Lambhrútaskoðun 2009

Lokið er úrvinnslu á niðurstöðum úr skoðun á lömbum undan sæðingahrútunum haustið 2009. Niðurstöðurnar fyrir hrútlömbin eru birtar í tveim töflum sem fylgja hér á eftir. Eins og undanfarin ár verður þetta yfirlit einnig birt í hrútaskrá stöðvanna fyrir 2009-2010 sem mun birtast á næstu dögum.


Fjöldi lamba sem voru mæld og metin er meiri en nokkru sinni. Flestir hópanna eru því það stórir að tölurnar um lömbin í þeim ættu að gefa raunsanna mynd af feðrum lambanna í hverju tilviki. Að þessu sinni var gerð könnun á því hve stór hluti lamba sem til eru undan hverjum hrúti skili sér í skoðun. Þetta er mögulegt vegna þess að yfirlit um öll lifandi lömb undan hrútunum á að vera að finna í FJARVIS.IS. Í ljós kemur að af hrútlömbunum þá er verið að skoða á bilinu þriðjung til helming þeirra lamba sem voru til á haustdögum undan hverjum hrúti, sem að sjálfsögðu er heilmikið. Hlutfallslega mest skoðun er auk þess á lömbum undan þeim hrútum sem eiga flest lömbin og eru að sýna hvað bestar niðurstöður. Því má ætla að munur á milli afkvæma hrútanna sé í raun enn meiri en meðaltalstölurnar gefa yfirlit um. Þá er greinilegt að viss munur er eftir landsvæðum á því hve stórt hlutfall lambhrútanna skilar sér til skoðunar. Tölurnar benda til að þetta hlutfall sé heldur lægra á Suðurlandi en öðrum svæðum og er rétt að hafa það í huga þegar óleiðréttar tölur eru skoðaðar. Einnig voru skoðaðar tölur um gimbrar undan þessum sömu hrútum. Samræmi á tölunum um þær og hrútlömbin var ákaflega gott og ekki mögulegt að greina þar frávik fyrir einstaka afkvæmahópa sem breyta mynd þeirra. Þær tölur sýna að það er verið að mæla og skoða um eða yfir helming af gimbrunum sem til eru undan sæðingahrútunum.


Taflan um ómmælingarnar sýnir leiðréttar meðaltalstölur. Mismunandi tæki eru í notkun eftir landsvæðum sem skila aðeins breytilegum niðurstöðum. Þó að mælingamenn sé samhæfðir skapar samt hver og einn sér sín vinnubrögð sem ætíð skapa ákveðinn mun. Með leiðréttingum á svæðamuni í gögnunum er þessi munur einangraður. Þá er gerð leiðrétting að jöfnum þunga, þannig að tölurnar ber að túlka þannig að verið sé að bera saman lömb með jafnan þunga á fæti í öllum afkvæmahópum. Að síðustu er tekið tillit til hvort um einlembing, tvílembing eða marglembing sé að ræða.


Seinni taflan um stigun lambanna er aftur á móti með óleiðréttum meðaltalstölum. Þar er rétt að minna á mun í hlutfallslegri skoðun eftir svæðum sem óhjákvæmilega hlýtur að hafa einhver áhrif á þær tölur. Heildarmyndin sem fram kemur um afkvæmi hrútanna í þessum töflum er að lömbin voru mjög glæsileg og mældust vel haustið 2009 og þannig eru niðurstöður verulega betri en nokkru sinni áður. Þannig koma t.d. að þessu sinni fram meiri yfirburðir í mælingu á þykkt bakvöðva hjá afkvæmum Fannars 07-808 en nokkur dæmi eru um áður. Það má segja að stöðvarhrútarnir allir hafi þannig verið að standa undir væntingum og engir hrútar hafa verið felldir vegna þess að þeir skiluðu ekki nægjanlega góðri gerð hjá afkvæmum sínum.

Lambhrútaskoðun 2009 – niðurstöður

back to top