SUNNA

Rekstrarráðgjöf fyrir kúabændur


Sumarið 1998 var byrjað á sérstöku þróunarverkefni í rekstrarráðgjöf til kúabænda sem fékk heitið SUNNA. Um er að ræða einstaklings ráðgjöf sem lýtur að ýmsum rekstrarþáttum kúabús. Reynt er að tengja rekstur og áætlanagerð við hina daglegu bústjórn og nýta til þess þau gögn sem þegar eru fyrir hendi, s.s. ársreikning búsins, skýrsluhald nautgriparæktar o.fl. Farið er með gögn frá hverju búi sem trúnaðarmál. Með SUNNU er reynt að aðstoða kúabændur við að hafa gott yfirlit yfir rekstur á sínu búi og gera þeim auðveldara fyrir að taka framtíðarákvarðanir.
SUNNA byggir á föstum grunni og aðgerðaráætlunum að eigin vali. Fastur grunnur verkefnisins er að unnin er rekstrargreining m.v. síðasta ár og fundnir veikir og sterkir þættir í rekstrinum. Þá er SVÓT-greining fastur grunnur í verkefninu og byggir hún að verulegu leyti á rekstrargreiningunni og þeim rekstrarmarkmiðum sem sett eru í kjölfarið. Auk þessa er unninn rekstrarlegur samanburður milli ára og gerður samanburður milli búa í verkefninu sem að sjálfsögðu er birtur nafnlaus. Þessi vinna er innifalin í árgjaldi SUNNU sem er núna 20 þús. kr. á ári.

Í kjölfar greiningar á rekstri búsins getur verið eðlilegt að vinna ítarlegri áætlanir sem taka mið af  rekstrargreiningu og niðurstöðu hennar. Gefi rekstrargreiningin t.d. til kynna að áburðarnotkun sé veikur rekstrarþáttur er eðlilegt framhald að ráðgjafi mæli með því að unnin verði áburðaráætlun. Bóndinn hefur að sjálfsögðu fullt val. Fyrir verk eins og rekstraráætlanir, áburðaráætlanir, fóðuráætlanir o.s.frv. er innheimt sérstaklega samkvæmt tímagjaldi.

Athygli er vakin á því að bændur geta unnið rekstrargreiningu og rekstraráætlun hver fyrir sig en þau forrit má finna á heimasíðu Bændasamtaka Íslands. Um er að ræða excel-skjöl. Rekstaráætlunin er forrit sem þarf að hlaða niður (save) á tölvu viðkomandi.

Þeir þættir sem SUNNA tekur einkum til eru:

FASTUR GRUNNUR:  • Rekstrargreining sem byggir á bókhaldi búsins, þ.e. ársreikningi og skýrsluhaldi nautgriparæktar. Einkum er horft á tekjur og gjöld á hvern lítra og fundnir veikir og sterkir þættir í rekstrinum. Samanburður er gerður á rekstri búsins milli ára og sett upp á myndrænan og auðskiljanlegan hátt. Með því móti er hægt að sjá á augabragði hvert hver rekstrarþáttur stefnir. Auk þess er unninn samanburður milli búa sem þátt taka í verkefninu (nafnlaust að sjálfsögðu) og honum dreift til allra þátttakenda þannig að hver og einn geti borið saman einstaka rekstrarþætti búsins við önnur bú og/eða meðalbúið.

  • SVÓT-greining. Að lokinni rekstrargreiningu er unnin svokölluð SVÓT-greining sem greinir sterka og veika þætti í rekstri búsins.

  • Rekstrarlegur samanburður milli ára. Að lokinni rekstrargreiningu hvers árs er skoðað hvernig hinir ýmsu tekju- og kostnaðarliðir þróast milli ára.

  • Heimsókn til bónda eða á skrifstofu til að fara yfir niðurstöður.
AÐGERÐARÁÆTLANIR AÐ EIGIN VALI:

  • Rekstraráætlun. Áætlunin er endurskoðuð árlega og á því alltaf að gilda fyrir a.m.k. 5 næstu ár. Rekstraráætlun er mjög gott tæki til að sjá hvernig búreksturinn breytist náist sett rekstrarmarkmið. Þá er áætlunin gott tæki til að sjá hvernig búreksturinn er í stakk búinn til að greiða af núverandi skuldum eða hvort og þá hvernig hann er í stakk búinn til að ráða við fyrirhugaða fjárfestingu.
  • Fóðuráætlun , heildaryfirlit við upphaf gjafa og kjarnfóðuráætlun er byggir á niðurstöðum hirðingar- og/eða heysýna. Einnig verður hugað að fóðrun geldneyta og kvígna í uppeldi.
  • Áburðaráætlun á sem byggir á þeim hey- og jarðvegssýnum sem tiltækar eru auk upplýsinga frá bónda. Með áburðaráætlun er reynt að hámarka nýtingu búfjáráburðar og afrakstur túna með sem hagkvæmustum hætti.
  • Grænfóðuráætlun og leiðbeiningar um beit og beitarskipulag. Litið er á aðstæður á búinu og skipulag unnið með hliðsjón af túnkorti. Endurræktunarþörf metin í samráði við bónda og með tilliti til jarðvegsefnagreininga, uppskeru, fóðurþarfa, túnkorta o.fl.
  • Tillögur og úrbótaáætlanir munu taka til ofangreindra liða eftir því sem við á, auk annars hverju sinni.


Þeir bændur sem ákveða að taka þátt í verkefninu gera í upphafi 3-5 ára samning við Búnaðarsamband Suðurlands um að þeir láti af hendi öll gögn sem Búnaðarsambandið þarf til að leysa verkefnið og jafnframt um greiðslu fyrir þjónustuna. Einn ábyrgðarmaður er af hálfu Búnaðarsambandsins fyrir hverjum samningi og er tengiliður bóndans um verkefnið í heild. Samningurinn endurnýjast sjálfkrafa um eitt ár í senn nema honum sé sagt upp skriflega. Innifalið í þóknun til Búnaðarsambandsins eru heimsóknir ráðunautar í tengslum við verkefnið. Hjá Búnaðarsambandinu er hægt að fá unnin túnkort eftir loftmynd á mjög hagstæðu verði. 


Nánari upplýsingar um SUNNU veita:
Margrét Ingjaldsdóttir, margret@bssl.is
Runólfur Sigursveinsson, rs@bssl.is
Sjá einnig:

Túnkortagerð

back to top