Almennar upplýsingar

Frá og með 1. september 2003 skulu allir kálfar sem koma í heiminn, og settir verða á, merktir innan 30 daga frá burði. Bændur og aðrir umráðamenn búfjár merkja gripina sjálfir og færa til bókar.
Frá og með 1. janúar 2006 skulu allir nautgripir einstaklingsmerktir.
Frá og með 1. nóvember 2011 skulu allir nautgripir fæddir frá og með þeim degi einstaklingsmerktir í bæði eyru.


Vinnulag við merkingar og skráningu
Mælt er með því vinnulagi við merkingarnar, að kálfar séu merktir áður en upplýsingar um þá eru skráðar. Með merkjunum fylgir skýringarmynd, sem sýnir hvernig og hvar heppilegast er að staðsetja merkið í eyra gripsins.
Skráning skýrsluhaldara fer fram á mjólkurskýrslunni. Þeir sem utan skýrsluhaldsins standa skulu skrá upplýsingar í sérstaka hjarðbók sem Matvælastofnun hefur gefið út. Hjarðbók þessa er hægt að fá hjá búnaðarsamböndunum og á netinu. Einnig er hægt að skrá upplýsingarnar á www.huppa.is.


Merki í eldri gripi
Þeim bændum sem hafa hug á að panta stök merki í núlifandi gripi á búunum, er bent á að það krefst grunnskráningar á þeim hluta gripanna sem ekki eru komnir í framleiðslu. Skrá verður upplýsingar (númer grips, kyn, fæðingardag, fæðingarbú og ætterni) um t.d. kvígur og naut sem eru í uppeldi.


MARK kallast kerfið
Eigandi einstaklingsmerkingarkerfisins, sem hlotið hefur heitið MARK, er sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið. Bændasamtök Íslands eru þjónustuaðilinn og sjá um smíði og viðhald gagnagrunna sem halda utan um kerfið. Eftirlit með einstaklingsmerkingunum er síðan í höndum Matvælastofnunar.

back to top