Kornrækt á landinu árið 2005

Kornrækt á landinu árið 2005
/Jónatan Hermannsson
Landbúnaðarháskóla Íslands, Keldnaholti
Ingvar Björnsson
Búgarði – Ráðgjafaþjónustu á Norðausturlandi, Akureyri


Tilvísun
Í Handbók bænda árið 1997, bls. 54−67, birtist yfirlitsgrein um kornrækt eftir Jónatan Hermannsson og Kristján Bj. Jónsson ráðunaut. Í Handbókinni árið 2001, bls. 21−23, birtist að auki grein um ræktunarbelti á Íslandi eftir Jónatan Hermannsson. Benda má lesendum á þær greinar til frekari upplýsingar.


Formáli
Þessi grein er af sama stofni og grein um kornrækt í Handbók bænda 2005. Sumt í greininni er nýtt, annað ekki. Farið hefur verið yfir allar upplýsingar úr fyrri greininni og þær endurnýjaðar eftir því sem reynsla og nýjar tilraunaniðurstöður gefa tilefni til.


Veðurfar 2005
Eftir góðærið 2003 og 2004 brá nú heldur til hins verra. Vorið var kalt og þurrt um allt land, skást þó syðst á landinu. Jörð var að vísu klakalítil og sáð var á svipuðum tíma og vant var. En um það bil, sem kornið var að koma upp, lagðist í frosthörkur, mest norðanlands. Mesta furða þótti að kornið skyldi lifa af. Nokkrir akrar ónýttust, bæði nyrðra og í uppsveitum syðra, en þar mun þurrkinum hafa verið um að kenna ekki síður en frostinu. Miðsumarið var ekki afleitt, en haustið varð það kaldasta í 20 ár. Þegar kom að kornskurði gerði einstaka rigningatíð nyrðra og síðan snjókomu. Vegna þess gekk kornskurður afar illa og hluti akra tapaðist undir snjó. Fréttnæmt þótti að akur einn í Skagafirði var skorinn á jólaföstu nýkominn undan snjó, en það var undantekning. Alls munu rúm 20% akra norðanlands og austan hafa farið forgörðum. Sunnanlands og vestan var uppskerutíðin köld, en þurr og hagfelld og þar varð nýting korns góð.
Sýnt hefur verið fram á að hér við Norður–Atlantshaf er um það bil 13 ára sveifla á árferði. Árið 2005 var greinilega fyrsta árið í kuldakafla, en slíkir kaflar standa oft 3–4 ár. Fyrir 13 árum voru köldu árin 1992–95, fyrir 26 árum harðindaárin 1979–83 og fyrir 39 árum kalárin 1966–70. Vera má að gróðurhúsaáhrifin valdi því að nýbyrjað kuldaskeið verði mildara en hin fyrri. Samt sem áður ættu kornræktarbændur að búa sig undir lakara árferði næstu ár en var árin 2000–04.

Kornræktin 2005

Gerð var könnun á umfangi kornræktar á landinu og uppskeru á síðasta hausti. Helstu niðurstöður birtast í 1. töflu:


Meðalræktun á hvern kornbónda er óbreytt milli ára eða 7,0 hektarar. Aukning í kornræktinni hefur orðið mest vestanlands. Kornbændum hefur fjölgað um 28 milli ára í þeim landshluta eða um 57% og sánir akrar voru 280 ha eða 74% stærri en árið áður. Kornuppskera á hvern sáinn hektara minnkaði um réttan helming norðanlands og var líka rýrari en í fyrra vestanlands og austan. Sunnanlands hefur uppskera á hektara hins vegar aukist um 12% milli ára.


Skúmarnir eru íslenskt sexraðabygg, mjög lágvaxið og ágætlega vindþolið. Þrjár gerðir eru í gangi. Skúmur I er fljótastur til þroska og mun verða fáanlegur í takmörkuðum mæli næstu tvö ár. Saga hans mun ekki verða lengri en það, því að kornið er ekki nógu gott, hismismikið og létt í sér. Skúmarnir nr. II og III eru ekki gallaðir á þann hátt, en eru enn á fjölgunarstigi. Sáðkorn af öðrum hvorum þeirra gæti orðið á markaði vorið 2008. Judit er sænskt sexraðabygg, sem verður fáanlegt í fyrsta lagi vorið 2007.


