Um hrútasýningarnar 2004

Hrútasýningar 2004
Skipulag haustsins var með svipuðu sniði og síðustu ár. Mesti annatíminn er frá enduðum september og út október. Afkvæmarannsóknir hrúta og gimbraskoðanir fóru fram samhliða hrútaskoðunum eftir því sem bændur óskuðu og tími leyfði.

Hinn mikli áhugamður um sauðfjárrækt  Vilhjálmur Eiríksson á Hlemmiskeiði veitti verðlaunum fyrir besta lambhrútinn í Árnessýslu viðtöku fyrir sveitunga sinn Jökul á Ósabakka.
Að dómsstörfum komu Guðlaug Berglind, Óðinn Örn, Jón Viðar, Elín Heiða, Halla Eygló, Haukur Bjarnason og Fanney Ólöf. Sólrún Ólafsdóttir sá um skráningar á dómum í tölvu og aðstoðaði við úrvinnslu.
Skoðaðir voru um 3.000 hrútar á Suðurlandi í haust og er það töluvert meira en á síðasta ári. Að auki fór Fanney Ólöf í Austur-Skaftafellssýslu og dæmdi um 600 hrúta og 1.500 gimbrar.
Líkt og undarfarin haust voru haldnir sauðfjárræktarfundir í sýslunum þremur þar sem haustið var gert upp, sæðingahrútar kynntir, farið yfir niðurstöður skýrsluhaldsins 2003 og veitt verðlaun. Á fundina þrjá mættu 130 manns sem er mjög ánægjulegt.


Veturgamlir hrútar
Dæmdir voru 492 veturgamlir hrútar í haust og fóru 99% þeirra í I verðlaun. Skoðaðir voru töluvert færri hrútar nú en í fyrra eða um 50 færri. Vænleiki var heldur minni en 2003 yfir Suðurland. Af þessum 492 hrútum voru 226 undan sæðingahrútum, 184 undan þeim hyrndu og 42 undan þeim kollóttu. Af hyrndu hrútunum voru flestir undan Áli (42) og Vísi (25). Af kollóttu sæðingahrútunum voru flestir undan Arfa (13). Synir Áls, Dreitils og Vísis komu best út að jafnaði.
Mikið úrval var af fallegum veturgömlum hrútum í haust. Líkt og í fyrra stóð til að verðlauna þá hrúta sem besta útkomu eru að fá sem einstaklingar og fyrir sláturlömb. Þar sem tími var naumur og mikil vinna yrði að kalla inn upplýsingar um lömb undan stigahæstu hrútunum var ákveðið að fresta verðlaunaveitingu fyrir veturgömlu hrútana þar til í mars á næsta ári þegar niðurstöður skýrsluhaldsins liggja fyrir. Á fundunum voru kynntir tíu stigahæstu hrútarnir fyrir samanlögð stig fyrir bak, malir og læri og afhentur listi yfir enn fleiri. Hægt er að nálgast það skjal á heimasíðunni.


Lambhrútar
Skoðaðir voru yfir 2.540 lambhrútar á Suðurlandi í haust. Þar af voru 225 lambhrútar dæmdir í Teigi I og Ytri-Skógum vegna afkvæmarannsóknar fyrir Sauðfjársæðingastöð Suðurlands. Sjaldan eða aldrei hefur verið eins mikið úrval af góðum hrútsefnum á Suðurlandi og í ár og ómvöðvamælingar þær mestu frá upphafi mælinga.
Af þessum 2.540 lambhrútum sem voru skoðaðir voru 1.162 undan sæðingahrútum. Af hyrndu sæðingahrútunum áttu Hylur (158) og Lóði (147) langflesta syni. Arfi (50) og Sólon (43) áttu flesta syni af kollóttu sæðingahrútunum.
Líkt og tvö síðustu ár voru stigahæstu lambhrútarnir fyrir samanlögð stig fyrir bak, malir og læri verðlaunaðir. Ef hrútar eru jafnir fyrir þessa eiginleika samanlagt ráða heildarstigin og þá ómvöðvi, lögun og ómfita. Á fundi Sauðfjárræktarnefndar Búnaðarsambands Suðurlands í haust var samþykkt að “refsa” einlembingum. Ákveðið var að hafa það fyrirkomulag einfalt og draga 0,5 stig af bak+malir+læri, (0,125 stig af baki, 0,125 af mölum og 0,25 af lærum), hjá fæddum einlembingum og gengnum. Rökin fyrir þessu fyrirkomulagi er að einlembingar eru í flestum tilfellum feikna vænir gripir og því yfirleitt heldur hátt stigaðir.
Eftir fundina kom í ljós að í Árnessýslu hafði fyrir mistök fallið niður skráning á nokkrum lambhrútum og að þrír þeirra hefðu átt að taka verðlaunasæti, þ.e. 8., 9. og 10. sæti. Þetta hefur verið leiðrétt í töflunni fyrir Árnessýslu og ákveðið hefur verður veita þeim verðlaun á fræðslufundunum um sauðfjárrækt sem haldnir verða í mars á næsta ári. Lambhrútarnir sem fengu viðurkenningu fyrir þessi sæti munu halda sínum verðlaunum enda eru allir þessir lambhrútar efnileg hrútsefni og eiga verðlaun skilið.
Hægt er að nálgast lista yfir alla lambhrúta með 36,0 eða meira fyrir samanlögð stig fyrir bak, malir og læri í sýslunum þremur á netinu. Lambhrútar með mikla galla eins og t.d. skakkt bit hafa þó verið teknir út af listanum enda ekki ásetningshæfir.  Eins og sjá má á þessum lista er mikið til að feikna fallegum hrútsefnum og þyrfti í raun að verðlauna mun fleiri hrúta en þessi verðlaunaveiting er til gamans og hvatningar og er von Búnaðarsambandsins að bændur kunni að meta það. Til að komast að því hvort lambhrútarnir standa undir þessum dómum er nauðsynlegt að fá lömb undan þeim og ágætt að miða við að halda undir þá lágmark 18-20 ám. Mikilvægt er að fá reynslu á þá sem fyrst og nota einungis þá bestu áfram.


Fanney Ólöf Lárusdóttir

back to top