999-2000 en það eru merki til þess að þau muni aukast á þessu ári.

 

Hvað er til ráð hjá bændum til að átta sig á stöðu mála. Bændur eru í flestum tilfellum ræktunarmenn og framleiða búvöru. En jafnframt eru menn í rekstri og bera ábyrgð á honum. Þegar bændur standa frammi fyrir fjárfestingum verða þeir að hafa í huga að fjárfestingin sé arðbær og hvaða áhrif  hún hefur á greiðsluflæði reksturins. Greiðsluseðlar eru stundvísir og sjaldnast einhver tregða á flæði þeirra.

 

Það sem bændur þurfa því að gera í auknum mæli er að gera áætlun um reksturinn til þess að þeir geti betur gert sér grein fyrir því hvernig þeir standa og hvaða möguleika þeir hafa til fjárfestingar.

 

Búnaðarsamböndin standa best í þesssari ráðgjöf þar sem þekkingin á kerfinu er mest.  Það þarf því af efla þennan þátt í leiðbeiningarsarfinu, ekki er nóg að hafa vélbúnað það þarf stöðugt að vera að halda þekkingunni við.

 

Unnsteinn Eggertsson og Ólafur Þór Þórarinsson voru með erindi um breytta skattalöggjöf sem vert er að hafa í huga hvort henti bændum.
Helstu breytingar sem von er á árið 2002 er að eignarskattur lækkar úr 1,2% í 0,6%. Tekjuskattur hlutafélaga úr 30% í 18% og einstaklinga úr 26,08% í 25,75%. Afnám verðbólgureiknisskila og einföldun á breytingu einkarekstrar yfir í einkahlutafélag. Hinsvegar hækkar tryggingargjald um 0,77% þann 1.janúar 2003.

 

Úr einstaklingsrekstri yfir í ehf.
– Breyting í ehf. Verður einfaldari en áður þar sem fyrningar, eignir og töp yfirfærast óbreytt, þ.e. enginn söluhagnaður myndast. Eigið fé verður hlutafé.
– Bændur verða launamenn hjá ehf. Launin mega ekki vera lægri en skv. Viðmiðun RSK (reiknað endurgjald 1.080.000 kr á ári).
– Eigendur í ehf. mega lána félaginu en félagið má ekki lána eigendum.
– Bændur geta reiknað sér arð umfarm launatekjur og greiða 10% fjármagnstekjuskatt. Áður verður fyrirtækið búið að borga 18% skatt af hagnaði heildar skattbyrði verður því 28%.
– Uppsafnað tap flyst yfir í ehf.
– Útsvar er ekki lagt á tekjur ehf., heldur á einstaklinga og einstaklingsrekstur.
– Ehf., er hagstæðast þeim sem eru að skila hagnaði af rekstri.
– Skila þarf ársreikning til hlutafélagaskrár þar sem almenningur getur nálgast hann.

 

Anám verðbólgureikningsskila
– Gert er ráð fyrir að taki gildi 2002
– Framreikingur á fyrningum af uppsöfnuðu tapi leggs af. Fyrningaprósentur haldast óbreyttar.
– Verðbreytingafærsla afnumin, þ.e. verðbreytingatekjur og gjöld.
– Söluhagnaður verðu meiri þar sem kaupverð verður ekki lengur framreiknað.
– Skuldsettir bændur sem sýna hagnað munu hagnast mest á breytingunum til að byrja með a.m.k. Hagnaður lækkar hjá þeim þar sem verðbreytingatekjur falla út.

 

Kostir og ókostir við ehf.

 

Kostir
– Lægri skattar
– Lægri söluhagnaður af sölu hlutafjár 10%
– Hrein skipti í ehf.
– Meira aðhald að rekstrinum
– Aðskilnaður heimilisbókhalds og reksturs
– Einfaldar að færa búið úr einkarekstri í ehf.

