Ábendingar vegna langrar innistöðu sauðfjár

Bændum er ráðlagt að hafa samráð við sína dýralækna um fyrirbyggjandi aðgerðir vegna langrar innistöðu, þröngra beitarhólfa og hey- og kjarnfóðurgjafar.

Það sem helst ber að varast:


  • Í þröngri vist er aukin hætta á sýkingum vegna umhverfissýkla, t.d. kólísýkla. Einkennin eru td. slefsýki og skita. Til forvarna er gott að gefa AB-mjólk eða Lamboost, við sýkingum fúkkalyf og stemmandi lyf.

  • Á sumum bæjum hefur borið á liðabólgu vegna rauðsýki. Þrengsli geta einnig magnað upp sýkingar af þessu tagi.

  • Í þrengslum er rétt að bera joðspritt á naflastrenginn strax eftir fæðingu.

  • Hætta er á júgurbólgu í ánum þegar lömbin stækka og verða aðgangsharðari.

  • Töluverð hætta er á sýkingum af völdum klostrídíumsýkla, t.d. garnapest og flosnýrnaveiki. Ærnar geta fengið garnapest við snögg fóðurskipti til hins betra, falleg lömb geta fengið flosnýrnaveiki nokkurra vikna gömul og að áliðnu sumri geta lömbin fengið garnapest á kröftugri beit. Því er ráðlegt að bólusetja öll lömb um þriggja vikna aldurinn með þrívirku bóluefni og ungar kindur hrúta og ær hafi það ekki verið gert fyrir sauðburð.

  • Ormasmit eykst mikið í þrengslum, ráðlegt getur því verið að gefa fénu ormalyf samkvæmt leiðbeiningum dýralækna. Vakin er athygli á mismunandi útskolunartíma ormalyfja.

  • Hníslasótt getur sömuleiðis magnast upp í þrengslum, fáið aðstoð dýralækna til að halda henni í skefjum.

  • Aska getur haft særandi áhrif á öndunarfæri, augu, meltingarveg og húð. Miklivægt er að vera á varðbergi gagnvart sýkingum sem komið geta í kjölfarið.

back to top