Augnblettur í byggi á Íslandi

Heilsufar á byggi er að jafnaði gott hérlendis miðað við það sem annars staðar gerist. Einn sjúkdómur hefur þó náð hér fótfestu og veldur orðið talsverðu tjóni, þar sem bygg er ræktað ár eftir ár á sama stað. Hann hefur hlotið nafnið augnblettur.
Jónatan Hermannsson og félagar hans á jarðræktarsviði RALA hafa gert tilraunir með mismunandi varnaraðgerðir gegn þessum sveppi.

Varnaraðgerðirnar eru einkum þrenns konar;


  • Sáðskipti. Þau eru örugg vörn, því að ekki verður tjón af völdum sjúkdómsins fyrstu tvö árin sem bygg er ræktað í akrinum. Enn er þó ekki vitað hvort eitt ár án byggs er nóg til að hreinsa akur af smiti, en tvö ár ættu örugglega að duga.
  • Úðun með sveppaeitri. Til þess verður að nota kerfisvirkt efni, sem vinnur á sveppaþráðum inni í plöntunni.
  • Ræktun á ónæmum byggyrkjum. Bygg er misnæmt fyrir sveppasmiti og komið hafa fram byggyrki á síðustu árum, sem eru að miklu leyti ónæm fyrir sýkingu. Sexraðabygg hefur að öllu jöfnu mun minni mótstöðu gegn þessu smiti en tvíraðabygg. Það er ein ástæða þess að illa gengur að rækta sexraðabygg sunnanlands.

Í niðurstöðum tilraunarinnar segir m.a. „Á Suðurlandi ætti helst ekki að rækta bygg öðru vísi en í sáðskiptum og þá ekki lengur en tvö ár á hverjum stað. Sé samt sem áður æskilegt að nota land undir bygg fleiri en tvö ár í röð er rétt að úða akurinn með sveppaeitri. Miðað við núverandi þekkingu skal mælt með því að nota Sportak, 1 lítra/ha, og úða áður en akurinn byrjar að reisa sig, eða um sólstöður í meðalári“.

Grein Jónatans og félaga má í heild sinni lesa með því að smella á eftirfarandi tengil: Augnblettur í byggi á Íslandi

back to top