Leiðbeiningar vegna vinnuvéla á öskusvæðum

Vinnuvélar eru síður en svo hannaðar til að þola eldgos og allt sem þeim fylgir. Vélafyrirtækið Vélfang hefur gefið út á vef sínum gagnlegar leiðbeiningar fyrir vélaeigendur á öskusvæðum. Það er Guðmundur Sigurðsson, verkstæðisformaður og þjónustustjóri Vélfangs, sem tók eftirfarandi pistil saman:


Hér eru nokkur atriði sem þarf að huga að vegna fínnar ösku eins og nú leggst yfir Suðurland.  Þessi örfína aska er engum holl.  Hér kemur smá listi yfir þá hluti sem vert er að hafa í huga og geta forðað frekara tjóni.


1. Loftsíur. Vélin notar óhemjumikið loft (meðal dráttavél notar 3-8 m3 á mínútu). Þess vegna er mjög mikilvægt að loftsíur fyrir mótorinn séu í góðu lagi. Ytri loftsíuna ætti að taka úr og hrista reglulega úr henni með því að slá henni t.d. utan í dekkið. Ef blásið er úr síunni ber að forðast að vera með mjög öflugan blástur of nálægt henni því of kraftmikill blástur rífur upp síuna og gerir hana grófari. Fyrir innan aðalsíuna er oft lítil sía sem er öryggissía til þess að vernda mótorinn ef ytri sían gefur sig eða eitthvað kemst framhjá henni eða í gegnum hana. Margar vélar eru með forsíur sem annað hvort eru við loftinntak eða í endanum á síuhúsinu.


2. Miðstöðvarloftsíur. Loftsíur fyrir miðstöðvar eru mjög mikilvægar en vilja oft gleymast. Þær eru til að tryggja hreint loft fyrir ökumanninn og því áríðandi að þær séu í lagi. Þær vernda líka mjög fíngerð miðstöðvarelement fyrir því að stíflast og hlífa legum og fóðringum í miðstöðvarmótor. Sumir vélaframleiðendur bjóða eiturefnasíur fyrir miðstöðvar sem sía enn betur heldur en venjulegar síur.


3. Smurolía. Mjög mikilvægt er að fylgjast með smurolíunni. Þegar loftsía er óhrein verður undirþrýstingur í vélinni meiri en ella. Það orsakar meiri brennslu af smurolíu sem sogast upp með stimpilhringjum, niður með ventlum og inn úr túrbínu. Við þessar aðstæður getur líka sogast inn um opna öndun á mótor sem verður til þess að smurolían fær í sig ösku og skemmist.


4. Hráolíusíur. Hráolíukerfi í dag eru mun viðkvæmari en þau voru áður fyrr, spíssar mun háþrýstari með fínni bunum og mjög nákvæmum rafstýribúnaði. Þetta kallar á fínni og betri síur sem nauðsynlegt er að skipta um reglulega. Askan smígur inn á ólíklegustu stöðum og er hráolíutankur þar engin undantekning. Öndun á hráolíutönkum er í gegnum áfyllingartappa eða sér öndunarrör upp úr tanknum, þar eru möguleikar á að askan komist inn.


5. Kælikerfi. Kælivatn er í flestum nýrri vélum í ágætlega lokuðum kerfum og ætti ekki að vera í mikilli hættu. En í sumum vélum getur aska sogast inn í kælivatnið þegar vélin kólnar og þrýstingur fellur á vatnskerfinu. Kæliviftan flytur mikið magn af lofti í gegnum vatnskassa, vökvakæla, loftkælingarkæli, millikæli fyrir mótor, hráolíukæli o.s.frv. Askan sest í kælana og þéttist mjög þegar rakt loft kemur í hana og því er mikilvægt að blása úr kælunum og halda þeim hreinum.


6. Vökvakerfi. Vökvakerfi eru oft sambyggð gírkössum. Vélar sem útbúnar eru öndunarsíum á vökvakerfistönkum eða gírkössum eru betur í stakk búnar til að hreinsa loft sem kemur inn á tankana í hitabreytingum eða þegar mikið er tekið af olíu af tankinum í einu (t.d. sturtuvagn o.þ.h.).  Þar sem ekki er öndunarsía er loft oft dregið inn með olíukvarða eða lofttappa án síu. Þá er hætta á að sogist inn aska sem skemmir olíuna.


7. Askan. Ný aska er með skarpar og beittar brúnir, því slítur hún þeim hlutum mikið sem hún nær að nuddast við, t.d. inni í mótorum, túrbínum, gírkössum og vökvakerfum. 
Ef aska liggur á lakki þá bítur hún sig í lakkið og á auðvelt með að rispa það sé hún þurrkuð eða teiknaðar myndir o.þ.h. Hún skemmir rúður auðveldlega ef rúðuþurrkur eru notaðar. Best er ef askan fýkur af eða er skoluð af með köldu vatni án þess að kústa hana.


/ Guðmundur Sigurðsson, þjónustustjóri Vélfangs.

back to top