Formannafundur 2000

Formannafundur Búnaðarsambands Suðurlands 30. nóvember 2000

 1. Fundarsetning
  Þorfinnur Þórarinsson, formaður Búnaðarsambands Suðurlands setti fundinn. Skipaði Eggert Pálsson fundarstjóra og Jóhannes Hr. Símonarson fundarritara. Eggert tók við stórn.
 2. Kjartan Jóhannsson, fyrrverandi framkv.stjóri EFTA. Áhrif inngöngu í E.B. á íslenskan landbúnað.
  Í máli Kjartans kom fram að landbúnaðarmál væru almennt undanskilin í EES-samningnum. Landbúnaðarvörum skipt í frumframleiðslu og síðan unnar landbúnaðarafurðir. Kostnaður vegna mismunandi framleiðsluaðstæðna bænda jafnaður en unnar vörur tollaðar. Í samningnum gert ráð fyrir að viðskipti með landbúnaðarvörur skuli vera frjálsari. Ísland hefur víðtæk undanþáguákvæði í EES- samningnum. Innflutningsbönn á búfé halda gildi sínu þrátt fyrir EES. Í samningum um GATT er skýrt kveðið á um að innflutningur á dýrum skuli studdur vísindalegum rökum. Markmiðin fimm úr Rómarsamningnum eru; tryggja viðunandi lífsviðurværi landbúnaðarsamfélaga, auka framleiðni í landbúnaði, tryggja stöðugleika á markaði, nægt framboð matvæla og sanngjarnt verð til neytenda. Endurskoðun GATT/WTO samningsins sem kenndur er við Uruguay byggir á að reyna að aðlaga framleiðsluna að markaðnum. Í endurskoðun 1992 komu fram atriði eins og að lækka afurðaverð til framleiðenda en hækka beinar greiðslur. Styrkja bændurna sjálfa fremur en framleiðsluna sjálfa. Aukin áhersla á umhverfismál og fjölþætt hlutverk landbúnaðar. Kjartan fór yfir styrkjakerfi ESB, kornrækt útgjaldafrekust í Evrópusambandinu. Kom fram að menn héldu að taka þyrfti upp allar reglur ESB við inngöngu athugasemdaslaust. Kjartan áréttaði að Svíar og Finnar fengu inn sérákvæði við sína inngöngu og það ætti við um fleiri þjóðir. Taldi upp hina ýmsu styrki sem ESB veitir í landbúnaði. Nefndi t.a.m. staðháttarstyrki (harðbýlisstyrki) s.s. vegna harðbýlli veðráttu eða fjarlægðar frá mörkuðum. Svíar t.d. fá slíka styrki svo og aðrir þeir sem búa norðar en 62 ° breiddar.
  Sjúkdómavarnir innan ESB, Evrópusambandið eitt svæði og sömu vinnuaðferðir viðhafðar. Allar vörur eða dýr eiga að uppfylla sömu kröfur og þannig á að tryggja heilbrigði dýra. Eftirlit fer fram hjá dýralæknisyfirvöldum á hverju svæði (landi) fyrir sig. Hvert land gerir nákvæmar neyðaráætlanir vegna sjúkdóma. Í máli Kjartans kom fram að ef Ísland væri innan ESB yrðum við að taka þátt í landbúnaðarstefnu sambandsins. Markaðurinn yrði sameiginlegur, nema þar sem væru undantekningar vegna sjúkdómavarna. Frjáls „útflutningur“ og frjáls „innflutningur“ til og frá Íslandi og annarra ESB-ríkja. Frjáls samkeppni innan markaðarins ræður verði sem myndi væntanlega leiða af sér lægra verð til neytenda og jafnframt lægra afurðastöðvaverð til framleiðenda á Íslandi. Styrkir ESB kæmu á móti lækkandi afurðastöðvaverði. Kjartan vitnaði í skýrslu utanríkisráðhrerra þar sem fram kemur að staða sauðfjárræktar, mjólkurframleiðslu og nautakjöts yrði næsta óbreytt en staða svína, kjúklinga og grænmetis yrði væntanlega erfiðari. Markaðshugsun ESB stendur ekki jafn ein og áður og mýkri málefni eru farin að skipta sambandið verulegu máli, s.s. umhverfismál. Kjartan telur það fjarri að ESB myndi vera alveg sama um landbúnað á Íslandi. Talaði um að það væri öðruvísi að semja um atriði við land utan „fjölskyldunnar“ en ef það væri sameiginlegt markmið að leita lausna til að tryggja framgang og viðhald meðlims innan hennar.
