Val á sáðkorni 2012

Val á sáðkorni 2012
Jónatan Hermannsson, Landbúnaðarháskóla Íslands, KeldnaholtiBygg og byggyrki
Í stórum dráttum hentar sexraðabygg norðanlands en tvíraðabygg sunnanlands. Þó er þessi skipting ekki einhlít og stigsmunur er á. Norðlægasti hluti landsins samkvæmt korninu eru Eyjafjörður, Þingeyjarsýslur og Fljótsdalshérað. Eftir sama mælikvarða er vesturhluti Norðurlands, Vesturland allt, uppsveitir sunnanlands og Hornafjörður einskonar miðja landsins. Hið eiginlega Suðurland eru lágsveitir Árness- og Rangárvallasýslu og Skaftafellssýslur að mestu.
Nú henta hin ýmsu byggyrki misvel eftir jarðvegi. Athyglisvert er, að þau yrki sem best standa sig í þungum jarðvegi, það er til dæmis framræstri mýri, eru þau sömu og henta best norðanlands. Á sama hátt henta suðlæg yrki best í sandjörð. Þannig geta yrkin farið yfir mörk milli landshluta. Þetta er reynt að sýna hér í einfaldri töflu:

1. tafla.  Byggyrkjum raðað eftir viðbrögðum þeirra við náttúrufari og jarðvegsgerð. Tölur eru fengnar úr tilraunum Rala/LbhÍ 2000─2011; hæð og skrið þó einungis frá Korpu. Elmeri, Wolmari og Olavi hafa einungis verið tvö ár í tilraunum, önnur yrki fjögur ár eða meira.
Hentar á Yrki


Þjóðerni


Hæð undir
ax, sm


Skrið
í júlí


Þurrefni v/skurð,%


Veðurþol
*** mest


Hentar á

Norður- Judit

6r


sæn.


90


10.


65þyngstu

landi Tiril

6r


nor.


90


12.


65


*


jörð

Pilvi

6r


sæn.


90


10.


65


*


(mýri)

Brage

6r


nor.


90


13.


63


?

Wolmari

6r


fin.


85


12.


62


?

Elmeri

6r


fin.


85


11.


61


*

Kunnari

6r


fin.


95


12.


60


*

Lómur/Skúmur

6r


ísl.


55


12.


60


***

Kría

2r


ísl.


75


10.


65


**

Olavi

6r


fin.


95


15.


60


*

Filippa

2r


sæn.


90


17.


57


**

Barbro

2r


sæn.


90


18.


56


*

Mitja

2r


sæn.


85


18.


56


***


léttustu

Suður- Minttu

2r


fin.


75


18.


55


***


jörð

landi Saana

2r


fin.


80


20.


55


***


(sandi)

 
En byggakrar verða ekki skornir allir í einu. Best er ef bóndi hver velur í akra sína tvenns konar korn; annars vegar fljótþroska korn sem má þá vera viðkvæmt fyrir veðri því að það verður tekið snemma og hins vegar strásterkt korn sem má vera nokkuð seinþroska því að það þarf að standa fram á haust.
Hér á eftir fylgir lýsing á þeim byggyrkjum sem mælt er með og gætu orðið í boði vorið 2012.


Judit
Sexraðabygg, sænskt, fljótþroska. Judit hefur reynst uppskerumikil og fljótþroska líka. Judit á fyrst og fremst heima á frjósömu landi, en hefur reynst miður á sandi. Veðurþolið er svipað því, sem búast má við af sexraðayrkjum, sem þýðir að Judit stendur ekki af sér hvað sem er. Einkum skal mælt með Judit til notkunar á austanverðu Norðurlandi og Fljótsdalshéraði.

Tiril
Sexraðabygg, norskt, fljótþroska. Tiril er arftaki Arve sem hér var notað árum saman og yrkin eru ekki ólík. Tiril hefur oft gefið mikla uppskeru, en hefur stundum litið illa út í votviðratíð. Tiril er norrænt yrki samkvæmt orðanotkun okkar og nýtur sín best á austanverðu Norðurlandi.

