Illgresiseyðirinn Harmony

Harmony er kerfisvirkur illgresiseyðir sem er sérhæft gegn njóla en virkar einnig á fleiri tegundir tvíkímblaðaillgresis. Harmony er smáskammtaeitur, aðeins þarf um 10-20 grömm af efninu á hektara. Það fæst hjá Gróðurvörum í Reykjavík í 40 gramma pakkningum (smátt kyrni) og kostar hver um sig 11.580 krónur fyrir utan vsk vorið 2006. Í hverri 40 gramma pakkningu eru 5 stk. 8 gramma vatnsleysanlegir pokar. Mikilvægt er að kaupa einnig viðloðunarefni s.s. Agral eða sambærilegt efni sem blandað er saman við eiturblönduna. Viðloðunarefnið fær eitrið til að liggja lengur á blöðum njólans þannig að hann taki eitrið betur upp. Þetta er sérstaklega mikilvægt í rigningartíð.

Áhrif á illgresi:
Harmony virkar sérlega vel á njóla, haug- og hjartaarfa, skriðsóley, baldursbrá og hlaðkollu. Við hagstæð skilyrði vikrar það einnig á fleiri tegundir illgresis en áhrif á túnfífil, deplur og þistil eru takmörkuð.

Ráðlögð notkun:
Notið 2,0 – 2,5 g Harmony ásamt ráðlögðu magni af viðloðunarefni í 20 – 40 l vatns á hverja 1.000 fermetra. Hver 8 g poki dugar því á 3.200 – 4.000 fermetra. Við notkun á stærri úðunardælum skal fylla tankinn að hálfu með vatni og setja nauðsynlegan fjölda poka út í. Fylla síðan tankinn af vatni og bæta ráðlögðu magni af viðloðunarefni út í. Látið dæluna ganga stöðugt þannig að hringrásarblöndunin sé virk. Alltaf skal setja viðloðunarefnið síðast í tankinn og úða lausninni strax að lokinni blöndun. Á tún skal úða um 2 vikum fyrir 1. slátt eða þegar góður vöxtur er í illgresinu, þ.e. þegar nægur raki er og hiti er yfir 10-12°C. Einnig er hægt að úða á stórar blaðhvirfingar 3 – 4 vikum fyrir slátt þannig að það sé þá visnað. Best virkni næst ef hvirfingarnar eru orðnar stórar með 4 – 8 blöð.

Hvað gerist eftir úðunina?
Vöxtur illgresisins stöðvast fljótt eftir úðun og eftir 1-3 vikur sjást vegsummerkin vel. Þau verða fyrst sýnileg sem gulnun í vaxtarbroddi og síðan fá blöðin gulan eða rauðgulan lit en visna síðan. Grös geta gulnað en vaxtarstöðvun verður ekki að ráði nema hjá smára og í hávingli sem tekur nokkurn tíma að jafna sig. Ekki sjást umtalsverð áhrif á vallarsveifgrasi, vallarrýgresi, vallarfoxgrasi eða túnvingli ef rétt er að málum staðið.

Fleiri atriði varðandi notkun illgresiseyðisins Harmony

 • Virkt efni: thifensulfuron-methyl
 • Besta virkni efnisins er snemmsumars þegar njólinn er í örum vexti, t.d. 10. – 25. júní.
 • Uppskerufrestur á korni sem úðað er með Harmony og nota á til skepnufóðurs er 2 mánuðir.
 • Grassvæði má ekki slá né beita fyrr en að liðnum 2 vikum frá úðun.
 • Gætið þess vel að efnið berist ekki í ár né læki þar sem það getur haft slæmar afleiðingar fyrir lífríki þeirra.
 • Harmony er kerfisvirkt efni sem er tekið hratt upp í blöð plantnanna og verkar best við hitastig yfir 10 – 12°C og góðan raka. Regn 4 – 6 tímum eftir úðun hefur ekki áhrif ef blöð plantnanna hafa þornað áður.
 • Eftir að notuð hafa verið 10 g af Harmony á ha. skiptir ekki máli hvaða tegundum plantna er sáð til að vori en ef stærri skammtar eru notaðir á tímabilinu júlí – september er eingöngu ráðlagt að sá korni næsta vor. Efnið nær ekki að brotna nægilega hratt niður við lágt hitastig.
 • Í túnum með smára ætti smárinn að vera kominn með eitt blað auk kímblaða þegar úðað er.
 • Á tún er best að úða þegar 2 – 3 vikur eru liðnar frá slætti eða beit en ef mikil spretta er getur dregið úr vexti grasa og smára tímabundið án þess að það dragi úr uppskeru.
 • Á tún er ráðlagt að nota 200 – 400 lítra vatns á ha, Fyllið tankinn að 3/4 og setið ráðlagðan fjölda poka af Harmony í og látið hrærast vel. Þegar tankurinn er nær fullur er viðloðunarefninu bætt út í. Ráðlögð dýsustærð er ISO F -03-110 eða ISO LD-03-110. Þrýstingur á dælu 3 bör og ökuhraði 7,2 km /klst gefa 200 lítra á ha en ökuhraði 3,6 km/klst gefa 400 lítra á ha.

  VARÚÐ:

 • Harmony er mjög eitrað vatnalífverum og getur haft skaðleg lagntímaáhrif á vatnalífríki.
 • Notið alltaf viðeigandi hlífðarfatnað og hlífðarhanska.
 • Geymist á þurrum, öruggum stað, fjarri fóðri, matvælum og neysluvörum og þar sem börn ná ekki til í upprunalegum umbúðum.
back to top