Um hrútasýningarnar 2005
Hauststörfin í sauðfjárrækt gengu vel fyrir sig og var lokið að mestu upp úr mánaðamótum október/nóvember. Lambaskoðanir hófust síðustu dagana í ágúst og skipulagðar sýningar hófust 15. september. Gimbraskoðanir og afkvæmarannsóknir hrúta fóru fram samhliða hrútaskoðunum eftir því sem bændur óskuðu eftir og tími leyfði. Með tilkomu samnings milli Búnaðarsambands Suðurlands og Búnaðarsambands Austur-Skaftfellinga sá Búnaðarsamband Suðurlands um skipulagningu sýninga í Austur-Skaftafellssýslu í samstarfi við bændur þar.
Að dómsstörfum komu Fanney Ólöf Lárusdóttir, Guðlaug Berglind Guðgeirsdóttir, Guðmundur Jóhannesson, Grétar Már Þorkelsson, Halla Eygló Sveinsdóttir, Haukur Bjarnason, Jón Viðar Jónmundsson, Oddný Steina Valsdóttir og Óðinn Örn Jóhannsson. Sólrún Ólafsdóttir sá um skráningar á dómum í tölvu. Óvenju margir komu að störfunum í haust en starfsmenn komu reyndar mismikið að störfunum. Á tímabili veitti ekki af þessum mannskap því á tímabili voru fjögur ómtæki í gangi og mikið skoðað á fáum dögum.
Fulldæmdir voru hátt í 2.800 lambhrútar, 677 veturgamlir hrútar og milli 9-10.000 gimbrar. Þetta er aukning frá í fyrra sem skýrist með skoðunum í Austur-Skaftafellssýslu en einnig var aðeins aukning í hinum sýslunum þremur.
Fjórir sauðfjárræktarfundir voru haldnir 23. og 24. nóvember og var mæting nokkuð góð, um 140 manns mættu. Á fundunum var farið yfir niðurstöður hrútasýninga, stöðu Sauðfjársæðingastöðvarinnar, niðurstöður afurðaskýrsluhaldsins 2004 auk þess sem hrútakostur Sauðfjársæðingastöðvarinnar kynntur og Jón Viðar fór yfir ýmsan fróðleik,. Endað var á verðlaunaveitingu. Verðlaunaðir voru 5-7 efstu hrútar með hæstu heildareinkunn í BLUP kynbótamati í hverri sýslu en fjallað er nánar um það annars staðar í fréttabréfinu. Einnig voru verðlaunaðir 10 efstu lambhrútar hverrar sýslu þar sem fyrst var raðað eftir samanlögðum stigum fyrir bak, malir og læri (BML). Ef lambhrútar voru þá jafnir var raðað eftir heildarstigum og síðan raðað eftir ómvöðva ef lambhrútar voru jafnir fyrir BML og heildarstig. Hálft stig var dregið af BML hjá einlembingum fæddum og gengnum.
Veturgamlir hrútar
Alls voru dæmdir 677 veturgamlir hrútar í sýslunum fjórum, þ.a. voru 134 í Austur-Skaftafellssýslu. Í Árnes-, Rangárvalla- og Vestur-Skaftafellssýslu voru dæmdir 543, 52 fleiri en 2004. Mestur fjöldi dæmdra hrúta var í Skaftártungu (55), Kirkjubæjarhreppi (53) og Nesjahreppi (42). Meginpartur hrútanna fóru í I verðlaun eða 99%. Vænleiki hrúta var að meðaltali 84,1 kg, heldur minni en 2004. Þá voru hrútarnir að meðaltali 84,4 kg. Af þessum 677 hrútum voru 434 undan sæðingahrútum (65%), 387 undan þeim hyrndu og 47 undan þeim kollóttu. Tekið skal fram að í langflestum tilfellum eru heimahrútarnir undan eða út af sæðingahrútum. Af hyrndu hrútunum átti Hylur flesta syni 71, Lóði 62 og Dreitill 43. Af kollóttu hrútunum átti Sólon flesta syni 14 og Arfi 10. Hylur var að jafnaði að koma sterkastur út af sæðingahrútunum.
Veturgamlir hrútar verða verðlaunaðir á fræðslufundum í sauðfjárrækt sem haldnir verða í mars n.k. og verður þá eins og síðast stigahæstu hrútunum fyrir samanlögð stig fyrir bak, malir og læri raðað eftir útkomu fyrir sláturlömb.
Lambhrútar
Skoðaðir voru um 2.800 lambhrútar í sýslunum fjórum. Þar af voru 125 lambhrútar dæmdir á Ytri-Skógum vegna afkvæmarannsóknar fyrir Sauðfjársæðingastöðina. Mikið úrval var af góðum hrútsefnum og margir sæðingahrútar að gefa mjög góð hrútsefni.
Af þessum 2.800 lambhrútum voru rétt tæpir 1.500 lambhrútar undan sæðingahrútum. Af hyrndu sæðingahrútunum átti Frosti langflesta syni eða 234, þar á eftir komu Lóði 153, Týr 117 og Áll 101. Af kollóttu sæðingahrútunum átti Ægir flesta eða 63, síðan komu Langidalur 47 og Glæsir 43.
Eins og fram hefur komið voru stigahæstu lambhrútarnir fyrir samanlögð stig fyrir bak, malir og læri (BML) verðlaunaðir. Í sýslunum fjórum voru 163 lambhrútar með 36 stig eða meira fyrir BML og er það mikill fjöldi hátt stigaðra lambhrúta. Af þeim voru 90 undan sæðingahrútum (56%). Margir sæðingahrútar áttu 1-3 syni í þessum hópi en Frosti átti flesta syni 22, Áll 10, Týr 9, Moli 8, Grímur 6 og Hækill 5.
Fanney Ólöf Lárusdóttir