Pilvi
Sexraðabygg, sænskt, fljótþroska. Áberandi einkenni er að axið drúpir og ber þá hnakkann hæst. Pilvi er ekki alveg eins fljótþroska og hliðstæð yrki, en stendur nokkuð vel í haustveðrum, líklega einmitt vegna þess.

Brage
Sexraðabygg, norskt, fljótþroska. Hefur aðeins verið í tilraunum hér eitt sumar. Yrkið lofar góðu en hefur ekki fengið endanlegan dóm, til dæmis hefur ekki enn þá reynt á veðurþol þess.

Wolmari
Sexraðabygg, finnskt, fremur fljótþroska. Hefur verið í tilraunum í tvö ár og hefur skilað jafnmestri uppskeru allra verslunaryrkja þau árin. Enn hefur þó ekki reynt á veðurþol þess svo að nokkru nemi.

Elmeri
Sexraðabygg, finnskt, miðlungi fljótþroska. Hefur einungis verið tvö ár í tilraunum og hefur reynst vel, einkum norðanlands. Kornið er stórt af sexraðakorni að vera. Ekkert er vitað um sjúkdómsþol yrkisins og veðurþol er ekki fullreynt heldur.

Lómur og Skúmur
Sexraðabygg, íslenskt, tvö yrki hvort öðru líkt, lágvaxin og strásterk. Lómur er að hverfa af markaði, en Skúmur verður í boði enn um sinn. Þessi yrki eru sexraða, miðlungi fljótþroska og halda títunni ávallt. Þessi yrki eru gerð til þess að standa af sér hvaða veður, sem gera kann og hvorki hafa þau sést leggjast né heldur hafa þau brotnað. Þau hafa jafnan skilað góðri uppskeru en kornið getur verið nokkuð smátt. Henta í öllum landshlutum og hafa getið sér gott orð á sandjörð.
 
Kunnari
Sexraðabygg, finnskt, miðlungi fljótþroska, hefur gefið mikla uppskeru í góðum árum og virðist ekki eins viðkvæmt í veðrum og sum önnur sexraðayrki. Einkum hefur yrkið reynst vel á vestanverðu Norðurlandi og í uppsveitum vestra og syðra.

Kría
Tvíraðabygg, íslenskt, fljótþroska, hentar til notkunar víða um land síst þó á austanverðu Norðurlandi. Víðast er Kría valin vegna öryggis, þó er það gert á mismunandi forsendum eftir landshlutum. Norðanlands stendur Kría betur en sexraðayrkin og þar er henni sáð með það í huga að láta hana standa fram eftir hausti. Sunnanlands er Kría mun fljótari til þroska en þau tvíraðayrki sem þar er um að velja. Þar hefja menn kornskurð á Kríu.

Olavi
Sexraðabygg, finnskt, seinþroska af sexraðayrki að vera, nokkuð hávaxið. Virðist henta best á sandjörð og hefur gefið þar góða uppskeru.

Filippa
Tvíraðabygg, sænskt, tiltölulega seinþroska, þrautreynt hérlendis, olir súra jörð. Á best heima á framræstum mýrum sunnan til á landinu og er afar vinsælt í þeim landshluta en hentar alls ekki norðanlands. Filippa ber stórt og fallegt korn og gefur oft ágæta uppskeru. Í haustrigningum hallast Filippa en brotnar ekki og yfirleitt tekst að skafa hana upp. Korn af henni fer því sjaldan forgörðum.

Barbro
Tvíraðabygg, sænskt, fremur seinþroska, hefur reynst nokkuð vel sunnanlands en miður annars staðar. Yrkið er hávaxið af tvíraðabyggi að vera og getur gefið mikla uppskeru í góðum árum en stendur ekki haustveðrin af sér á sama hátt og Filippa.

Mitja
Tvíraðabygg, sænskt, fremur seinþroska, getur gefið mikla uppskeru í bestu árum, hefur þolað haustveðrin nokkuð vel og betur en til dæmis Barbro.