 

Ókostir
– Eigandi má ekki fá lánað hjá ehf.
– Aukin þörf fyrir bókhaldsþjónustu
– Bókhald fer yfir á bókhaldsstofur og yfirsýn minnkar
– Niðurfærsla söluhagnaðar í íbúð tapst
– Við kaup á ehf. endurnýjast fyrningarstofnar ekki eins og við kaup á eignum í einkarekstri.

 

Ólafur kynnti lítillega nýtt bókhaldsforrit sem er í smíðum og verður sennilega tilbúið til dreifingar um miðjan febrúar 2002. Forritið er í glugga-umhverfi.

 

Í umræðum kom fram að menn verða í raun að skoða hvert einstakt tilfelli fyrir sig til að geta sagt til um það hvort það borgi sig fyrir bændur að skipta um rekstrarumhverfi.

 

Sigurgeir Þorgeirsson var með fjórða erindið á fundinum þar sem hann tók fyrir Gæðastýringuna í sauðfjárræktinni og ræddi um framlög til þróunarverkefna.

 

Hann telur að bændur verði að halda utan um þessi framlög þar sem þau eru ekki framleiðslutengd og ekki hætta  á að þau verði skert þegar kemur til nýrra alþjóðasamninga. Hann fjallaði lítillega um hvað væri í gangi í WTO samningaviðræðurm og að ráðherrar aðildaríkja hefðu komið sér saman um markmið fyrir næstu samningalotu.

 

Það virðist vera á nást lending í hvernig landnota þættir gæðastýringarinnar verði viðkomið. Hann nefnir í því sambandi að ekki væru allir sáttir við þá lendingu en menn verða að fara bil beggja til þess að áformum gæðastýringu náist. Hann brýndi það fyrir fundarmönnum að gæðastýring er ekki kvöð heldur tækifæri fyrir bændur um að bæta sinn rekstur.

 

Fundarstjóri gerið hlé á dagskrá og boðið var upp á kaffi.

 

Þorfinnur Þórarinsson  heiðraði Einar Þorsteinsson frá Sólheimahjáleigu fyrir störf sín hjá Búnaðarsambandi Suðurlands. Einar var gerður að heiðursfélaga Búnaðarsambands Suðurlands.

 

Einar tók til máls og þakkaði fyrir sig.

 

Guðni Ágústsson landbúnaðarráðherra ávarpaði fundinn. Hann gerði það að umtalsefni að bændur þyrftu að standa saman í sínum félagsskap því það yrði landbúnaði til heilla. Miklar breytingar hefðu átt sér stað á undanförnum árum og hann velti því fyrir sér hvaða þróun gæti orðið á næstu árum með það í huga hvað alþjóðasamningar hefðu í för með sér.

 

Hann gerði að umtalsefni verðlagninu á mjólk og ákvörðunin um að fresta gildistöku um frjálsa heildsöluverðlagningu á mjólkurvörum. Hann gerði grein fyrir því að verslunin héldi því fram að þetta væri ólöglegt þar sem samkeppnislög giltu yfir búnaðarlögum. Ef svo færi að samkeppnislögin næðu yfir búnaðarlögin þá leiddi það af sér að menn færu að undir bjóða hvern annan og framleiðsla á dýrari vörum myndi dragast saman.

 

Ekki náðist að kaupa upp 45.000 ærgildin þetta haustið þannig að verslun með greiðslumark í sauðfé verður ekki gefið frjálst á þessu ári. Hann greindi jafnframt frá áhyggjum sínum um hver þróunin yrði á verðgildi greiðslumarksins í framtíðinni. Guðni lítu ekki björtum augum ef að þróunin yrði sú sama og með greiðslumarkið í mjólk.

 

Jákvæð umfjöllun og umræða um landbúnaðinn í þjóðfélaginu hjálpar pólitíkinni að viðhalda því kerfi sem nú er til staðar og varðveita þá starfsemi sem nú er til sveita.

 

Guðni óskaði Einari til hamingju með þann heiður sem honum er sýndur og segir hann vel verðskuldaðan.