Til athugunar við sáningu?
Í heildina tekið er kostur að sá snemma. Þó er ekki ráðlegt að sá fyrr en um miðjan apríl, þótt sáning í mars geti lukkast í hlýviðrissveitum og góðu ári. Kornið þolir illa langvarandi frost eftir að það er komið upp. En eftir að kominn er miður apríl ræður jarðvegur og rakastig hans mestu um það, hvenær rétt er að sá.
Þegar sáð er þarf jarðvegur að vera farinn að þorna svo að hann klessist ekki við jarðvinnslu. Sjaldan verður svo þurrt um fyrr en klaki er farinn úr jörðu, þó eru nokkur dæmi um að menn hafi sáð á klaka með góðum árangri, en það er sjaldgæft. Strax og flög eru orðin hæfilega þurr til jarðvinnslu verður að nota hvert tækifæri, sem gefst, til að koma korninu niður.
Í þurrkatíð á vori getur aðferð við sáningu ráðið öllu um það, hvernig til tekst. Athuga ber að á þessum tíma vors er alltaf nægur raki niðri í moldinni. Á yfirborði getur hins vegar orðið til lag af þurrum salla. Í þess konar salla spírar kornið ekki. Í þurrkatíð verður því að að geyma fínvinnslu á flaginu þar til rétt fyrir sáningu, fella svo sáðkornið niður í raka moldina og valta strax. Þá er í fyrsta lagi von til þess að hárpípukraftur jarðvegsins dragi raka að yfirborðinu og líka getur rakinn í umhverfi kornsins dugað til þess að það nái að spíra. Um leið og korninu tekst að senda frærótina niður í jarðveginn er því borgið.
Þessar leiðbeiningar um sáningu eru komnar frá Guðmundi H Gunnarssyni ráðunauti hjá Ráðgjafaþjónustu á Norðausturlandi. Til að sýna fram á gildi þeirra má benda á meðaluppskeru úr ökrum á Norðurlandi í sumar er leið, en hana má sjá í 1. töflu, og til samanburðar uppskeru úr tilrauninni á Möðruvöllum í Hörgárdal í 3. töflu. Í tilraunina var sáð með sérstöku tilliti til rakans í jörðu. Það tókst prýðilega, kornið þreifst þar hið besta og skilaði metuppskeru. Þó var sáð í skörpum þurrki og það veður hélst óbreytt næstu átta vikur.
Merki sáust um það í ökrum bæði norðanlands og sunnan að þetta hefði farið á annan veg. Sáðkornið hafði þar lent í skrælþurru yfirborðinu. Ýmist hafði það byrjað að spíra og skrælnað eftir það eða beðið óspírað og ekki komið upp fyrr en fór að rigna um eða eftir Jónsmessu. Það korn var enn ófyllt þegar tók að frjósa í haust og urðu því ófrævir akrarnir, svo að notað sé orðalag úr sögu Víga–Glúms.


Kornræktarland
Þroskaferill korns er mjög mismunandi eftir því í hvers konar jarðvegi það vex. Á söndum og melum þroskast korn fyrr en á framræstri mýri og mólendi. Aftur á móti er kornrækt áburðarfrek á söndum og melum. Áramunur er að því, hvor landgerðin hentar betur. Í þurrkasumrum er hætta á stórfelldum þurrkskemmdum á söndum og melum og þá eru mýrarnar betri. Í kaldri rigningatíð snýst þetta alveg við og þá hafa sandar og melar yfirburði yfir mólendi og mýrar. Byggyrki verður líka að velja eftir jarðvegi og er nánar fjallað um það hér á eftir.


Áburðarþörf
Þörf á nituráburði er mjög breytileg eftir landi. Áburðarþörfin fer líka eftir því, hvað ræktað hefur verið í landinu árið áður. Bygg ræktað á eftir byggi þarf meiri áburð en bygg sem ræktað er á eftir grænfóðri eða er sáð í nýplægt tún. Munurinn á áburðarþörfinni á fyrsta ári korns og áburðarþörf síðar er um 30 kg N/ha á frjósömu landi, en innan við 20 kg N/ha á mel og sandi.