  Ekki hægt að draga þá ályktun fortakslaust að landbúnaður og úrvinnsla þeirra myndi bíða hnekki, miklu frekar að þar væru sóknarfæri fyrir landbúnað á Íslandi.
 3. Guðmundur B. Helgason, ráðuneytisstjóri landbúnaðarráðuneytisins. Áhrif WTO samninga á íslenskan landbúnað.
  Talaði um þær breytingar sem því fylgdi að fara frá GATT yfir í WTO. Lausn deilumála væru einfaldari innan WTO samningsins. Samningur um hollustu dýra og plantna gerður þannig að ríki ættu erfiðara með að bera fyrir sig tæknilegum hindrunum. Landbúnaðarsamningur WTO á sér 3 meginstoðir; markaðsaðgangur (tollaígildi, lágmarksaðgangur, ríkjandi aðgangur), innanlandsstuðningur (gulur, grænn og blár) og útflutningsstyrki (fjárframlag, vörumagn). Gulur innanlands-stuðningur er framleiðslutengdur stuðningur, grænn stuðningur tengist hvorki framleiðslumagni né framleiðsluþáttum, blár stuðningur er stuðningur samkvæmt fyrirfram ákveðnum framleiðslutakmörkunum og miðast við landstærð, fjölda búfjár eða takmarkast við visst hlutfall af framleiðslu á viðmiðunartímabili. Íslenski markaðurinn því sem næst lokaður fyrir vörum s.s. kjöti, eggjum og smjöri en með WTO samningnum opnaðist fyrir innflutning þessara vara. Reynsla Íslands af fyrirkomulagi WTO almennt góð. Ísland í raun mjög opið fyrir innflutningi landbúnaðarafurða, innflutningskvótar hafa gilt um innflutning á t.d. kjöti, eggjum og smjöri. Strangar heilbrigðisreglur hafa komið í veg fyrir innflutning á kjöti, verð innanlands hefur lækkað og því ekki jafn fýsilegt að flytja inn og áður hefði verið. Ostur, jógúrt og kjúklingar nánast einu unnu landbúnaðarvörurnar sem fluttar hafi verið inn. Innflutningur samt í raun mjög lítill miðað við þá innflutningskvóta sem Ísland hefur tekið á sig. Strangar heilbrigðiskröfur hamla innflutningi. Árstíðabundinn kvóti í blómum og grænmeti. Innanlandsstuðningur hérlendis, styrkir til mjólkurframleiðenda flokkaðir sem gulir, styrkir til sauðfjárbænda flokkaður sem grænir, þ.e. styrkur sem hefur hverfandi lítil áhrif á framleiðsluna. Verðbólga hefur áhrif á skuldbindingu Íslendinga og skekkir hana í raun. Var tekið tillit til í skýrslu til WTO til að geta leiðrétt þá kvóta sem Íslendingar taka á sig. Langtímamarkmið WTO samningsins er að draga verulega úr stuðningi og vernd. Viðræður skulu taka tillit til fenginnar reynslu og áhrifa skuldbindinga á heimsviðskipti og þátta sem ekki eru viðskiptalegs eðlis. 140 ríki eiga nú aðild að WTO. Allar viðræður taka því tíma. Hópur innan WTO með Nýja-Sjáland og Ástralíu í broddi fylkingar þrýstir á um að gulur stuðningur verði lækkaður verulega sem og stuðningur hvers ríkis við innlendan landbúnað. Til varnar okkar landbúnaði hefur samninganefnd Íslands reynt að benda á þætti sem ekki eru viðskiptalegs eðlis, þ.e. hið fjölþætta hlutverk landbúnaðar (e. multifunctionality), s.s umhverfisvernd, byggðasjónarmið, menningararfleið, öryggi matvæla, fæðuöryggi og velferð dýra. Sérstaða landbúnaðar á Íslandi kalli því á sérmeðferð. Þó að innflutningsvernd muni lækka, tollar o.fl. þá mun íslenskur landbúnaður eftir sem áður njóta velvilja ráðamanna en viðræður við WTO verða alltaf að fara fram. Íslenskur landbúnaður nýtur sérstöðu og hana þarf alltaf að vera að leiðrétta fyrir öðrum aðildarríkjum WTO.
