Tilbúinn áburður á tún

Köfnunarefni (N), fosfór (P) og kalí (K) eru þau þrjú næringarefni sem teljast megin næringarefni plantna. Þessi áburðarefni þarf að bera árlega á tún til þess að ásættanleg uppskera náist. Fjölmörg önnur efni s.s. brennisteinn (S), kalsíum (Ca), magnesíum (Mg) o.fl., eru nauðsynleg plöntum en misjafnt er eftir aðstæðum hvort eða hversu mikið þarf að bera á af þeim.
Köfnunarefni -N
Köfnunarefni, einnig nefnt nitur, er til staðar í miklum mæli í andrúmslofti og er það efni sem plöntur þurfa að jafnaði mest af til vaxtar. Köfnunarefni er yfirleitt til staðar að einhverju leyti í jarðvegi en misjafnt er hversu mikið af því stendur plöntum til boða. Í jarðvegi losnar köfnunarefni við rotnun lífrænna leifa og því er meira af því í jarðvegi með hátt hlutfall lífrænna efna. Skipti á köfnunarefni á milli andrúmslofts og jarðvegs fara einnig fram. Skorti plöntur köfnunarefni verða þær ljósar og smávaxnar, það dregur úr ljóstillífun og vöxtur og uppkera verða minni.
Fosfór -P
Í íslenskum jarðvegi er yfirleitt töluvert af fosfór en hann nýtist plöntum illa þar sem hann er fast bundinn. Því þarf að bera a.m.k. jafn mikið á af fosfór og tekið er með uppskeru. Ekki er óalgengt að grös taki upp 8-20 kg/ha af fosfór árlega.
Skortur á fosfór veldur því að plöntur verða dökkgrænar eða jafnvel blágrænar
Kalí(um) –K
Misjafnt er eftir aðstæðum hversu mikið kalí er i jarðvegi. Búsast má við því að 70-100 kg af Kalí séu í uppskeru af þokkalegu túni. Búfjáráburður er kalíríkur og sé hann borinn á má draga verulega úr kalínotkun í tilbúnum áburði. Ástæða er til að vara við of mikilli kalíáburðargjöf því ofgnótt af kalí getur leitt til kalsíum- og magnesíumskorts í heyi. Skortur á kalí lýsir sér þannig að plöntur verða grágrænar eða gulgrænar. Við mikinn skort gulna blöðin og þau elstu visna.
Áburðarmagn
En hversu mikið skyldi bera á tún? Við þessari spurningu er ekkert einfalt svar því haga verður áburðargjöf eftir frjósemi jarðvegs og ástandi ræktunar. Kostnaður við áburðarkaup er einn af stóru liðunum í búrekstrinum og þar er því til mikils að vinna ef tekst að hagræða. Almennt er mælt með eftirfarandi túnskömmtum.
Köfnunarefni -N 90-150 kg/ha
Fosfór -P 10-30 kg/ha
Kalí -K 40-80 kg/ha

Eftirfarandi skyldi haft í huga við ákvörðun áburðarskammta: • Á nýræktir og uppskerumikil tún í góðri rækti skyldi bera á hámarksskammt. Þessi tún skila fjárfestingunni betur.

 • Jarðvegsgerð hefur áhrif á val áburðarskammta. Framræst mýrlendi þarf mun minni köfnunarefnisáburð en sendin tún.

 • Á nýræktir þarf alla jafna mikinn fosfór fyrstu árin.

 • Hafi verið borinn á búfjáráburður verður að reikna það inn í áburðaráætlunina einkum varðandi kalí og köfnunarefni.

 • Áburður umfram hámarksskammta eykur uppskeru lítið en hefur áhrif á efnamagn heys.
  • Ofgnótt af köfnunarefni eykur próteinhlutfall grasa.

 • Alltaf skyldi miða við að bera ekki meira á tún en það sem tekið er burt með uppskeru eða binst í jarðvegi. Afrennsli áburðarefna af túnum getur mengað ár, læki og grunnvatn.