 

Umræður og önnur mál
Sigurður Hannesson frá Villingarvatni lýsti skoðun sinni um vanþekkingu vísindamanna landsins á landlæsi. Hann færði  Sigurgeiri Þorgeirssyni bréf þess efnis.

 

Kjartan Ólafsson spurði um stefnu BSSL. Jafnframt spurði hann ráðherra hvort hann hyggðist styðja BSSL eða Sunnlendingum líkt og gert hafi verið í Skagafirði.

 

Hann greindi frá stöðu sölumála hjá garðyrkjubændum. Þar sem smásalan væri sífellt að taka meira til sín. Jafnframt ræddi hann um stöðu garðyrkjunnar gangnvart alþjóðasamningum og kjarasamningum.

 

Þorfinnur Þórarinsson gerði grein fyrir stefnu stjórnar Búnaðarsambandsins um að ekki stæði til að draga seglin saman þó að móti blási heldur að reyna að róa á þau mið sem væru að gefa meira af sér.

 

Hann greindi frá eigin reynslu um að færa sinn rekstur í ehf. Fyrst var það einungis reksturinn en hann reiknar með að það muni borga sig að vera með allar eignir inn í ehf-forminu.

 

Hann hvatti menn um að láta meira heyra í sér út á við og draga þá þætti sem væru jákvæðir. Jákvætt umtal er það sem landbúnaðurinn þarfnast.

 

Um þessar mundir væru nokkur straumhvörf í rekstrinum á Stóra-Ármóti sem helgast af því hvort samþykkt verður að gera samanburðartilraunir á kúakynjum. Ef af verður verða næg verkefni næstu 8-10 árin hvað það varðar en á meðan er hætta á að önnur tilraunastarfsemi verði ýtt til hliðar. Ef tilraunin verði ekki samþykkt er ekki jafn ljóst hver starfsemin verði á næstu árum.

 

Guðmundur Lárusson gagnrýnir fyrirkomulag fundarins og sagði að það væri útilokað að formenn væru jafn til þess fallnir að koma þessum fróðleik á framfæri við sína félagsmenn. Hann telur að þessi fundir eigi að vera opnir öllum bændum.

 

Hann gagnrýnir að gjaldtaka Búnaðasambandsins sé of há miðað við framlög í gegnum búnaðargjaldið. Hans skoðun er sú að menn eigi að borga fyrir þá þjónustu sem þeir sækjast eftir. Hann vill lækka búnaðargjaldið en hækka beina gjaldtöku.

 

Hann telur að aðrir en starfsfólk Búnaðarsambandsins væru betur  til þess fallnir um að leiðbeina bændum við bókhald og rekstri búa.

 

Hann nefndi að honum finnst sú “forræðishyggja” sem á sér stað í  gæðsstýringunni eigi ekki heima í nútímanum. Því fyrr eða seinna detta þeir út sem ekki ná að stýra sínum búskap sem skildi.

 

Hann var með vangaveltur um bústærð og þá þróun sem átt hefur sér stað þar á síðustu árum og deilir ekki áhyggjum landbúnaðarráðherra um þá þróun sem átt hefur sér stað í þeim málum.

 

Sveinn Sigurmundsson spyr ráðherra um hans hug um samþættingu rannsókna, leiðbeiningar og kennslu við reksturinn á Stóra-Ármóti.

 

Hann spyr jafnframt Guðmund Stefánsson um hvaða leið hann telur besta fyrir bændur hvað varðar Lánasjóðinn og þann hluta af búnaðargjaldinu sem fellur honum í skaut.

 

Sveinn svarar Guðmundi Lárussyni hvað varðar þennan fund að reynt hafi verið að bjóða einstökum félögum upp á að halda fræðslu fundi heima í héröðum en viðbrögð hafi verið mjög dræm. Jafnframt svarar hann Guðmundi um að mikil þekkingar uppsöfnun á skattamálum bænda og bændabókhaldi hafi átt sér stað hjá Búnaðarsambandinu og að bókhaldsstofur utan úr bæ hafi verið að sækja í þann sjóð.

