Sjúkdómar og illgresi
Illgresi í korni
Það er sjaldan vandamál. Aðalatriðið er að sá strax og landið hefur verið unnið. Ef það er ekki hægt af einhverjum sökum verður að herfa aftur rétt áður en sáð er. Þá byrjar kornið að spíra á undan illgresisfræinu og hefur forskot og góðan forða til þess að koma sér upp gróðurþekju og kæfa arfann í fæðingu. Undantekningar eru þó til. Helst er það ef seint er sáð og mikið arfafræ fyrir í akrinum. Gamlir kartöflugarðar hafa reynst erfiðir í þessu efni. Þar er kornið oft lengi að ná sér á strik og verður gisið. Orsakir eru ekki þekktar en grunur hefur fallið á leifar af illgresiseyðingarlyfjum (Afaloni) í jarðvegi eða þá að jarðvergur hefur orðið of þéttur við margendurtekna vinnslu. Í sumum árum hefur svonefnd hlaðkolla (skyld baldursbrá) verið til óþurftar í ökrum undir Eyjafjöllum.
Sjúkdómar
Þótt grannar okkar erlendis hafi miklar áhyggjur af kornsjúkdómum höfum við lengi haft þá trú að þá þyrftum við ekki að óttast hér á norðurhjara. Við höfum lagt traust okkar á einangrun og svöl sumur og sjúkdómar hafa nánast ekkert verið rannsakaðir hér. Við höfum reyndar greint hér einn sjúkdóm, svonefndan augnblett. Hann lætur helst á sér kræla í rigningatíð og hlýindum og leggst líka á túngrös. Sjúkdómnum veldur sveppur (Rhynchosporium secalis) sem leggst á blöð kornsins, fyrst í flekkjum og svo visna blöðin alveg. Smitefnið berst til landsins í smáum stíl með sáðkorni. Það lifir veturinn í hálmleifum á akrinum og magnast upp ár frá ári, einkum sunnanlands í vætutíð. Sexraðabygg er að öllu jöfnu viðkvæmara fyrir sýkingu en tvíraðabygg. Þó hafa verið kynbætt ónæm sexraðayrki og er Lavrans hinn norski dæmi um slíkt.
Jafnan ber lítið á augnblettnum fyrstu árin sem korn er ræktað í ákveðinni spildu. Hann lýsir sér þannig að í byrjun ágúst fara blöð kornsins að visna og verða að engu og skömmu síðar verður stöngullinn brúnn. Í lok ágúst leggst kornið eins og klessa. Ráð gegn sjúkdómnum eru tvö; annars vegar úðun með sveppaeitri, og það má gera snemma sumars meðan kornið þolir enn umferð, og svo sáðskipti.
Á Korpu var gerð tilraun sumarið 2001 með úðun á korn á tvenns konar landi sem hvort um sig hafði verið undir byggi sex sumur í röð og því þaulsmitað. Úðað var á ýmsum tímum frá 24. júní til 23. júlí. Úðun tókst vel og virtist koma alveg í veg fyrir smit. Ekki var marktækur munur milli úðunartíma og eru þeir allir teknir samn í eitt í töflunni hér að neðan:
Kornuppskera úr tveimur úðunartilraunum á Korpu, þurrefni tonn/ha. | ||||
Súla | Olsok | |||
ekki úðað | úðað | ekki úðað | úðað | |
Á mel | 3,3 | 3,5 | 3,4 | 4,0 |
Á mýri | 3,8 | 4,1 | 3,1 | 4,0 |
Meðaltal | 3,6 | 3,8 | 3,3 | 4,0 |
Uppskeruauki fyrir úðun er 200 kg þe/ha í Súlu en 700 kg þe/ha í Olsok. Úðun af þessu tagi gæti gert það mögulegt að rækta sexraðabygg, eins og Olsok, á Suðurlandi. Ef það verður reynt skal nota sveppaeitrið Sportak, 1 lítra/ha, og úða í síðustu viku júní meðan kornið þolir enn um ferð án þess að skaðast.
Flugvargur
Á vorin kemur gæsin hingað beint frá Skotlandi þar sem hún hefur haft viðurværi sitt vetrarlangt á skornum ökrum og tínt það sem niður hefur fallið. Hún kemur beint í nýsána akra hér og kann til verka og étur allt sem ofan á liggur. Hins vegar verður ekki séð að hún grafi neitt að ráði. Einnig getur hún valdið skaða síðar þegar kornið er nýkomið upp með því að klippa ofan af því og jafnvel draga það upp með rótum. Aðrir vágestir eru ýmsir mávar og jafnvel rauðbrystingur sem kemur hér við á leið sinni til Grænlands. Helsta vörnin er að fella kornið niður og svo má alltaf reyna fuglahræðu, til dæmis að hengja fjósagallann á staur úti í akri því að gæsin fælist lykt ekki síður en það sem hún sér.