Áburðartími
Best er að haga áburðardreifingu þannig að áburðarefnin séu til reiðu þegar plönturnar þarfnast þeirra. Því skal bera eins snemma á að vori og mögulegt er eftir að tún byrja að gróa og hægt er að komast um þau með góðu móti. Sé borið á áður en upptaka plantna hefst er hætta á afrennsli og uppgufun áburðarefna en sé borið á of seint tapast dýrmætur tími sem nýst gæti til vaxtar. Miða skal við að bera á áður en meðalhiti sólarhrings nær 7-7,5 °C sem víðast gerist á tímabilinu frá miðjum maí til mánaðarmóta maí-júní. Þar sem til stendur að slá há eða nýta tún til síðsumarbeitar skyldi bera hluta áburðarins á á milli slátta. Sé það gert ætti að draga úr voráburðargjöf sem því nemur.
Á seinni árum hefur umræða um haustáburðargjöf farið vaxandi i kjölfar tilrauna sem gerðar voru á tilraunastöðvum Rannsóknarstofnunar landbúnaðarins á Korpu og Möðruvöllum. Í ljós kom að grasspretta varð heldur meiri ef hluti áburðar var borinn á síðari hluta ágústmánaðar haustið áður í samanburði við ef allur áburður var borinn á 25. maí. Efnamagn í uppskeru var þó minna. Út frá tilraunaniðurstöðunum var ályktað að bera þyrfti á að hausti áður en meðalhitinn færi undir 7°C eða að jafnaði fyrir miðjan september. Lykillinn að því að áburður sem borinn er á að hausti nýtist að vori er að land sé vel gróið og plönturnar í stakk búnar til þess að taka næringarefnin upp. Næring sem tekinn er upp eftir að plöntur hætta að vaxa síðsumars geymist í sprotum og rótum yfir veturinn og nýtist snemma vors. Tún sem borið er á að hausti ættu því jafnan að grænka fyrr á vori. Haustdreifing gæti vel komið til greina þar sem erfitt er að komast um tún að vori vegna bleytu eða til að dreifa vinnuálagi.

Uppskera áburðarefna í heyi
Hægt er að gera sér grein fyrir nýtingu áburðarefna með því að nota heyefnagreiningar til þess að reikna það magn áburðarefna sem tekið er með uppskeru. Efnamagn í heyi ákvarðast af ýmsu s.s. jarðvegsgerð, áburðargjöf, grastegundum o.fl. Ef uppskera er þekkt og heyefnagreiningar liggja fyrir er hægt að reikna það magn næringarefna sem tekið er með uppskeru. Ef það er borið saman við áburðargjöf má átta sig á nýtingu áburðarins.
 
 
 
Við góð skilyrði má gera ráð fyrir því að meira en 70% af köfnunarefninu nýtist. Ef nýtingin fer niður fyrir 50% bendir það til lélegra ræktunarskilyrða og þess að köfnunarefni hafi tapast með afrennsli eða afnítrun.
 
Í hnotskurn


 • Mikilvægt er að taka tillit til jarðvegsgerðar, gróðurfars og ræktunarskilyrða þegar áburðarskammtar eru ákveðnir.

 • Tún í góðri rækt þar sem framræsla er í góðu lagi skila að jafnaði betri áburðarnýtingu.

 • Mikilvægt er að taka tillit til búfjáráburðar við val á áburðarskömmtum einkum m.t.t. kalís og köfnunarefnis.

 • Hægt er að átta sig í grófum dráttum á nýtingu áburðar með því að nota uppskerutölur og heyefnagreiningar.

Lykilgreinar
Árni Snæbjörnsson, 1994. Um tilbúinn áburð. Handbók bænda 1994, bls. 19.
Friðrik Pálmason, 2000. Heyefnagreiningar og áburðarleiðbeiningar. Rit Ráðunautafundar 2000, bls. 123-131.
Hólmgeir Björnsson, 1998. Dreifing áburðar síðsumars og að hausti. Rit Ráðunautafundar 1998, bls. 141-154.
Ríkharð Brynjólfsson, 1996. Áhrif áburðartíma, áburðarmagns og sláttutíma á uppskeru og efnainnihald túngrasa. Rit Ráðunautafundar 1996, bls. 113.
Óttar Geirsson, 1999. Áburður á tún. Handbók bænda 1999, bls 75-78.Bændasamtök Íslands tóku saman
 


  back to top