 

Sveinn veltir búnaðargjaldinu upp og hann brýnir á því að bændur verða að velta því fyrir sér hvað það kerfi sem þeir búa við skili þeim áður  en þeir vilja breytingar á því. Hlutverk okkar er að vinna sem best fyrir þá fjármuni sem vi höfum og skilgreina einstaka kosnaðarliði sem best. Menn verða að hugsa lengra fram í tímann en nokkur misseri.

 

Björn Harðarson tók til máls og sagði að gæðastýring væri tæki fyrir þá sem ætluðu að standa sig hinir myndu detta út.

 

Hann ítrekaði að Lánasjóður landbúnaðarins væri heillavænlegur kostur fyrir bændur og tók undir orð Guðmundar Sefánssonar.

 

Hann hamraði á því að afurðastöðvarnar væru skjöldur bænda gagnvart smásölunni og að bændur verði að hafa gæfu til þess að standa vörð um sínar afurðastöðvar.

 

Hann nefndi það að Bændasamtök Íslands vantaði “áróðursherra” og að hann væri fljótur að borga sig þó það þyrfti að borga honum vel.

 

Hann ítrekaði það að samstaða bænda væri það sem skiptir máli og hefði úrslitaáhrif hvernig landbúnaðurinn muni þróast á næstu árum.

 

Sigurgeir Þorgeirsson lýsti skoðun sinni á samþættingu kennslu, leiðbeiningar og rannsókna í landbúnaði. Hann sagði að menn hafi ekki efni á því að standa í einhverjum “smákónga” erjum innan þessa geira. Það væru fáir sem vinna í þessum geira að það verður að nýta hvern mann sem best. Honum finnst að RALA og LBH eigi að vera ein og sama stofnunin. Síðan á að tengja landsráðunautana inn á hvert svið þessarar stofnunnar. Útstöðvar yrðu síðan virkar út frá Hvanneyri og Keldnaholti.

 

Hann telur að gjaldtaka Búnaðarsambandsins hafi ekki verið mjög mikil þ.e. innan við eina milljón á síðasta ári miðað við umfang. Það er síðan spurning hvort eigi að trappa búnaðargjaldið niður og þá um leið að auka beina gjaldtöku.

 

Höfuð mál framtíðarinnar verði þó alltaf að halda rétt á spöðunum gangvart afurða og markaðsmálum.

 

Um vaxtarmálin sagði Guðmundur Stefánsson að ef búnaðargjaldið yrði afnumið þá myndi vextir til bænda hækka upp í þá vexti sem eru í gangi á almennum markaði. Það hafi verið barátta á sínum tíma að halda þessum sjóði utan við FBA en það hafi verið mikið heillaspor og halda þessu “gulleggi” bænda utan við þetta.

 

Hann ítrekar að það er samstaða bænda sem skiptir öllu máli.

 

Guðni Ágústsson tekur til máls og minnir á að það sé munur á forsjárhyggju og félagshyggju. Hann minnti á að ASÍ hafi opnað inn á þess umræðu um innflutning á grænmeti. Í gangi er samstarf við ASÍ um að skoða möguleika á að reka fleiri stoðir undir grænmetisbændur svo hægt verði að lækka verð til neytenda. Jafnframt verður að skoða þá verðlagningu sem smásalan er að leggja á vöruna.

 

Hann áréttaði sína hvattningu til bænda og starfsmanna Búnaðarsambandsins og þakkaði fyrir að fá að koma á fundinn.

 

Þorfinnur Þórarinsson tekur að endingu til máls og þakkar fundarmönnum fyrir komuna og framsögumönnum þeirra erindi.
Þorfinnur slítur fundi.

 

Fundarritari
Þröstur Aðalbjarnarson

back to top