Minttu
Tvíraðabygg, finnskt, seinþroska, getur gefið mikla uppskeru í bestu árum, einkanlega vegna þess að yrkið er strásterkt og þolir það að standa langt fram á haust.

Saana
Tvíraðabygg, finnskt, seinþroska, einstaklega strásterkt yrki og stendur langt fram eftir hausti. Saana þarf langan vaxtartíma en þolir líka haustveðrin flestum yrkjum betur. Það hentar því syðst á landinu og þar sem líkur eru á, að korn verði ekki skorið fyrr en seint að hausti.

Hafrar og hafrayrki
Hafrar eru að sumu leyti auðveldari í ræktun en bygg. Þeir eru ekki landvandir, þola betur þurrk en byggið og þola líka illa framræst land. Hafrar þurfa minni áburð en byggið, en geta skilað jafnmikilli uppskeru. Stóra málið er svo að gæsin lítur ekki við þeim. Gallinn á höfrunum er hins vegar sá að þeir þurfa að minnsta kosti hálfum mánuði lengri vaxtartíma en fljótþroska bygg og uppskeran er ekki jafngott fóður og byggkorn.
Landbúnaðarháskólinn hefur gert tilraunir með hafra öðru hverju til þess að fylgjast með, síðast sumarið 2007. Hér verður getið þeirra yrkja, sem best reyndust þá, en ljóst er að fleiri yrki koma til greina.

Aslak
Finnskt. Fljótast til þroska af þeim yrkjum, sem reynd hafa verið hérlendis. Stendur vel og uppskeran er góð, náði þó ekki alveg toppnum.

Cilla
Sænskt. Eina yrkið, sem flutt hefur verið inn undanfarin ár. Hefur reynst farsælt, nokkuð fljótþroska og tiltölulega uppskerumikið.

Gere
Norskt. Þótti sameina best fljótan þroska og mikla uppskeru af öllum þeim fjölda hafrayrkja, sem Norðmenn bjóða upp á.

Vorhveiti
Hugur hefur verið í mönnum að rækta vorhveiti. Því er best að taka fram strax, að sú ræktun er mjög áhættusöm. Vorhveiti þarf að minnsta kosti mánuði lengri vaxtartíma en fljótþroska bygg. Samt er ekki loku fyrir það skotið, að ná megi góðri hveitiuppskeru, ef hægt verður að sá um sumarmál og hveitið látið standa fram í októberbyrjun. Kostur er að hveitið er veðurþolið. Eins og með hafra hefur Landbúnaðarháskólinn gert tilraunir með hveiti öðru hverju, síðast sumarið 2009. Fljótustu yrkin verða nefnd hér.

Anniina
Finnskt. Fljótasta vorhveiti, sem við höfum rekist á. Uppskeran viðunandi. Ef ekki er hægt að fá uppskeru af þessu yrki, þá er vorhveitið vonlaust.

Bastian
Norskt. Gamalt yrki og furðuseigt. Er í rauninni ekki langt á eftir Anniinu í þroska.

Vetrarhveiti
Vetrarhveitið nýtir sumarið betur en vorhveitið, getur byrjað vöxtinn strax um sumarmál. Því á að vera hægt að fá sæmilega þroskaða uppskeru af fljótþroska vetrarhveiti í meðalári. En með vetrarsáningunni bætist við áhættuþáttur, það er hvort hveitið lifir veturinn eða ekki. Við veljum því yrki eftir vetrarþoli og fljótum þroska síðara sumarið.

Arktika
Finnskt. Hefur verið eitt ár í tilraunum hér á landi og reyndist þá afar vel, bæði vetrarþolið og uppskerumikið.

Stava
Sænskt. Sameinar þokkalegt vetrarþol og góða uppskeru. Þegar vetur eru hagfelldir, hefur yrkið gefið góða raun.

Bj¢rke
Norskt. Þokkalega vetrarþolið og mjög fljótþroska síðara árið. Kemur vel til greina.

Urho
Finnskt. Vetrarþolið og fljótþroska, en hefur ekki reynst í röð uppskerumestu yrkja. Telja má yrkið þó með þeim öruggustu.