Það er fyrst og fremst nituráburðarþörfin, sem er breytileg. Steinefnaþörfin er svipuð hvarvetna. Samkvæmt tilraunum fæst full uppskera við 18 kg P/ha, meiri fosfóráburður gefur ekki uppskeruauka. Kalíáburður er borinn á til þess að kornræktin gangi ekki á kalíforða jarðvegs, en uppskeruauka fyrir kalíáburð hefur ekki reynst auðvelt að finna í korntilraunum. Til að fá hæfilegt magn af steinefnum þarf að bera á mismunandi áburðartegundir eftir frjósemi jarðvegs og jafnvel bæta við fosfóráburði þar sem nituráburðarþörfin er minnst. Eftirfarandi töflu má nota til hliðsjónar þegar áburður er valinn:


Sjúkdómavarnir
Einn sjúkdómur herjar öðrum fremur í íslenskri kornrækt. Þetta er sjúkdómurinn augnflekkur og honum veldur sveppurinn Rynchosporium secalis.
Sveppurinn berst sem gró í akra með sáðkorni en veldur ekki miklum skaða á fyrsta ári. Sveppagróin geymast í hálmleifum yfir vetur og sýkjast smáplöntur strax á öðru ári akurs. Korn af sýktum plöntum verður smærra en heilbrigt og uppskeran lakari sem því nemur. Sveppasýkingin dregur einnig verulega úr strástyrk korns. Smitálag er meira í þungum og frjósömum jarðvegi (mýrarjörð) en léttum jarðvegi á borð við mela– og sandjarðveg.
Þrennt má gera til þess að draga úr skaða af völdum augnflekks. Í fyrsta lagi að velja til ræktunar byggyrki sem hafa mótstöðu eða ónæmi gegn sjúkdómnum. Í öðru lagi að stunda sáðskipti sem brjóta upp smitferil sveppsins. Í þriðja lagi að úða með sveppaeitri, þar sem ekki verður komið við sáðskiptum. Úða þarf einu sinni um það leyti er hliðarsprotamyndun lýkur eða um miðjan júní að jafnaði. Hér hefur verið notað efnið Sportak, 1 l/ha.


Ræktunarbelti
Í tilraunum Rannsóknastofnunar landbúnaðarins undanfarin ár hafa verið reynd öll þau byggyrki, sem fáanleg eru og eru nógu fljótþroska til að eiga möguleika hér á landi. Við reynum að fá byggyrki í prófun jafnótt og þau koma fram hjá kynbótastöðvum erlendis. Jafnframt er afraksturinn úr byggkynbótum okkar reyndur í þessum tilraunum. Því vitum við nokkuð, hvað þýðir að rækta á hverjum stað.
Nú henta hin ýmsu byggyrki misvel eftir því, hvar er á landinu Eftir niðurstöðum úr korntilraunum höfum við því skipt landinu niður í ræktunarbelti á nýjan hátt (sjá annars grein um ræktunarbelti í Handbókinni 2001). Miðað við núverandi þekkingu þykir henta að hafa ræktunarbeltin fimm. Hér er listi yfir þau og það bygg, sem best hentar á hverjum stað. Á eftir fylgir skrá yfir þau byggyrki, sem mögulegt verður að fá í vor.


Múlasýslur, Þingeyjarsýslur og Eyjafjörður
Í þessum héruðum hefur reynst best að nota sexraðabygg. Arve hefur yfirleitt gefist vel og er notað víðast hvar, Olsok þó líka á stöku stað. Nú heyrist að Arve sé að leggja upp laupana og árið í ár (2006) verði síðast árið, sem hægt verður að fá sáðkorn af þessu gamla og góða yrki. Í staðinn verður boðið upp á Tiril, í smáum stíl í ár, en á að leysa Arve af hólmi 2007.


Skagafjörður, Húnavatnssýslur og Vesturland norðan Skarðsheiðar
Hér á að nota Arve meðan hans nýtur við, síðan Tiril; einnig Olsok ef menn vilja og þá helst á sendið land. Í þessum hluta landsins hentar einnig vel að nota Skeglu og Kríu í hluta akurlendis og skera þá sexraðabyggið fyrst, en láta tvíraðabyggið bíða og bjóða haustveðrunum byrginn.


Vesturland sunnan Skarðsheiðar, uppsveitir á Suðurlandi og Austur-Skaftafellssýsla
Á þessum slóðum henta íslensku yrkin Skegla og Kría yfirleitt vel og ættu að vera aðalkornið. Filippa kemur einnig til greina. Í uppsveitum Árnessýslu hefur sexraðabyggið Olsok verið notað nokkuð. Það gefur góða uppskeru ef allt er með felldu, en hefur farið illa í veðrum.


