Grænfóðurrækt

Grænfóður er safnheiti margra tegunda ein- og tvíærra plantna sem ræktaðar eru til beitar eða fóðurverkunar. Við val á grænfóðurtegund er einkum litið til öryggis við ræktunina, væntanlegrar uppskeru og hvenær og hvernig eigi að nýta hana.

Til beitar eru oft hafðar fleiri en ein tegund grænfóðurs og jafnvel sáð á mismunandi tímum til þess að ná sem lengstum beitartíma. Í þessu sambandi ræður vaxtarhraði tegundanna mestu en taka þarf tillit til þátta eins og meltanleika, uppskeru, lostætni o.fl. Á mynd má sjá væntanlegan nýtingartíma einstakra tegunda miðað við sáningu 31. maí.
granfodur nyting

Til að reikna væntanlegan nýtingartíma slærðu inn sáningardag. ATH! Mánuður kemur á undan dags. Í „dagar“ reitinn seturðu vaxtartímann sem er;

50-75 fyrir sumarrepju, 90-120 fyrir vetrarrepju,
50-60 fyrir sumarrýgresi, 70-100 fyrir vetrarrýgresi,
75-110 fyrir sumarhafra, 100-140 fyrir vetrarhafra,
60-80 fyrir bygg, 110-150 fyrir mergkál
45-60 fyrir hreðku, 100-130 fyrir næpu.

Smelltu síðan á „Reikna“.

Til þess að reikna sáningardag m.v. áætlaðan nýtingartíma slærðu inn dagsetningu í nýtingardagur. Í „dagar“ reitinn seturðu vaxtartímann (sjá hér fyrir ofan).
Smelltu síðan á „Reikna“.

 

Sáð dags.
 

vaxtardagar
 

Nýtingardagur


 

Grænfóður af grasaætt
Þessar tegundir eru fremur prótein- og steinefnasnauðar og hafa tilhneigingu til að rýrna mjög að fóðurgildi eftir skrið. Grænfóður af grasaætt hentar vel sem skjólsáð við endurræktun, þó ekki rýgresi

Bygg (Hordeum vulgare) gerir allnokkrar kröfur til jarðvegs en það þolir illa súran jarðveg. Kjörsýrustig er á bilinu pH 6,0 – 7,0. Bygg er það grænfóður sem best hentar til skjólsáningar en einnig hentar það vel í blöndu með öðru grænfóðri. Vaxtartími þess er 60 – 80 dagar en nýtingartími þess til beitar er stuttur.

Uppskera við kúabeit: 2.400-2.800 FEm/ha.

Áburður: N 120-130 kg/ha Sáðmagn: 180-200 kg/ha
P 30-50 kg/ha
K 60-80 kg/ha

Hafrar (Avena sativa) gera litlar jarðvegskröfur og gefa örugga uppskeru. Þeir þurfa um og yfir 100 sprettudaga, vetrarhafrar eilítið lengri tíma en sumarhafrar. Sumarhafra þarf að nýta er vaxtarhraði er í hámarki en fóðurgildi þeirra fellur hratt eftir skrið. Vetrarhafrar hafa aftur þann kost að þeir standa lengur og skríða seint eða ekki og halda meltanleikanum betur. Þeir henta því betur til beitar og gefa ágæta haustbeit.

Uppskera við kúabeit: 2.800-3.600 Fem/ha af sumarhöfrum
2.700-4.200/ Fem/ha af vetrarhöfrum

 

Áburður: N 130-180 kg/ha Sáðmagn: 180-200 kg/ha
P 50-70 kg/ha
K 90-100 kg/ha

Rýgresi (Lolium multiflorum) gefur að öllu jöfnu góðan endurvöxt, er fjölhæft, lystugt og ódýrt í ræktun. Rýgresi dafnar vel í myldinni jörð en þolir illa þurrka á vorin. Það hentar vel til bæði beitar og sláttar og endurvöxturinn getur staðið langt fram eftir hausti. Til eru bæði sumar- (westerwoldicum) og vetrarafbrigði (italicum). Vaxtartími sumarafbrigða er 50-60 dagar en vetrarafbrigða eilítið lengur. Í flestum tilvikum gefur sumarafbrigði meiri uppskeru í fyrsta slætti en vetrarafbrigði gefa meiri heildaruppskeru í tveimur sláttum. Sumarafbrigðið er gjarnt á að setja punt eftir u.þ.b. 70 daga og þá er mikilvægt að vera búinn að nýta það. Vetrarafbrigði setja síður punt og eru því heppileg til beitar að hausti. Ekki er hægt að ráðleggja rýgresi sem skjólsáð með grasfræi.

Uppskera við kúabeit: 2.600-3.000 FEm/ha af sumarrýgresi
2.600-3.200 FEm/ha af vetrarrýgresi


Áburður: N 130-180 kg/ha Sáðmagn: 35 kg/ha
P 50-70 kg/ha
K 90-100 kg/ha

Grænfóður af krossblómaætt
Grænfóður af krossblómaætt er yfirleitt uppskerumeira og efnaríkara en grænfóður af grasaætt. Efnainnihald er hagstætt mjólkurkúm, það er prótein- og orkuríkt en nýtingin er oft á tíðum vandasamari.

Mergkál er ákaflega seinvaxið grænfóður en getur gefið geysimikla uppskeru. Það er þó hvergi nærri eins öruggt í ræktun og t.d. vetrarrepja. Það þrífst best í mýrarjarðvegi eins og annað kál. Mergkál er mjög viðkvæmt fyrir arfa.

Uppskera við kúabeit: 2.500-4.000 FEm/ha

Áburður: N 130-160 kg/ha Sáðmagn: 6 kg/ha
P 40-60 kg/ha
K 100-200 kg/ha

Næpa er lítið ræktuð enda seinþroska og nýting oft vandkvæðum bundin. Nokkurn tíma getur tekið að venja skepnur á átið. Takist vel til gefur næpan mikla og góða uppskeru auk þess sem hún er ódýr. Hún er efnarík og lystug. Næpan þrífst best í mýrarjarðvegi, helst nýbrotnu eða á 1. ári í endurvinnslu. Oft er næpunni blandað við vetrarrepju í ræktun og er þá talið að draga megi úr kálfluguskemmdum á næpunni.

Uppskera við kúabeit: 4.400-5.200 FEm/ha

Áburður: N 130-160 kg/ha Sáðmagn: 1-2 kg/ha
P 40-60 kg/ha
K 100-200 kg/ha

Repja er fáanleg bæði sem sumar- og vetrarrepja, þ.e. fljót- og seinsprottin. Sumarrepjan er mjög fljótsprottin og því tiltölulega snemma nýtanleg til beitar. Vetrarrepjan er aftur á móti mun seinni til en stendur vel fram á haustið og meltanleiki hennar fellur ekki eftir blómgun. Hún hefur því langan nýtingartíma. Repja vex best í myldnum mýrarjarðvegi en þolir mun verr áreyrar, sand eða möl. Kálfluga getur verið staðbundið vandamál við ræktun repju.

Uppskera við kúabeit: 2.800-4.000 FEm/ha

Áburður: N 130-160 kg/ha Sáðmagn: 6-12 kg/ha
P 40-60 kg/ha Hæð repjunnar má stjórna nokkuð með sáðmagni
K 100-200 kg/ha
back to top