Val á sáðkorni vorið 2009

Hverju á að sá og hvar?
Í stórum dráttum hentar sexraðabygg norðanlands, en tvíraðabygg sunnanlands. Þó er þessi skipting fjarri því að vera einhlít og stigsmunur er á. Norðlægasti hluti landsins, samkvæmt korninu, eru Eyjafjörður, Þingeyjarsýslur og Fljótsdalshérað. Eftir sama mælikvarða er miðja landsins vesturhluti Norðurlands, Vesturland allt, uppsveitir í Árnessýslu og Hornafjörður. Hið eiginlega Suðurland eru lágsveitir Árnessýslu, Rangárvallasýsla og Skaftafellssýslur að mestu.
Nú henta hin ýmsu byggyrki misvel eftir jarðvegi. Athyglisvert er, að þau yrki sem best standa sig í þungum jarðvegi, til dæmis framræstri mýri, eru þau sömu og henta best norðanlands. Á sama hátt henta suðlæg yrki best í sandjörð. Þannig geta yrkin farið yfir mörk milli landshluta. Þetta er reynt að sýna hér í einfaldri töflu:

















































































































































Hentar á Yrki Þjóðerni Hæð undir ax, cm Skrið í júlí Þurrefni v/skurð, % Veðurþol ***mest Hentar á
Norður- Tiril

6r


Nor.


99


16.


63


 


Þyngstu

landi

Erkki


6r


Fin.


96


16.


62


*


jörð


Judit


6r


Sæn.


95


16.


63


 


(mýri)


Pilvi


6r


Sæn.


98


16.


64


*


Olsok


6r


Nor.


103


18.


65


 


Skegla


2r


Ísl.


91


12.


62


*


Lómur/Skúmur


6r


Ísl.


59


16.


60


***


Kunnari


6r


Fin.


95


17.


61


*

Kría

2r


Ísl.


81


15.


61


**

Filippa

2r


Sæn.


91


20.


56


**

Mitja

2r


Sæn.


87


20.


56


**


Léttustu

Suður- Barbro

2r


Sæn.


93


20.


56


**


jörð

landi Saana

2r


Fin.


83


23.


55


***


(sand)


En kornakrar verða ekki skornir allir í einu. Til að nýta tækjabúnað, svo sem þreskivélar og þurrkstöðvar, þarf að búa svo um hnútana að kornskurðartíminn geti verið fjórar og helst sex vikur. Undir það þurfa menn að búa sig þegar korn er valið í akra. Best er ef bóndi hver velur í akra sína tvenns konar korn; annars vegar fljótþroska korn sem má þá vera viðkvæmt fyrir veðri því að það verður tekið snemma og hins vegar strásterkt korn, sem má vera nokkuð seinþroska, því að það þarf að standa fram á haust og verður tekið þegar skurðarvélin fer síðari umferð um sveitina.
Í Skagafirði, til dæmis, er fljótþroska sexraðabygg tekið í fyrri umferðinni sem vélarnar fara um héraðið. Fyrir síðari umferðina hafa menn sáð Skeglu eða Kríu, sem oftast hafa þolað haustveðrin í Skagafirði án mikilla áfalla. Sunnanlands gætu menn haft sama háttinn á en þar væri Kría í hlutverki snemmþroska kornsins og Filippa eða Saana í hlutverki þess seinþroska sem standa á fram á haustið.


Byggyrki
Hér á eftir fylgir svo lýsing á þeim byggyrkjum sem mælt er með og vitað er að verða fánleg vorið 2009. Tvö yrki eru líklega horfin af markaði frá í fyrra. Það eru norska sexraðayrkið Ven og sænska tvíraðayrkið Rekyl. Tvö ný yrki eru komin í staðinn. Það eru sænsku yrkin Pilvi, sexraða, og Mitja, tvíraða. Yrkjunum verður lýst hér í sömu röð og í töflunni að ofan:


Tiril
Sexraða, norskt, fljótþroska. Þetta yrki er arftaki Arve, sem hér var notað árum saman og yrkin eru ekki ólík. Tiril hefur staðið sig misvel eftir árum. Sjúkdómsþol Tiril er til dæmis ekki gott og þegar smitálag er mikið, eins og sumarið 2006, kemur það niður á útliti og uppskeru. Tiril er norrænt yrki samkvæmt orðanotkun okkar og nýtur sín best á austanverðu Norðurlandi.


Erkki
Sexraða, finnskt, nokkuð fljótþroska. Þetta yrki hefur einungis verið tvö ár hér í tilraunum og eitt ár í notkun. Það hefur komið vel út á austanverðu Norðurlandi, er að vísu ívið seinna en Arve en líkist því yrki á margan hátt. Í stórviðrum á síðasta hausti reyndist Erkki þola veðrin heldur skár en sexraðayrki af sömu gerð.


Judit
Sexraða, sænskt, fljótþroska. Þetta yrki hefur verið í tilraunum í sex ár um allt land og eitt ár í notkun. Judit hefur staðið sig með ágætum og yrkið er bæði uppskerumikið og fljótþroska. Haustveðrin síðastliðið haust voru óvenju hörð og þá kom reyndar í ljós að Judit er ekki sterkasta byggið í hvassviðri. Samt sem áður má fullyrða að Judit sé framtíðaryrki til notkunar í þeim hluta landsins þar sem sexraðabygg á heima á annað borð.


