Kaup og sala á mjólkurkúm
Á undanförnum árum hefur verið vaxandi verslun með nautgripi. Hefur það helst verið vegna aðgerða gegn hárri frumutölu og búháttabreytinga því margir hafa hætt kúabúskap og aðrir hafa verið að stækka búin sín. Mikill misbrestur er á því að faglega sé að slíkri verslun staðið. Skiptir þar mestu máli að ekki er aflað nægilega góðra upplýsinga um dýrin sem verið er að kaupa, né búið sem keypt er frá. Vegna þessa hefur Þorsteinn Ólafsson, dýralæknir, tekið saman nokkra punkta eða gátlista sem nota má til hliðsjónar við kaup og sölu á mjólkurkúm.
Að gefnu tilefni vil ég minna á lög nr. 25 /1993 um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim og birta nokkra valda kafla úr þeim.
3. gr.
…………
Héraðsdýralæknar skulu hver í sínu umdæmi hafa eftirlit með og vinna að bættu heilsufari dýra og fylgjast með heilbrigðisástandi þeirra og vera á verði gegn nýjum dýrasjúkdómum er kunna að berast til landsins eða milli sóttvarnarsvæða
11. gr.
Yfirdýralækni er heimilt að takmarka eða banna flutning dýra, vöru eða tækja milli eða innan sóttvarnarsvæða telji hann að það valdi eða sé líklegt til að valda útbreiðslu sjúkdóma meðal dýra.
12. gr.
Landbúnaðarráðherra ákveður, að fengum tillögum dýrasjúkdómanefndar, hvaða varnarlínum skuli haldið við….. Landbúnaðarráðherra ákveður með auglýsingu skiptingu varnarlína í aðalvarnarlínur og aukavarnarlínur að fengnum tillögum dýrasjúkdómanefndar.
25. gr.
Óheimilt er að flytja sauðfé til lífs yfir varnarlínur nema vegna fjárskipta. Sleppi sauðfé yfir varnarlínur skal því slátrað………..Nautgripi og geitur má því aðeins flytja yfir varnarlínur til lífs að fram fari sérstök rannsókn á heilbrigði þeirra. Yfirdýralæknir getur leyft flutning á tilrauna- og kynbótagripum yfir varnarlínur.
Einnig reglugerð nr. 919/2002 um mjólk og mjólkurvörur
15. gr.
Mjólkurstöðvar skulu tvisvar á ári láta framkvæma sýklagreiningu á innleggsmjólk hvers framleiðanda í þeim tilgangi að leita að keðjusýklum af flokki B (Streptococcus agalactiae). Þegar þessi sýkill greinist í mjólk framleiðanda skal tilkynna það mjólkurframleiðanda og viðkomandi héraðsdýralækni og skulu gerðar sérstakar ráðstafanir til útrýmingar honum, samkvæmt nánari fyrirmælum í reglugerð sem landbúnaðarráðherra setur að fengnum tillögum embættis yfirdýralæknis.
Það er mikilvægt að þeir sem höndla með nautgripi séu kunnugir þessum lögum og reglugerð.
Hvernig á að standa að kaupum á mjólkurkúm?
Þegar gripir eru valdir þarf að fá upplýsingar um fæðingarmánuð þeirra, ætterni og kynbótaeinkunn sé hún til. Þá ætti að vera sjálfsagt að fá upplýsingar um heilsufarssögu gripanna og fá dýralækni til þess að leggja mat á gripinn og skoða sérstaklega júgur og klaufir og fá staðfestingu á að kýr sem eiga að vera með fangi séu það. Mikilvægt er að vera á varðbergi vegna júgurbólgu, kaupa ekki kýr sem ítrekað hafa fengið júgurbólgu, eða verið með háa frumutölu í langan tíma. Þá vara ég við að keyptar séu kýr af búum þar sem vandamál hefur verið með penisillínónæma júgurbólgusýkla. Þess vegna er rétt að senda spenasýni úr kúnum og láta rækta úr þeim.
Það eru nokkrir sjúkdómar sem þarf að varast og þess vegna er eðlilegt að sá sem ætlar að selja nautgripi til lífs geti lagt fram vottorð frá héraðsdýralækni um að á búinu séu ekki sjúkdómar eins og garnaveiki, júgurbólga af völdum B streptokokka (Str. agalactiae) eða aðrir smitandi sjúkdómar.
Leitað er að einkennum garnaveiki í öllum fullorðnum kúm sem er slátrað í sláturhúsi og að B streptokokkum er leitað tvisvar á ári í tankmjólk og fljótgert er að fá nýja greiningu.
Seljandi ætti einnig að geta lagt fram niðurstöður úr sýklaræktun eða lagt fram staðfestingu á því frá rannsóknastofu hvernig lyfjanæmi er háttað á búinu hafi verið höfð regla á því að senda inn spenasýni.
Standi til að kaupa kýr í öðru varnarhólfi verður að fá staðfest leyfi til þess frá yfirdýralækni.
Gátlisti við kaup á kúm.
Seljandi leggur til:
Nýtt vottorð frá héraðsdýralækni um:
Garnaveiki
B-streptokokka (Str agalactiae)
Aðra smitandi sjúkdóma.
Leyfi frá yfirdýralækni um flutning á milli varnarhólfa
Upplýsingar frá dýralækni búsins um heilsufarssögu búsins
Niðurstöður á ræktun júgurbólgusýkla og lyfjanæmi þeirra.
Upplýsingar um aldur, ætterni, kynbótaeinkunn, nyt, sæðingar og heilsufarssögu einstakra kúa.
Kaupandi fær með sér dýralækni sem:
Staðfestir fang
Heilbrigðisskoðar útvalda gripi með sérstakri áherslu á júgur, spena og klaufir.
Tekur spenasýni til ræktunar úr kúm sem á að kaupa.