Lágsveitir á Suðurlandi, þar með talin Vestur-Skaftafellssýsla
Á þessum slóðum skiptir vindþol byggs meira máli en annars staðar á landinu. Hér er hægt að nota Skeglu að hluta til á mýrlendi, að öðru leyti er rétt að nota Kríu og líka Filippu. Saana hefur reynst nokkuð vel á þessum slóðum, en þarf langan sprettutíma. Á móti kemur að hún stendur vel fram eftir hausti og mætti reikna með henni í þá akra, sem ekki tekst að slá í fyrstu yfirferð.


Byggyrki
Hér á eftir fylgir svo lýsing á þeim byggyrkjum sem mælt er með. Á þessum lista eru öll þau yrki, sem fáanleg eru og hafa reynst nýtileg í tilraunum hér á landi:


Arve
Sexraða, norskt, þrautreynt hérlendis. Fljótþroska og hefur oft gefið góða uppskeru norðanlands og austan og auk þess á mýrlendi á Vesturlandi norðan Skarðsheiðar. Arve er mjög viðkvæmt í veðrum og hentar ekki sunnanlands, síst ef það þarf að standa fram eftir hausti.


Olsok
Sexraða, norskt, þrautreynt hérlendis. Ekki eins fljótþroska og Arve, en þolir vind heldur skár. Er betra en Arve á sendnu landi og hefur reynst sérlega vel í Hólminum í Skagafirði og einnig nokkuð vel í uppsveitum sunnanlands. Olsok er aftur á móti varnarlaust gagnvart blaðsjúkdómum og getur því farið illa í gömlum ökrum. Sveppurinn leggst meðal annars á stöngulinn og sýkt bygg leggst því oft kylliflatt.

Tiril
Sexraða, norskt, nýtt. Er sagt eiga að koma í staðinn fyrir Arve. Óreynt hér annars staðar en í tilraunum. Er ívið seinna til þroska en Arve, að öðru leyti svipað. Útlit er fyrir að Tiril verði flutt inn í stórum stíl vorið 2007.


Önnur sexraðayrki, sem hafa verið á markaði
Nefna má tvö: Ven er tiltölulega seinþroska en hefur gefið góða uppskeru í bestu árum. Lavrans hefur nokkuð góða mótstöðu gegn sveppnum augnflekki, en hefur samt sem áður ekki náð vinsældum hérlendis. Lítið eitt af Skúmi I verður svo fáanlegt í vor til reynslu.


Skegla
Tvíraða, íslenskt. Mjög fljótþroska. Hentar vel á Vesturlandi sunnan Skarðsheiðar, í uppsveitum sunnanlands, í Hornafirði og víðar, til dæmis í Skagafirði. Á Fljótsdalshéraði og austanverðu Norðurlandi hefur Skegla aftur á móti ekki skilað uppskeru til jafns við sexraðabygg. Í lágsveitum sunnanlands á Skegla tæpast heima heldur. Þar er hún hreinlega of fljótþroska, notar ekki allan vaxtartímann og er orðin fullþroska og brothætt, þegar haustveðrin gerir í ágústlok.


Kría
Tvíraða, íslenskt, nýtt, líkt Skeglu. Um það bil 3 dögum seinni til þroska en Skegla, lægri á vöxt, en skilar 10% meiri uppskeru. Ætti að geta gengið mun víðar á landinu en Skegla, einkum og sérílagi mun Kría eiga heima sunnanlands.


Filippa
Tvíraða, sænskt, þrautreynt hérlendis. Fremur seinþroska og hentar ekki norðanlands. Þolir súra jörð. Á best heima á mýrlendi sunnantil á landinu. Bognar í haustveðrum, en brotnar ekki.


Saana
Tvíraða, finnskt, hefur verið notað hérlendis síðustu fjögur ár. Seinþroska en strásterkt og stendur vel fram eftir hausti. Saana þarf langan vaxtartíma og hentar ekki annars staðar en þar sem hægt er að sá snemma og sumarið er langt, það er syðst á landinu.


Rekyl
Tvíraða, sænskt, nýtt, seinþroska. Leysti Gunillu af hólmi þegar það ágæta yrki hvarf af markaði. Rekyl hefur tæpast náð að fylla skarðið og óvíst er, hvort það verður fáanlegt í vor.

Þessi grein er væntanleg í Handbók bænda 2006 og er birt hér með leyfi Jónatans Hermannssonar

back to top