Áburðaráhrif mykju með DGI niðurfellingabúnaði

Tilgangur niðurfellingarinnar er að auka nýtingu á næringarefnum mykjunnar fyrir nytjagróður, draga úr umhverfismengun af völdum landbúnaðar og minnka lyktarmengun. Víða í nágrannalöndum okkar er gerð krafa um að fella niður allan búfjáráburð eða að randdreifa honum á yfirborð jarðvegs.
Til þess að skoða afrakstur og áhrif af niðurfellingu mykju í tún með DGI búnaði var skipulagt verkefni sem hafði það að markmiði að svara eftirfarandi spurningum:

  1. Hver eru áhrif haust- og vorídreifðar mykju á uppskeru og efnamagn grasa í samanburði við yfirbreidda mykju?
 1. Hver eru áburðaráhrif haust – og vordreifðar mykju á grös í samanburði við tilbúinn áburð?

Aðferðir við dreifingu á mykju
Aðferðir við að koma mykju á völl eru tvenns konar, með yfirbreiðslu eða niðurfellingu. Yfirbreiðslan er annað hvort framkvæmd með bunudreifingu úr haugsugu eða tankdreifara sem skvetta úr sér mykjunni í löngum bunum, eða með slöngudreifara sem leggur mykjuna á yfirborðið með þar til gerðum slöngum sem festar eru með jöfnu millibili á þverörmum aftan á mykjutanki, s.k. randdreifing.

Bunudreifing      er allsráðandi aðferð hér á landi. Kostir hennar eru fyrst og fremst mikil afköst við dreifingu og hún er viðhaldslítil og ódýr í samanburði við aðrar dreifingaraðferðir. Ókostirnir eru ójöfn dreifing oft á tíðum og sérstaklega í roki, hættu á köfnunarefnistapi vegna uppgufunar, mikil grasmengun ef dreift er eftir að grasspretta er komin af stað og hættu á mikilli útskolun ef dreift er að hausti eða vetri.
Randdreifing   mykju á svarðaryfirborð dregur verulega úr stærstum göllum bunudreifaranna. Þessi aðferð dreifir mykjunni jafnt, hætta á köfnunarefnis uppgufun er verulega minni og hún veldur minni mengun á grasi í vexti. Að sama skapi er hún dýrari og tíma- og viðhaldsfrekari en bunudreifingin.

Ýmsar gerðir eru til af niðurfellingartækjum sem rista rásir í svarðarlagið. Flest tækin eru þannig að hnífur sker í gegn um svörðinn og á eftir fylgir búnaður sem leggur mykjuna út í rásir misdjúpt eða frá 4 – 10 cm dýpt. Einnig er mismunandi hve mikið verður eftir á yfirborðinu. Við uppristunina verður líka loftun en tún geta orðið óslétt. Við niðurfellingu mykju tapast minna af köfnunarefni (N) við uppgufun en við yfirbreiðslu. Þá er talin vera minni hætta á útskolun áburðarefna, þar sem mikill hluti þeirra er felldur niður í grassvörðinn (Morken o.fl. 1998). Tæki sem að rista rásir í svarðarlagið eru orkufrek og vilja oft skemma rótarkerfi grasanna sem dregur úr ávinningi af niðurfellingunni. Þess vegna hafa verið þróaðar aðferðir við að fella niður mykju sem eru ekki eins orkufrekar og skemma minna en eldri aðferðir. Ein þessara aðferða er DGI tæknin, en hún gengur út að það sprauta með háþrýstingi mykjunni ofan í svörðinn (sjá mynd).

Kosti og galla niðurfellingar í samanburði við yfirbreiðslu á mykju en þeir eru;

Kostir Gallar
Minna ammoníakstap Fleiri hestöfl
Betri köfnunarefnisnýting Meiri kostnaður við dreifingu
Aukin votheysgæði   Meiri skemmdir á gróðri (rótarkerfi)
Minni lyktarmengun Aukin hætta á losun gróðurhúslofttegunda (N2O og CH4)

Erlendar rannsóknir sýna að þrátt fyrir að niðurfelling dragi verulega úr köfnunarefnistapi þá skilar það sér sjaldan í áþreifanlegum uppskeruauka af einhverju tagi í samanburði við vandaða yfirborðsdreifingu (Mattila1 o.fl. 2003b; Rodhe 2004).

Niðurstöður og umræður
Mesta vandamálið við dreifingu mykjunnar voru stíflur í niðurfellingarstútum vegna aðskotahluta í mykjunni eins og t.d. klaufbrot, smásteinar, baggabönd og heyvöndlar. Þessar stíflur draga verulega úr afköstum því það er tímafrekt að hreinsa stíflurnar. Þá var misjafnt hvað niðurfellingin náði langt niður og mældist í þessum tilraunum vera á bilinu 3-7 sm. Er það svipuð eða heldur meiri dýpt en mælst hefur í erlendum og innlendum rannsóknum á DGI búnaðinum (Grétar Einarsson & Lárus Pétursson 2000; Rodhe 2004). Dýptin ræðst af afli vélar til að halda uppi þrýstingi, mykjuþykkt, fljótanleika mykjunnar og jarðvegsviðnámi (Rodhe 2004). Þessir þættir, fyrir utan mykjuþykkt, voru hins vegar ekki mældir í tilraununum.

Samantekt 

 • Niðurfelling mykju í samanburði við yfirbreidda mykju með DGI tækni skilaði yfirleitt ekki ávinningi m.t.t. áburðarnýtingar og uppskeruauka, nema einna helst við haustdreifingu.
 • Í samanburði við yfirbreidda mykju getur niðurfelling mykju að vori haft neikvæð áhrif á uppskeruauka og heimtur næringarefna.
 • Haustdreifð mykja skilaði alltaf minni uppskeru og mun lakari heimtum á næringarefnum heldur en vordreifð mykja.
 • Með haustdreifingu eru næringarefnaheimtur úr mykju mun ótryggari í samanburði við vordreifingu.
 • Eftirverkanir mykju á uppskeru og næringarefnaupptöku voru litlar.
 • Næringarefnaheimtur voru mestar í K > NH4-N >P.
 • Mykja truflar ákveðið upptöku grasa á Ca og Mg.
 • Blandaður tilbúinn áburður sem dreift var að hausti skilaði minni uppskeruauka og minni næringarefnaheimtum en mykja sem dreift var á sama tíma.
 • Blandaður tilbúinn áburður sem dreift var að vori skilaði meiri uppskeruauka og meiri næringarefnaheimtum en mykja sem dreift var á sama tíma.
 • Heimtur á Ca, Mg og S í tilbúnum áburði voru mjög góðar.

Heimildir:     Unnið upp úr greininni, Áburðaráhrif mykju og árangur ísáningar með DGI niðurfellingabúnaði – I. Áburðaráhrif   eftir Þórodd Sveinsson, Tilraunastjóra á Möðruvöllum og Hafdísi Sturlaugsdóttir, Landbúnaðarháskóla Íslands.

back to top