Á haustin geta gæsin og álftin valdið stórskaða á þroskuðum ökrum með því að éta kornið af stönglinum. Þá er helsta vörnin í því að láta kornið ná alveg út á skurðbakka eða út að girðingu því að álft og gæs setjast ekki beint í akurinn. Þær verða að lenda á opnu svæði og þaðan ganga þær í kornið. Hugsanlegt er að setja upp rafgirðingu til að stöðva þær þar sem jaðar akursins nær að slegnu túni.
Heimild: Jónatan Hermannsson, Handbók bænda 2001 og 2002.
Sjúkdóma- og illgresisvarnir
Augnblettur, (Rhyncosporium secalis) er sveppasjúkdómur sem orðinn er landlægur hérlendis í korni. Uppskerurýrnun af völdum hans hefur mælst 36% þegar mest er en algegnar tölur í gömlum ökrum eru um 20% uppskerurýrnun í sexraðabyggi og 10% í tvíraðabyggi.
Þrennt er hægt að gera til að verjast augnbletti:
- Úða með varnarefnum
- Nota eingöngu byggyrki með virka mótstöðu
- Viðhafa reglubundin sáðskipti
Sveppurinn berst í akra sem gró með sáðkorni eða veðri og vindum en veldur yfirleitt ekki tjóni á fyrsta ári í ræktun. Sveppagróin geymast í hálmleifum yfir veturinn og sýkja ungplöntur og valda því tjóni strax á öðru ári. Sé ekkert aðgert byggist upp smitálag í akrinum sem hefur veruleg áhrif á afrakstur hans. Sveppurinn sýkir plönturnar á smáplöntustigi, vex inn í leiðsluvefi plöntunnar og étur þá upp innanfrá. Þetta hefur áhrif á efnaflutninga plöntunnar í kornið sem verður fyrir vikið smærra í sýktum plöntum en heilbrigðum. Uppskerumunurinn liggur því að mestu leyti í lægri þúsundkornaþyngd hjá sýktum plöntum en ekki í kornafjölda. Sveppurinn veldur enn fremur skaða á stoðvef strásins þannig að sýkt korn leggst mun frekar en heilbrigt sem veldur uppskerutapi og töfum við þreskingu. Byggyrkin eru misjafnlega næm fyrir sveppasmitinu. Rolfi og Olsok hafa mjög litla mótstöðu gegn sýkingum á meðan Arve hefur einhverja mótstöðu og íslenska yrkið Skegla hefur mikla mótstöðu. Mótstaða annarra yrkja í ræktun er óljós.
Augnblettur. Sveppurinn myndar gró í blettum blaða og dreifist síðan með vindi.Einkenni augnblettsins koma í ljós um skrið. Mynd: Jónatan Hermannsson. | Augnblettur veldur skaða á stofnvef strásins sem þá gefur sig og kornið leggst fyrir eigin þunga. Veldur uppskerutapi og töfum við þreskingu. Mynd: Jónatan Hermannsson. |
Úðun gegn augnbletti
Mælt er með notkun á sveppavarnareitrinu Sportak gegn augnbletti. Nægjanlegt er að úða einu sinni snemmsumars eða um það leyti sem hliðarsprotamyndun lýkur sem gæti verið um miðjan júní í meðalári. Hæfilegt magn af eitri er 0,5 lítrar á ha og hæfileg þynning 250-500 lítrar, allt eftir tækjabúnaði.
Tvíkímblaða illgresi, s.s arfategundir, njóli, hlaðkolla og blómjurtir
Bygg er sterk samkeppnisplanta og alla jafna er illgresi ekki vandamál í kornökrum. Sé land plægt og herfað skömmu áður en korni er sáð ætti kornið að hafa betur í samkeppni við arfa og annað illgresi. Þar sem korn er ræktað ár eftir ár geta sterkar samkeppnistegundir náð sér á strik, einkum ef landið er ekki plægt árlega en einungis herfað. Í slíkum tilvikum kemur til greina að úða gegn illgresi. Bygg er grastegund en öll grös eru einkímblöðungar. Illgresislyf í kornrækt verða því að vera sérvirk fyrir tvíkímblöðunga, s.s arfategundir, njóla, hlaðkollu og aðrar blómjurtir. Þessi lyf eyða hins vegar ekki öðrum grastegundum s.s. snarrótarpunti, húsapunti eða varpasveifgrasi.
Úðun gegn tvíkímblöðungum
Dæmi um lyf gegn tvíkímblöðungum er Herbamix/Herbatox sem nota má í nýræktir og kornakra. Best er að úða snemmsumars þegar illgresið er spírað og er í örum vexti. Hæfilegt magn eru 5 l. á hektara í 500-1.000 lítra vatns.
Æskilegasti tími illgresis – og sveppaúðunar er svipaður eða um miðjan júní og óhætt ætti að vera að úða þessum efnum saman í einni umferð.
Byggt á:
www.bugardur.is / Ingvar Björnsson
Jónatan Hermannsson. Sjúkdómar í byggi. Fræðaþing landbúnaðarins 2004. Bls. 178-184