Sýring korns

Á undanförnum árum hafa margir kornræktendur tekið upp sýringu korns með íblöndunarefnum í stað náttúrlegrar sýringar við loftfirrðar aðstæður. Tilgangurinn er jú að stuðla að réttri verkun kornsins og auka geymsluþol þess. Íblöndunarefni til kornverkunar hafa bætt kornverkun hjá bændum verulega og minnkað afföll.


Komið hefur í ljós í tilraunum hér á landi og einnig erlendis að hrein própíonsýra eða blöndur af henni hafa komið mjög vel út sem hjálparefni við súrsun á blautu korni. Við notkun sýrunnar verður að hafa í huga að hún er hættuleg í meðförum, er ætandi og tærir málma fái hún tækifæri til. Því skal alltaf gæta fyllsta öryggis við meðhöndlun sýrunnar, nota góða gúmmíhanska og hlífðargleraugu og auk þess þvo öll tæki vel með vatni sem komist hafa í tæri við sýruna að lokinni notkun.


Hvað með blöndur af própíonsýru?
Própíonsýra er hið virka hjálparefni við súrsun korns. Til eru fjölmargar blöndur af própíonsýru sem seldar eru undir mismunandi verslunarheitum víða um heim. Dæmi eru um að þessar blöndur hafi verið fluttar hingað til lands. Própíonsýran er þá blönduð með lút (eða veikari sýru) sem hækkar pH-gildi sýrunnar en dregur aðeins úr virkni própíonsýrunnar sem hálparefnis sem nemur innihaldi lútsins (basans). Tiltölulega lítið magn af lút þarf til að breyta pH gildi sýrunnar verulega.

Tilgangur þess að blanda própíonsýruna er að draga úr skaðsemi sýrunnar ef slys verða og minnka tæringu hennar á málma. Einnig dregur blöndunin úr lykt sem getur verið megn, sérstaklega þar sem loftskipti eru ekki góð. Með þessu móti eru blöndur af própíonsýru skilgreindar sem ertandi en ekki sem ætandi.


Alltaf skyldi þó fara varlega þegar própíonsýra eða blöndur af henni eru notaðar og nota viðeigandi hlífðarfatnað og öryggisgleraugu!!!


Hér á landi má t.d. fá blöndu af própíonsýru sem seld er undir verslunarheitinu Lupro-Grain® og Áburðarverksmiðjan flytur inn frá fyrirtækinu BASF í Þýskalandi. Þar er um að ræða blöndu sem er 90% própíonsýra, 4% ammoníum, 4% 1,2-propandiol og 2% vatn. Við íblöndun ammonínum við própíonsýruna verður efnahvarf þannig að efni blöndunnar verða 73% própíonsýra, 21% ammoníum-propionate, 4% 1,2-propandiol og 2% vatn. Eftir sem áður er virkt efni til verkunar kornsins um 90% þrátt fyrir að sýrustig própíonsýrunnar hafi verið hækkað úr pH 1,7 í pH 4,1 – pH 4,4.


Hvað á að nota mikið af própíonsýru?
Eftir því sem kornbændur auka ræktun sína hafa fleiri og fleiri valið þá leið að geyma kornið í opnum kornstíum þar sem súrefni á greiða leið að. Í þeim tilvikum þarf íblöndunarefnið (sýran) að hylja yfirborð hvers einasta korns og því er nauðsynlegt að korninu sé velt vel í snigli eða skóflubandi til að tryggja góða íblöndun. Magn íböndunarefnisins ræðst af þurrkstigi kornsins við þreskingu og áætluðum geymslutíma. Þannig þarf meira magn af íblöndunarefni eftir því sem kornið er blautara eða ætlunin er að geyma það lengur.


Hérlendar rannsóknir hafa sýnt að lágmarksmagn af hreinni própíonsýru við þessar aðstæður er 12 lítrar í hvert tonn af korni en flestir kornræktendur eru að nota á bilinu 18-25 l/tonnið. Tilraunir benda einnig til að æskilegast sé að kornið nái a.m.k. 60% þurrefni áður en það er skorið. Rétt er að benda á að þær leiðbeiningar sem gefnar hafa verið varðandi 12-20 l/tonnið á við hreina própíonsýru (98-99%). Því er mikilvægt að bændur viti af því að ekki er hægt að alhæfa um magn af hverri böndu fyrir sig heldur borgar sig að miða við uppgefin töflugildi sem sjá má hér að neðan þar sem einnig þarf að taka tillit til geymslutímans. Alla jafna má gera ráð fyrir að íslenskt korn innihaldi á bilinu 50-70% þurrefni við þreskingu.

Hvað kostar að sýra korn?
Própíonsýra eða blöndur af henni eru fluttar inn af a.m.k. þremur aðilum; Olís, Skeljungi og Áburðarverksmiðjunni.

Olís og Skeljungur flytja inn hreina própíonsýru (98-99%, pH 1,7) og kostar 200 l. tunna um 27.000 kr. u/vsk. hjá báðum aðilum (sept. 2006). Skeljungur flytur auk þess inn blöndu af própíonsýru frá fyrirtækinu Borregaard í Noregi sem ber verslunarheitið SoftAcid. Sú blanda inniheldur um 50% própíonsýru og 50% lignin sýru sem unnin er úr trákvoðu. Kostar 200 l. tunna af þessari blöndu um 25.000 kr. u/vsk.
Áburðarverksmiðjan flytur inn Lupro-Grain® sem inniheldur um 90% própíonsýru, 4% ammoníum, 4% 1,2-propandiol og 2% vatn. Kostar 200 l. tunna af þessari blöndu um 24.990 kr. u/vsk.

Af þessu má sjá að ef notaðir eru um 20 lítrar af própíonsýru í tonnið af korni kostar sýringin á bilinu 2,4-2,7 kr/kíló korns en ef notaðir eru 25 lítrar í tonnið er kostnaðurinn 3,0-3,3 kr/kíló korns. Mikilvægt er því að bændur reyni að sjá fyrir hversu lengi þeir muni geyma kornið og stilli sýrumagnið eftir því.

Ítreka skal að góð blöndun sýrunnar við allt kornið skiptir jafnvel meira máli en nákvæmt magn sýrunnar í hvert kíló. Einnig skiptir verulegu máli að yfirborð geymslna sem notaðar eru sé hreint (helst klæddar plastdúk) sem og kornið sjálft, þ.e. að ekki sé jarðvegsmengun í korninu.

Hvernig stilli ég sýrumagnið?

Eftirfarandi töflur geta bændur nýtt sér þegar ákveða á magn sýrunnar…

Hrein própíonsýra (99% própíonsýra, pH 1,7)

Lupro-Grain® (90% própíonsýra, pH 4,1 – pH 4,4)


SoftAcid P® (50% própíonsýra, pH 2-3)

back to top