 4. Sveinn Sigurmundsson, framkv.stjóri Búnaðarsambands Suðurlands. Framtíðarhorfur og staða Búnaðarsambandsins.
  Rakti stöðu landbúnaðar sl. 10 – 15 ár, þá fækkun og jafnframt stækkun búa sem átt hefur sér stað sl. ár. Fé fækkar en fjöldi hrossa eykst eða stendur í stað, svínabúum fækkar ört og þau stækka gríðarlega. Kom inn á sterka fjármála- og eignalega stöðu Búnaðarsambandsins. Faglega stöðu BsSl. mat hann sterka. Ræddi um dótturfyrirtæki Búnaðarsambandsins. Kynbótastöðin hefur verið með góða þátttöku, þá bestu á landinu. Peningaleg staða stöðvarinnar versnar vegna minnkandi framlega frá ríki. Sauðfjársæðingastöðin, aukin þátttaka utan Suðurlands, útflutningur á djúpfrystu hrútasæði, aðilar að alþjóðlegri ullar og sauðfjársýningu í Bandaríkjunum að ári. Stóra-Ármót, nýr samningur væntanlegur um aukið samstarf við RALA og LBH, stór rannsókn í gangi um efnainnihald mjólkur. Vambaropskýr staðsettar þar sem gefa hugmyndir um meltanleika fóðurs, ýmsar fóðurtilraunir er hægt að gera þar og þar verður gerð samanburðartilraun á NRF og ísl. kýrinnar.
  Kom inn á að húsnæði BsSl. og tækjakostur væri mjög góður. Starfsemi Búnaðarsambanda er settur rammi í búnaðarlögum, ráðgjöf, kennsla og rannsóknir. Kennsla í Fjölbrautarskóla Suðurlands kemur til greina og starfsmaður Bændasamtaka Íslands er velkominn á skrifstofu Búnaðarsambandsins ef ákvörðun um það væri tekin. Aukin áhersla lögð á sérhæfða ráðgjöf s.s. SUNNA og SÓMI. Tölvur og internet leika stöðugt stærra hlutverk. Fyrirsjáanlegt að búfjáreftirlit færist meira á hendur Búnaðarsambandsins og að nágrannaeftirlit í sveitum minnki. Aukin samvinna við atvinnuþróunarsjóð, dýralækna og landgræðslu. Búnaðarsambandið sinnir blönduðum verkefnum, fagleg störf, félagsleg störf og eftirlitsstörf. Starfið fjármagnað af bændum í gegnum félagsgjöld og sjóðagjöld, einnig fjármagnað af ríki og með seldri þjónustu.
  Styrkleikar Búnaðarsambandsins; öflugt fyrirtæki bænda, gefur möguleika á sérhæfingu starfsmanna en jafnframt samvinnu við aðra innan skrifstofunnar. Endurmenntun starfsmanna og þróun verkefna auðveldari. Veikleikar Búnaðarsambandsins; ekki nógu skilvirkt, starfsmenn í of mörgu, erfitt að sjá fyrirfram hvaða tekjur verða af búnaðargjaldi og hafa þarf í huga samkeppnislög.