Pilvi
Sexraða, sænskt, fljótþroska. Mun vera ætlað fyrir finnska markaðinn og heitir því finnsku nafni. Pilvi hefur verið tvö ár í tilraunum hér og reynst vel en er nú í fyrsta skipti á markaði. Einkum vakti það athygli að í haust þoldi Pilvi haustveðrin betur en önnur sexraðayrki að Lómi og Skúmi undanskildum. Nú er Pilvi hér í fyrsta skipti til sölu og norðanlands, að minnsta kosti, ætti ekki að fylgja því mikil áhætta.


Olsok
Sexraða, norskt, fljótþroska, þrautreynt hérlendis. Skríður ekki snemma en skilar velþroskaðri uppskeru. Hentar nokkuð vel á sendnu landi. Hefur reynst sérlega vel á vestanverðu Norðurlandi, á Vesturlandi og líka í uppsveitum sunnanlands. Olsok er aftur á móti varnarlaust gegn blaðsjúkdómum og hefur stundum farið illa í gömlum ökrum þau árin sem smitálag hefur verið mikið.


Skegla
Tvíraða, íslenskt, fljótþroska. Skilar ekki jafnmikilli uppskeru og sexraðabygg norðanlands né seinþroska tvíraðabygg syðra. Hefur þó góða fótfestu á nokkrum stöðum, einkum norðanlands og austan. Þar meta menn fljótan þroska og stórt og fallegt korn. Því miður verður þetta þó líklega síðasta árið sem Skegla verður á markaði.


Lómur og Skúmur
Tvö íslensk yrki, hvort öðru lík. Þau eru sexraða, fljótþroska og hafa verið eitt ár í notkun en fimm ár í tilraunum. Þau eru mjög lágvaxin og strásterk, hafa hvorki sést leggjast né heldur hafa þau brotnað. Þessi yrki hafa staðið sig afar vel í tilraunum og hafa verið uppskerumest öll árin bæði sunnanlands og norðan og er það út af fyrir sig einstakt. Segja má þó að reynslan af þeim í ræktun hafi ekki alveg staðið undir væntingum fyrsta árið. Hugsanleg skýring er sú að sáðkornið hafi ekki verið nógu gott. Þessi yrki eru svo lík að ekki þykir ástæða að halda þeim báðum við. Því mun Skúmur hverfa að loknu þessu sumri og Lómur verða einn um hituna.


Kunnari
Sexraða, finnskt, miðlungi fljótþroska. Kunnari er svipað Erkki og hefur aðeins verið hér tvö ár í tilraunum og eitt ár í notkun. Síðast liðið sumar reyndist Kunnari mjög vel á vestanverðu Norðurlandi. Kunnari þoldi furðuvel hvassviðrin
síðastliðið haust. Yrkið gefur mjög góða uppskeru en taka verður tillit til þess að það er ekki með þeim allra fljótustu til þroska. Það mun þó eiga góða framtíð fyrir sér á miðsvæði landsins eins og það svæði var skilgreint hér í upphafi.


Kría
Tvíraða, íslenskt, miðlungi fljótþroska, lítið eitt seinni en Skegla en skilar meiri uppskeru. Kría hentar til notkunar víða um land, síst þó norðan Öxnadalsheiðar. Víðast er Kría valin vegna öryggis, þó er það gert á mismunandi forsendum eftir landshlutum. Norðanlands stendur Kría betur en sexraðayrkin og þar er henni sáð með það í huga að láta hana standa frameftir hausti og taka hana í síðari umferðinni. Sunnanlands er Kría mun fljótari til þroska en þau tvíraðayrki sem þar er um að velja. Þar hefja menn kornskurð á Kríu.


Filippa
Tvíraða, sænskt, tiltölulega seinþroska, þrautreynt hérlendis. Þolir súra jörð. Á best heima á framræstum mýrum sunnantil á landinu og er afar vinsælt í þeim landshluta en hentar alls ekki norðanlands. Tvennt hefur stuðlað að vinsældum Filippu sunnanlands. Í fyrsta lagi stórt og fallegt korn og oft ágæt uppskera. Og í öðru lagi hefur Filippa þann háttinn á að byrja að hallast og leggjast í haustrigningunum. Eftir það verða hvassviðri henni ekki að skaða og á endanum næst að skafa hana upp. Korn af Filippu glatast því sjaldan í haustveðrum.


Mitja
Tvíraða, sænskt, tiltölulega seinþroska, nýtt. Mitja hefur verið tvö ár í tilraunum og reynst vel sunnanlands en yrkið er nú í fyrsta skipti á markaði. Þetta yrki minnir mjög á Filippu og hugsanlegt er að það geti tekið við af henni. Lítil áhætta virðist fylgja því að reyna það.


Barbro
Tvíraða, sænskt, tiltölulega seinþroska. Hefur verið þrjú ár í tilraunum og eitt ár á markaði. Barbro hefur reynst prýðilega sunnanlands en miður nyrðra. Sunnanlands hefur Barbro gefið mjög góða uppskeru. Yrkið er hávaxið af tvíraðabyggi að vera og stendur ekki haustveðrin af sér á sama hátt og Filippa.


Saana
Tvíraða, finnskt, seinþroska. Saana er einstaklega strásterkt og fallegt yrki og stendur vel langt fram eftir hausti. Kornið er stórt og fallegt og í Finnlandi er yrkið notað sem maltkorn. Saana þarf langan vaxtartíma en þolir líka haustveðrin flestum yrkjum betur. Því er kjörið að sá þessu yrki sunnanlands þar sem líkur eru á, að korn verði ekki skorið fyrr en seint að hausti.


Jónatan Hermannsson
Landbúnaðarháskóla Íslands,

back to top