Kálæxlaveiki

Kálæxlaveiki (Plasmodiophora brassicae) er sveppasjúkdómur sem leggst á plöntur af krossblómaætt en af þeirri ætt er t.d. fóðurkál (repja), gulrófur, næpur og ýmsar káltegundir til manneldis. Þá eru sumar villtar tegundir sem hér vaxa af krossblómaætt t.d. hjartaarfi. Þessi sjúkdómur getur einnig lagst á þær. Sjúkdómurinn er á engan hátt hættulegur neytendum plantnanna, skaðsemi hans er eingöngu fólgin í uppskerubresti nái plöntur að smitast.


Kálæxlaveiki er algengur sjúkdómur í nágrannalöndum okkar en hér á landi hefur hann til þessa eingöngu fundist á garðyrkjustöðvum, einkum þar sem jarðhiti er notaður. Haustið 2003 fannst kálæxlaveiki hins vegar í fóðurkálsökrum og rófugörðum undir Eyjafjöllum og í austanverðum Flóanum. Hún olli sums staðar miklu tjóni. Þessi sjúkdómur þarf töluverðan hita og kemur hlýnandi veðurfar honum því til góða


Hvað veldur sjúkdómnum?
Sjúkdómnum veldur slímsveppur, en sveppir af þeirri gerð mynda ekki þræði heldur eru eins konar einfrumungar sem mynda bæði sundgró og dvalargró. Kálæxlaveikisveppurinn fjölgar sér eingöngu í rótarfrumum hýsilplantnanna og fær þær til að skipta sér óeðlilega og bólgna út. Í rótarfrumunum myndast svo dvalagró síðsumars. Þau losna út í jarðveginn þegar rótin rotnar og bíða þar til næsta vors eftir kál- eða rófuplöntu, eða einhverri annarri plöntu af krossblómaætt. Þá spíra dvalagróin og úr þeim koma sundgró sem leita uppi rótarhár plöntunnar. Dvalagróin geta lifað árum saman í jörðu þótt ekki séu hýsilplöntur til staðar. Þeim fækkar þó smám saman og að lokum deyr sveppurinn út. Ekki ber heimildum saman um hve langur tími líður þar til sveppurinn er aldauða, en það fer örugglega eftir umhverfisaðstæðum og því hve grómagnið var mikið í upphafi. Oft er talað um 12-20 ár í þessu sambandi. Eftir 4-6 ár hefur gróunum hinsvegar fækkað svo mikið að erlendis er talið óhætt að rækta kál á 4-6 ára fresti. Til að útrýma sveppnum þarf hins vegar að bíða lengur.


Hvernig lýsir sjúkdómurinn sér?

Kálæxlaveikin sést greinilega á rótum plantnanna. Ræturnar verða eins konar hnýði.
Ljósmynd: Halldór Sverrisson, RALA
Sjúkdómurinn lýsir sér þannig að hnúðar myndast á rótum plantnanna og ýmist draga úr vexti þeirra eða drepa þær alveg. Einnig stíflar sveppurinn leiðslukerfi plönturótanna og hindrar vatnsupptöku þannig að blöð missa vökvaspennu og hanga á sólríkum dögum.

Hvernig dreifir sjúkdómurinn sér?
Kálæxlaveiki er mjög smitandi sjúdómur og berst á nýja staði með jarðvegi og sýktum plöntum. Einnig getur hann borist í nýjar spildur með gripum sem fara úr sýktum kálakri yfir á aðrar spildur næst honum. Smitið lifir af ferðina gegnum meltingarveg gripanna sem neyta sýktra jurta og því getur búfjáráburðurinn verið smitaður. Hættan á þessari smitleið er þó hverfandi nema grænfóðrið hafi verið slegið og gefið á hús.


Hvað á að gera til að útrýma sjúkdómnum?
Ekki eru til nein lyf gegn þessum sjúkdómi. Honum verður því aðeins útrýmt með því að hætta
að rækta jurtir af krossblómaætt í landi sem vitað er að er sýkt eða líkur eru á að sé sýkt. Til að byrja með þarf hver bóndi því að flokka hjá sér ræktunarlandið skv. eftirfarandi skilgreiningu í þrjá aðalflokka;


  1. Sýkt land þar sem smitaðar plöntur hafa fundist.
  2. Land sem smit gæti hafa borist í vegna nálægðar við sýkt land eða með tækjum.
  3. Land sem að öllum líkindum er hreint, liggur fjarri sýktum spildum og hefur ekki verið unnið a.m.k. sl. 8 ár.
Mikilvægt er að jarðræktendur fylgi eftirfarandi ráðleggingum við jarðvinnsluna til að unnt verði að útrýma sjúkdómnum;


  1. Loka þarf öllum smituðum ökrum (flokkur a) með grasfræi og vinna þá ekki næstu 6-7 árin. Að þeim tíma liðnum skal þó ekki rækta kál eða aðrar jurtir af krossblómaætt í ökrunum fyrr en fullvíst er að allt smit sé horfið. Ef spildurnar eru opnar er miklu meiri hætta á að smit berist úr þeim í annað land og meiri líkur á að hjartarfi nái sér á strik en hann er af krossblómaætt og getur smitast. Skynsamlegt er að loka öllum sýktum spildum í einu og með sömu tækjum.

  2. Land sem smit gæti hafa borist í (flokkur b) skal ekki nota fyrir plöntur af krossblómaætt næstu árin. Plöntum af krossblómaætt skal því eingöngu sá í hreint land.

  3. Öll tæki sem notuð hafa verið í sýktum spildum skal háþrýstiþvo eftir notkun. Þetta á við dráttarvélar, jarðvinnslutæki, valtara, sáðvélar, ýtur og gröfur. Gæta þarf að því að afrennsli frá þvottinum lendi ekki þar sem það getur valdið sýkingu. Ef stutt er til sjávar getur verið ágætt að grófþvo tækin í næstu á.

  4. Ekki þarf sömu nákvæmni við þrif á tækjum þegar farið er með þau á milli spildna sem falla undir flokk b. Góð regla er þó að þrífa það mesta af moldinni burt.

  5. Ekki má fara með óhrein tæki í hreint land.

  6. Þar sem til eru tvö tæki sömu tegundar er hægt að nota annað þeirra í sýktar spildur eða spildur sem gætu verið sýktar en hitt í hreinar.

  7. Ekki skal fara með tæki sem geta borið smit út fyrir sýktu sveitirnar. Jarðýtur og skurðgröfur og önnur tæki verktaka verða þó að hafa undanþágu með skilyrðum um þvott.

Mjög er mælst til þess að bændur fylgi þessum vinnureglum við jarðvinnslu nú í vor.


Búnaðarsamband Suðurlands
Rannsóknastofnun landbúnaðarins
Bændasamtök Íslands

back to top