 5. Guðmundur Jóhannesson og Runólfur Sigursveinsson. Ráðgjafaþjónusta í landbúnaði.
  Runólfur hafði framsögu. Ræddi um þá ráðgjafaþjónustu ýmiskonar sem Búnaðarsambandið stendur í s.s. útgáfu, fundum og námskeiðum og einstaklingsráðgjöf sem alltaf er að aukast. Notendum ráðgjafarinnar má skipta í fjóra hópa; eldri bændur er huga að starfslokum, bændur í fullum rekstri, tómstunda“bændur“ og aðra notendur s.s. afurðasölufyrirtæki og skóla. Fjallaði um ráðgjafamiðstöðvar, þjónustugjöld og breytingar sem þeir félagar vildu sjá. Aðgengi bænda og ráðunauta að fyrirliggjandi upplýsingum er nauðsynlegt, fagnaði fyrirhuguðu aðgengi einstakra bænda að upplýsingum MBF um viðskiptin í gegnum heimasíðu MBF. Jafnframt vildu þeir sjá frekari samhæfingu (sameiningu) kennslu, rannsókna og ráðgjafar.
 6. Ari Teitsson formaður stjórnar Bændasamtaka Íslands. Framtíð íslensks landbúnaðar og framtíðarsýn Bændasamtakanna.
  Fannst ánægjulegt að sjá hve ráðunautar BsSl. væru sammála því sem hann ætlaði að segja. Kvaðst sammála þeim hugmyndum að sameina RALA og LBH þar sem íslenskur landbúnaður væri smár í sniðum og fámennur. Vildi sjá betri tengsl leiðbeiningaþjónustu og rannsókna og að leiðbeiningarnar yrðu á hendi færri og stærri miðstöðva. Aukin nýting internetsins taldi hann sérlega ánægjulega þar sem slík tækni sé þeim mikilvægust sem búa dreift. Hægt að kynna sér efni með auðveldum hætti, bæði innanlands- og erlendis frá. Kom inn á væntingar bænda til afurðastöðva. Fyrst og fremst væri um að ræða viðuandi afurðastöðvaverð, afsetning afurða væri tryggð svo og stöðugleiki til framtíðar. Samskiptum bænda og stjórnvalda væri mikilvægt að halda sem bestum og lagaumhverfi landbúnaðarins taldi hann í góðum farvegi. Búvörusamningar eru sérlega mikilvægir og að þeir séu gerðir til langs tíma til að tryggja stöðugleika og öryggi búgreinanna. Tollvernd gerði hann að umfjöllunarefni, að hún væri Íslendingum mikilvægari en margra annarra ríkja. Sagði okkur ekki alveg sjálfráða í þeim efnum, smæð Íslands hefði þar áhrif í alþjóðlegu umhverfi. Rakti stuðning Íslands við landbúnað í samanburði við aðrar þjóðir. Stuðningur Íslands nemur 68% af framleiðsluverðmæti sem er mjög mikið miðað við 49% hjá ESB ríkjum. Þá ítrekaði Ari að ímynd landbúnaðarins væri okkur sérlega mikilvæg, vöruverð og vörugæði eru þeir þættir sem neytendur líta fyrst á og dæma íslenskan landbúnað út frá fyrst og fremst. Ásýnd landbúnaðarins s.s. umhverfi bændabýla er mikilvægt sem og meðferð landsins. Rakti í lokin kjör bænda og að flótti bænda úr stéttinni segði sína sögu. Margt bendir til að minnkandi tollvernd og lækkandi verð fáist fyrir afurðirnar. Styrkir framtíðarinnar virðast ætla að færast frá beinni framleiðslu út í einhvers konar byggðastyrki. Sér fyrir sér að landbúnaður verði áfram öflugur á Íslandi þó hann verði með einhverjum öðrum hætti en nú er.
 7. Kaffihlé
 8. Umræður:
  Guðni Ágústsson, landbúnaðarráðherra.
