Endurræktun túna

Með endurræktun túna er stefnt að því að skipta um gróður í túninu og breyta vaxtarskilyrðum þannig að túnið skili meira og betra fóðri eftir endurvinnsluna en fyrir. Ástæður endurræktunar geta verið ýmsar en helsta ástæðan er sú að sáðgresi sé horfið og við hafi tekið tegundir sem ekki skili ásættanlegum gæðum. Fleira getur komið til s.s. að tún hafi kalið, að það sé orðið óslétt og erfitt yfirferðar eða að framræsla þurfi viðhalds.


Almennt eykst uppskera túna við endurræktun. Talið er að þetta gerist að einhverju leyti vegna áburðaráhrifa rotnandi jurtaleifa en einnig vegna bættra skilyrða fyrir nýtingu áburðar. Samantekt tilrauna með vallarfoxgras (tvíslegið) á Korpu sýndi að uppskera féll jafn og þétt frá endurræktunarári og var á fjórða ári um 77% af uppskeru fyrsta árs. Meðaluppskera fyrstu fjögur ár frá sáningu var rúmlega 5 tonn af þurrefni á hektara. Niðurstöður tilrauna á Hvanneyri eru samhljóða þessum niðurstöðum.


Uppskerumagnið er ekki einhlýtur mælikvarði á árangur endurræktunarinnar þar sem gæði uppskerunnar hafa áhrif á fóðrunarvirði hennar. Er líður frá endurræktun hopar sáðgresið og við taka tegundir sem skila ekki endilega rýrari uppskeru hvað varðar magn en yfirleitt hvað gæði varðar.


Jarðvinnsla
Mikilvægt er að velja jarðvinnsluaðferðir sem lágmarka samkeppni sáðgresis við þann gróður sem fyrir er í túnum. Vel heppnuð plæging er æskilegasta aðferðin til þess að grófvinna og gott er að vinna sáðbeðinn með herfi. Varast skyldi að vinna jarðveginn á meðan hann er of blautur og einnig eftir að hann verður of þurr. Einnig skyldi varast að ofvinna hann en við það fellur jarðvegsbyggingin saman og loftun og vatnsdreypni minnkar. Til greina kemur að plægja land að hausti til þess að drepa grasrótina en gæta verður að hættunni á jarðvegsrofi. Betra er að forrækta grænfóður eða korn í stykkinu í eitt eða fleiri ár.


Sáning
Mikilvægt er að sá strax eftir að fínvinnslu lýkur og gæta þarf þess að sáningin sé jöfn. Mun æskilegra er að nota raðsáðvél en þyrildreifara. Það er umhugsunarefni hvort ástæða sé til að hætta þeirri fjárfestingu sem lögð hefur verið í spilduna með ójafnri sáningu með þyrildreifara. Vel kemur til greina að skjólsjá til þess að fá uppskeru endurræktunarárið en gæta verður vandlega að vali tegunda til að skjólsá með grasfræi.


Skjólsáning
Skjólsáning er sáning grasfræs með öðrum tegundum s.s. grænfóðri eða korni. Velja verður tegundir sem mynda ekki þéttan svört og bestir eru hafrar og bygg. Minnka verður sáðmagn grænfóðursins miðað við hreinrækt og slá það fremur snemma. Varast skyldi að nota rýgresi sem skjólsáð því það myndar þéttan svörð og keppir því við grasfræið um ljós og næringu.


Tegundir
Vallarfoxgras gefur best fóður einkum fyrir mjólkurkýr. Það myndar hins vegar ekki þéttan svörð og því er gjarnan mælt með því að sá því í blöndu með vallarsveifgrasi. Hlutföll blöndunnar fara eftir aðstæðum á hverjum stað og til hverra nota túnið á að vera. Til greina kemur að sá fjölæru rýgresi þar sem hætta á kali er minni. Rýgresi skilar feikimikilli og góðri uppskeru ef það nær sér á strik en ræktun þess er áhættusamari en ræktun vallarfoxgras. Einnig kemur til greina að sá rauðsmára með sáðgresinu en rauðsmári lifir samlífi við rótarbakteríur sem vinna köfnunarefni úr andrúmslofti. Hann er því lifandi áburðarverksmiðja.


Í hnotskurn
· Sé sáðgresi horfið, tún kalin eða orðin óslétt er kominn tími til að endurvinna.
· Við endurvinnslu eykst uppskera vegna bættra vaxtarskilyrða.
· Gæði uppskerunnar og þar með fóðrunarvirði vaxa einnig við endurræktun.
· Vanda þarf jarðvinnslu. Best er að plægja og fínvinna sáðbeðinn með herfi.
· Best er að sá með raðsáðvél. Til þess að fá uppskeru sáðárið má skjólsá með byggi eða höfrum.
· Vallarfoxgras gefur best fóður en gott er að sá því í blöndu með vallarsveifgrasi.


Kjarni málsins
Regluleg endurræktun túna er grundvallaratriði í framleiðslu gæðafóðurs og til að tryggja hagkvæma nýtingu ræktarlands. Með endurrætun eykst ekki einungis uppskera heldur einnig fóðrunarvirðið og því eykst verðmæti fóðursins langt umfram uppskeruaukninguna.


Lykilgreinar:
Áslaug Helgadóttir og Jónatan Hermannsson, 2001. Ræktun fóðurs í framtíðinni. Rit Ráðunautafundar 2001, bls. 197-201.
Jónatan Hermannsson, 1998. Sáðskipti I. Rit Ráðunautafundar 1998, bls. 99-103.
Grétar Einarsson, 2001. Tækni við jarðvinnslu.
Grétar Einarsson, 2003. Sáning og sáðvélar
Guðni Þorvaldsson, 1993. Nýræktir og endurvinnsla. Handbók bænda 1993, bls. 48.

Samantekt:

Bændasamtök Íslands

back to top