Vetrarrúgur
Auðveldur í ræktun, til muna vetrarþolnari en hveiti. Uppskeruvonir þokkalegar, en lítil hefð er fyrir því að nota kornið til fóðurs. Rúgurinn er mjög hávaxinn og getur verið erfiður í skurði. Nokkurt úrval er af yrkjum á markaði.

Kaskelott
Sænskt. Gamalt yrki og þrautreynt erlendis. Það hefur verið í tilraunum hér nokkrum sinnum og skilað góðri uppskeru.

Reetta
Finnskt. Nýtt yrki og þykir mjög álitlegt eftir síðustu tilraunir hér á landi.

Riihi
Finnskt. Gríðarlega hávaxinn rúgur, vetrarþolinn eins og best gerist. Mælt hefur verið með þessu yrki sem grænfóðri til vorbeitar fyrir ær og kýr, því að rúgurinn byrjar að spretta á undan öðrum gróðri að vori.


Olíujurtir
Hér er fjallað um repju og nepju. Til eru bæði vetrar- og vorafbrigði af þessum tegundum. Vetraryrkin þurfa að lifa veturinn og þar getur brugðið til beggja vona en lifi þau af þá taka þau vorið snemma og eiga góða möguleika á að skila þroskaðri uppskeru. Vorafbrigðin eru hins vegar tæpast nógu fljótþroska fyrir íslenskt sumar, sérstaklega á það við um repjuna. Uppskeruvonir eru mun meiri af vetrarafbrigðum en vorafbrigðum og meiri af repju en nepju, sú síðarnefnda þó mun öruggari í ræktun og á það bæði við vetrar- og vorafbrigði

Vetrarnepja
Hún er vetrarþolnari en repjan og fljótari til þroska, uppskeruvonir aftur minni. Nepjan er samt sem áður ómissandi fyrir öryggissakir, ef hér á að rækta olíujurtir.

Largo
Sænskt. Eina yrkið af vetrarnepju, sem virðist fáanlegt eins og er.

Vetrarrepja
Vetrarrepja er mikið ræktuð í grannlöndum okkar, einkum hinum suðlægari. Framboð af yrkjum er þar af leiðandi fjölskrúðugt. Nokkur þeirra hafa verið reynd hér í tilraunum undanfarin ár. Mæla má með þessum.

Banjo
Sænskt. Vetrarþolið yrki af repju að vera, en mætti vera fljótara til þroska seinna sumarið. Banjo er svokallað kynblendingsyrki og fræið þar af leiðandi dýrt. Óvíst er, hvaða máli það skiptir í ræktun, því að sáðmagn af repju er lítið í kg talið.

Galileo
Sænskt. Ekki alveg eins vetrarþolið og Banjo, en ívið fljótara til þroska. Uppskeruvonir góðar, ef það lifir.

Vornepja
Vornepja er fljótari til þroska en vorrepja, uppskeruvonir aftur minni. Samt er ljóst að ekki er von á uppskeru nema að hægt sé að sá snemma. Eftirfarandi yrki hafa verið reynd hér eitt sumar með þokkalegum árangri og eru fáanleg:

Cordelia
Finnskt, annað þeirra sem best reyndist að flýti og þroska.

Juliet
Finnskt, hitt sem best reyndist að flýti og þroska.

Petita
Sænskt, ekki alveg eins fljótþroska og þau tvö sem á undan eru nefnd en gæti gefið góða uppskeru í góðu ári.

Vorrepja
Vorrepjan þarf langt sumar og hlýtt og heldur litlar líkur eru á að hún nái þroska hérlendis, gefur hins vegar meiri uppskeruvonir en nepjan. Eftirfarandi yrki hafa verið reynd hér eitt sumar með sæmilegum árangri:

Marie
Finnskt, náði ekki fullum þroska hér 2011 enda var sumarið svalt og seint var sáð.

Trapper
Þýskt, einna öflugast af repjuyrkjunum í tilraun 2011. Að öðru leyti gegndi sama máli um það og Marie.

back to top