  Fagnaði umræðu um framtíð landbúnaðarins, Evrópuaðild og fleira. Þakkaði fyrir það tækifæri að kynna hinn nýja ráðunneytisstjóra landbúnaðarráðuneytisins, Guðmund B. Helgason. Stappaði stálinu í bændur, kvað framtíðina fulla af möguleikum, lífið héldi áfram og breytingar þyrftu ekki alltaf að vera slæmar þó sumar væru sárar. Horfa bæri til framtíðar en syrgja ekki fortíðina. Talaði um að ímynd sveitanna væri mikilvæg og að glæsilegt markmið væri að styrkja fjárhag bændanna. Ræddi um of hátt verð á greiðslumarki mjólkur. Fyrst og síðast væri það þó bændanna sjálfra að gera sem mest úr sínu, taldi t.d. að vélasalinn væri enn of nærri hjarta bænda. Fjallaði um ákvörðun sína um að leyfa samanburðartilraun á NRF og íslensku kúnni og jafnframt um þá tilraun að hámarka afkastagetu íslensku kýrinnar. Tækifærin væru mörg um sölu íslenskra afurða, sérstaklega í ljósi nýuppkominna sjúkdóma erlendis. Hrein ímynd íslensks landbúnaðar væri hans sterkasta vígi. Í því sambandi bað hann sunnlenska bændur að taka þátt í verkefninu „Fegurri sveitir“.Guðmundur Lárusson, Stekkum
  Þakkaði landbúnaðarráðherra hugrekkið að leyfa samanburðartilraun. Vildi ekki meina að kvótaverð væri allt of hátt, markaðurinn réði því verði sem nú ríkti. Gerði að umtalsefni hvort fundur sem þessi ætti rétt á sér og hvort félagsleg þátttaka bænda að Búnaðarsambandinu væri endilega sú rétta eins og hún er í dag. Taldi réttar að hafa fundinn opinn öllum sem vildu. Dragbít landbúnaðarins taldi hann vera fortíðarhyggju, lítið væri gert annað en að tala en minna framkvæmt. Fannst ekki koma skýrt fram í máli Ara hver framtíðarsýn Bændasamtakanna væri í raun.Soffía Sigurðardóttir, Útvarpi Suðurlands.
  Kom með fyrirspurn til frummælenda um hvort það væri rétt skilið hjá sér að vinnslustöðvarnar yrðu undir í samkeppninni við innflutta vöru þó fjárhagsstaða íslenskra bænda yrði svipuð með styrkjum ESB. Ef svo væri, til hvers væru þá íslenskir bændur að framleiða vöru ef engar væru afurðastövarnar?

  Kjartan Jóhannsson svaraði fyrirspurn Soffíu.
  Skýrsluhöfundar skýrslu utanríkisráðherra bera ugg í brjósti vegna þess að markaðurinn sé svo lítill. Sjálfur telur hann þetta rangt, með inngöngu í ESB myndi markaðurinn stækka og vera sá sami og hjá öllum öðrum, jöfnun aðstöðumunar tryggði þannig bærilega góða afkomu bæði bænda og afurðastöðva. Samvinna eða jafnvel sameining við erlendar afurðastöðvar myndi sjálfsagt koma til en það þyrfti ekki endilega að vera af hinu slæma. Þá komi til þekking og reynsla Íslendinga.

   

 9. Þorsteinn Ólafsson, Guðmundur Jóhannesson og Jóhannes Hr. Símonarson. Fræðsluferð til Nýja-Sjálands í máli og myndum.
  Guðmundur fór yfir tölulegar upplýsingar um landbúnað á Nýja-Sjálandi og rakti í grófum dráttum fjölda búfjár og tegundir og afurðir gripanna. Þorsteinn og Jóhannes sýndu síðan myndband sem þeir höfðu tekið á ferð sinni um Nýja-Sjáland og útskýrðu jafnóðum það sem fyrir augu bar.
 10. Þorfinnur Þórarinsson þakkaði frummælendum framsöguna og fundarmönnum fyrir komuna, einnig þakkaði hann landbúnaðarráðherra fyrir hans innlegg sem og öðrum sem kváðu sér hljóðs.

Fundi slitið kl. 17.55

Jóhannes Hr. Símonarson
ritaði fundargerðina.

back to top