Illgresiseyðing í túnrækt

Við endurvinnslu túna kemur stundum upp vandamál með illgresi sem skerðir uppskeru og endingu nýræktarinnar. Sé mikið af óæskilegum gróðri í því landi sem á að endurvinna skipta gæði plægingarinnar öllu máli. Ef ætlunin er að rækta einærar jurtir í eitt til tvö ár í slíku landi áður en loka á akrinum með grasfræi er heppilegt að plægja í mismunandi sáðdýpt. Við fyrstu plægingu er þá plægt tiltölulega djúpt (15-20 cm) til að færa illgresisfræin á yfirborðinu niður á hæfilega mikið dýpi til að þau nái ekki aftur upp á yfirborðið af sjálfsdáðum. Á öðru ári er síðan plægt grynnra (10-15 cm) til að gæta þess að bera illgresisfræin ekki aftur upp á yfirborðið á ný. Jarðvinnsluna eftir plæginguna verður síðan að vinna í einu lagi með sáningunni til að gefa grasfræinu jafn mikið tækifæri til að spíra og illgresisfæinu sem gæti borist inn á akurinn með áfoki.

Ef arfi fer eftir sem áður að vaxa sáningarsumarið getur verið til bóta að slá nýræktina. Sláttur hefur meiri áhrif á tvíkímblöðunga til hins verra, s.s. haugarfa en á grastegundir. Tvíkímblöðungar eru sérlega viðkvæmir þegar þeir blómstra. Sláttur hjálpar því grösum í samkeppninni. Til eru undantekningar frá þessu sem eru illgresistegundir sem eru með vaxtarbrumið niður við jörð og skemmast ekki þegar slegið er.

Ef sláttuaðferðin hentar ekki er fátt til ráða nema að nota þar til gerða illgresiseyða. Eftir sáningu koma nokkur efni til greina en hafa þarf í huga að illgresiseyðar eru dýrir og ekki áhættulausir í notkun.


Notkun illgresiseyða í nýrækt
Fyrir spírun: Eftir sáningu, en áður er ræktunarfræ spírar, má úða glyphosate (Roundup). Það drepur allar plöntur sem þá hafa spírað. Ef eitthvað er eftir af gamla sverðinum slær þessi aðgerð á hann.
Eftir spírun: Grastegundir þola nokkra illgresiseyða eftir spírun. Í flestum tilfellum draga þeir þó einnig úr vexti grasanna. Grastegundirnar verða að vera komnar með tvö laufblöð eða meira þegar úðað er á þær. Efni sem innihalda virku hormónaefnin Mechloprop og 2,4-D koma hér til greina. Verslunarheiti þessarra illgresiseyða eru t.d. Herbamix, Weedar og Ugress Kverk-D. Þessi efni halda fræplöntum og einnig fjölæru tvíkímblaða illgresi niðri, en draga að nokkru úr vexti grasa (sjá t.d. Fjölrit RALA nr. 181). Grastegundir eru þó misviðkvæmar gagnvart hormónum. Rýgresi er þolið, túnvingull þolir minna og minnst þola vallarsveifgras og vallarfoxgras.


Sérstök vandamál
Verslunarheiti illgresiseyðanna innan sviga…

Haugarfi.
Haugarfi er ein versta illgresistegundin hér á landi. Í túnum er hann einkum vandamál í nýrækt eða eftir kal. Í túnum má eyða honum með mechloprop (Herbamix) Best er að gera það þegar gras hlífir honum ekki, t.d. eftir slátt. Úða má hvenær sem er sumarsins.
Sóleyjar. Losna má við sóleyjar með 2,4-D. (Weedar, Ugress Kverk-D)
Njóli. Njóla má fella með thifensulfúron-methyl (Harmony) í túnrækt. 
Fíflar. Hár kalístyrkur og hátt pH örva vöxt fífla. Eyða má þeim með 2,4-D. (Weedar, Ugress Kverk-D)
Húsapuntur. Húsapunti má eyða með glyphosate (Roundup).
Krossfífill og elfting. Dichlóbeníl fellir (Casuron)

Heimildir:
Jón Guðmundsson, 1998. Baráttan við illgresið, illgresiseyðar og notkun þeirra. Ráðunautafundur 1998

back to top