Meðferð sauðfjár í kjölfar eldsumbrota

Ráðunautar BSSL og sérfræðingar LbhÍ svara nokkrum spurningum.


Hvað á að gera ef vart verður við öskufall?
Gosaska getur valdið dýrum óþægindum. Það eru einkum augu og  öndunarfæri sem eru viðkvæm fyrir ertingu. Berist askan ofaní gripi getur hún sært slímhimnu meltingarfæranna og valdið blæðingum og skitu.  Í öðru lagi inniheldur askan flúor sem binst við kalsíum í fóðri og getur þannig valdið doðaeinkennum í skepnum.  Til að forðast bráðaeitrun flúors er því mikilvægt að forða skepnum undan öskufalli, hýsa eða flytja annað ef mögulegt er.


Hver eru helstu einkenni flúoreitrunar?
Einkenni bráðrar eitrunar eru deyfð, slefa, og nasarennsli, hósti eða hnerrar, hröð öndun, lystarleysi, niðurgangur, sjóndepurð og blinda, lamanir og meðvitundarleysi. Einkenni langvinnrar flúoreitrunar eru skemmdir í tönnum, beinaskemmdir, vanþrif og lamanir. Ungviði í vexti safnar flúor hraðar í bein en eldri dýr. Oftast líða nokkrir mánuðir þar til einkenna hægfara eitrunar verður vart.


Er óhætt að láta lambfé út þar sem fallið hefur aska?
Ekki er óhætt að setja fé út á svæði þar sem öskufall var, án samráðs við sérfræðinga. Fé nagar nýgræðinginn sem kemur upp úr öskunni og það getur valdið bráðri flúoreitrun. Auðleyst flúorsambönd sogast fljótt úr meltingarvegi og finnast eftir fáar mínútur í blóði og ná hámarki á fáum klukkutímum.


Hvernig er helst hægt að haga meðferð fjár þar sem ekki er hægt að setja féð út?
Gott er að koma fyrir smá afdrepi fyrir lömbin þar sem þau hafa aðgang að kjarnfóðri, heyi og vatni fyrir sig. Slíkt afdrep getur verið sér rými í húsinu með opum sem eru það lítil að eingöngu lömbin komast þar inn. Góður aðgangur að fóðri og ekki síst vatni fyrir lömbin ver ærnar, minnkar mjög hættuna á óþarfa sogi og þar með spenasárum og júgurbólgu. Jafnframt ætti vöxtur lambanna að verða mun betri en ella. Valsað bygg, súrsað eða þurrkað, er fyrirtaks viðbótarfóður fyrir lömb. Sé það blandað við próteinríka köggla (ungkálfaköggla) í hlutföllunum 4 (bygg) á móti 1 (kögglar) ætti árangurinn að verða enn betri. Það er í góðu lagi að lömbin hafi frjálsan aðgang að slíku fóðri. Svipuð byggblanda fyrir ærnar í hæfilegum skömmtum (100-300 g/dag eftir heygæðum o.fl.) ætti að hjálpa þeim við að halda nytinni á innistöðunni.


Hvenær er hægt að setja út fé þar sem aska hefur fallið?
Úrkomu þarf til að skola flúorinn úr öskunni og gera beitilönd hættulítil. Miðað við að flúormagnið í öskunni sé 850 ppm þá þarf a.m.k. 1,5mm úrkomu fyrir hvern cm í þykkt öskulags. Rétt er þó að láta sérfræðinga meta útskolun áður en fé er hleypt út. Á öskufallssvæðum er ætíð mikilvægt að tryggja skepnum hreint drykkjarvatn. Kanna þarf ástand vatnsbóla og sjá til þess að yfirborðsvatn berist ekki í þau. Flúormagn í grasi og öðru umhverfi lækkar mjög ört eftir að öskufalli lýkur svo fremi sem úrkomu gætir. Upptaka plantna af flúor er mjög takmörkuð, þannig að skaðinn af flúornum er fyrst og fremst á meðan hann er útvortis á plöntunum, þ.e. á meðan rigning og önnur náttúruöfl ná ekki að fjarlægja öskuna af yfirborði gróðurþekjunnar.  Eðlilegt er að gefa fénu með beitinni a.m.k. eitthvað fram eftir sumri.


Hvaða þætti þarf helst að hafa í huga við beit?
Ólíklegt er að afréttir í kringum gosstöðvarnar nýtist til beitar í sumar. Reikna má með að áhrifa öskufallsins gæti lengur á rýrara landi, því gæti þurft að brúa einhver bil í lengri eða skemmri tíma með beit á ræktað land og/eða láglendan úthaga.
Túnbeit eitthvað fram á sumarið er vissulega nokkuð dýr valkostur en skilar góðum vaxtarhraða hjá lömbunum á meðan beit er næg en grösin þó ekki mjög sprottin. Séu ónotuð tún einhvers staðar í boði hlýtur að vera þess virði að nýta þau ef aðstæður leyfa.
Láglendur úthagi getur verið þokkalegt beitiland snemmsumars en sprettur fljótt úr sér. Skiptibeit sauðfjár með hrossum er möguleiki sem vert er að huga að, þá eru hrossin látin hreinsa upp en sauðféð er síðan rekið inn í hólfið þegar nýgræðingurinn nær sér aftur á strik.
Grænfóðurbeit er líka eins og bændur þekkja öflug leið til að halda uppi vaxtarhraða lambanna. Margir nota vetrarrepju og vetrarrýgresi til haustbötunar. Þessar tegundir geta auðveldlega verið tilbúnar til beitar í lok júlí eða byrjun ágúst sé þeim sáð mjög snemma. Ef á að fá grænfóðurbeit ennþá fyrr má nota snemmvaxnar tegundir eins og sumarrepju en slíkar tegundir hafa fremur stuttan nýtingartíma.


Hvaða áhrif hafa þessar aðstæður á annað heilsufar fjárins?
Eins og sauðfjárbændur vita þá er löng innistaða mjög óheppileg fyrir lambfé, meira álag verður á ærnar og einnig er smitálag sjúkdóma meira þar sem fé er haldið í litlu rými.  Aukin hætta er á meltingarfærasjúkdómum bæði af völdum coligerla og hnísla.  Tryggja þarf ám og lömbum hreint vatn og halda þarf undirlagi þurru með því að bæta daglega við hálmi. Ef skitu verður vart er nauðsynlegt að bregðast skjótt við og leita dýralæknis.
Selenstaða unglamba er yfirleitt lág og umtalsverð hætta á stíuskjögri (hvítvöðvaveiki) sérstaklega ef innistaða dregst á langinn.  Rétt er í samráði við dýralækni að meðhöndla öll lömb með fyrirbyggjandi vítamín- og snefilefnalyfjum.  
Í öllum tilvikum, þegar beitt er á ræktað land eða þröng láglendishólf, byggist upp smit orma og hnísla. Einnig er aukin hætta á flosnýrnaveiki og garnapest. Meta þarf aðstæður á hverjum stað og skipuleggja fyrirbyggjandi aðgerðir í samráði við dýralækni. 


Fanney Ólöf Lárusdóttir
Þórey Bjarnadóttir
Grétar Hrafn Harðarson
Jóhannes SveinbjörnssonHeimildir:
Eggert Gunnarsson, 2010. Áhrif öskufalls á búpening. (heimasíða Keldna)
Sigurður Sigurðarson, 2010. Áhrif eldgosa á dýr. (heimasíða Matvælastofnunar).

back to top