Búdrýgindin


 
 • LIBOR vextir erlendra lána fer lækkandi
  Vextir á erlendum fjármálamörkuðum hafa lækkað nokkuð síðustu vikurnar, samfara stýrivaxtalækkunum víða um heim. Nú er svo komið að LIBOR vextir eru um og undir 0,5% í algengustu skuldsetningarmyntunum; JPY og CHF. LIBOR vextir eru þeir vextir sem greiða þarf af fjármögnunarsamningum eða lánum í erlendri mynt að viðbættu vaxtaálagi innlendra fjármögununarfyrirtækja. Fyrir algengustu myntkörfuna, 50% JPY og 50% CHF, hafa vextirnir síðan í október lækkað úr rúmum 2% í um og undir 0,5% (aðeins misjafnt eftir því hvort vaxtagreiðslan er á mánaðar fresti eða 3 mánaða fresti). Þetta þýðir að fyrir lán með höfuðstól 10 milljónar króna, hefur vaxtagreiðan á ársgrundvelli lækkað um rúmlega 160 þúsund krónur eða sem svarar nálægt 13 þúsund krónum af hverri milljón á ársgrundvelli. Við vaxtaprósenturnar sem nefndar hafa verið hér að ofan bætist svo vaxtaálag innlendra lánastofana. Þeim sem eru með lán í erlendri mynt er bent á að fylgjast með á greiðsluseðlunum, hvort vaxtaprósentan sem þeir greiða fari ekki örugglega lækkandi!  


 • Hvað kostar að týna nótu?
  Umhirðu um nótur þarf að vanda, því það er dýrt að týna nótu. Kostnaður við að týna nótu í einstaklingsrekstri er um 50% af upphæð nótunnar, að teknu tilliti til tapaðs innskatts, tekjuskatts og útsvars. Ef nóta fyrir keyptum búaðföngum upp á 25.000 kr. tapast er raunverulegur kostnaður búsins til viðbótar af þessum búaðföngum ekki aðeins virðisaukaskattsupphæðin, 4.920 kr. eins og sumir gætu haldið, heldur 12.426 kr. auk 25.000 kallsins sem greiddur var í upphafi. Nóta sem ekki kemur til frádráttar í búrekstrinum virkar einfaldlega sem tekjuaukning bóndans sem greiða þarf skatta af. Góð umhirða um nótur búsins er því peningur beint í vasann!


 • Hvernig heygæði eru nauðsynleg á sauðfjárbúi?
  Ekki er nauðsynlegt að hafa öll hey af bestu gæðum á sauðfjárbúi. Yfir miðveturinn er nægilegt að fóðra ær til viðhalds og er því umhugsunarefni að skipuleggja áburðargjöf með það í huga. Skoða hvaða tún hafa gefið bestu uppskeruna og hvaða tún mætti kannski spara áburð á. Hve margir hektarar eru til af túnum? Mætti ég kannski sleppa að bera á eitt túnið sem gefur litla uppskeru hvort sem er ? Hvað á ég af fyrningum? Þetta eru spurningar sem sauðfjárbændur mættu spyrja sig vegna þess að fyrningar og hey af óábornum túnum eða lítið ábornum túnum er nægilega gott til að gefa ám yfir miðveturinn. Þó þarf alltaf að hafa kjarngott hey fyrir gemlingana allan veturinn. • Skynsamlegt að vera með tveggja mánaða vsk.-skil

  Endurgreiddur virðisaukaskattur er ekki lottóvinningur! Fáir þú endurgreiddan virðisaukaskatt aftur og aftur er afar líklegt að verulegt tap sé búinu því það þýðir einfaldlega að innskatturinn er meiri en útskatturinn, þ.e. útgjöldin meiri en tekjurnar. Það er hvoru tveggja bæði afar óheppilegt og afar óeðlilegt í hvaða rekstri sem er.


  Bændur hafa samkvæmt skattalögum rétt á að hafa sex mánaða virðisaukaskil en það er ekki þar með sagt að það sé ekki hægt að hafa tíðari uppgjör á virðisaukaskattinum. Tveggja mánaða skil eru almennt bæði skynsamlegri og þægilegri fyrir bæði bændur og bókara. Það tryggir tíðari og reglulegri færslu bókhaldsins og mun minni og viðráðanlegri virðisaukaskattskil. Í kaupbæti hefur bóndinn mun betri yfirsýn yfir reksturinn sem nýtist honum við bústjórnina! • Hvernig háttar þú þinni kjarnfóðurgjöf?
  Kjarnfóður er alla jafna stærsti einstaki kostnaðarliðurinn á kúabúi. Þar getur því verið allnokkuð að sækja í sparnaði. Of algengt er að bændur gefi kjarnfóður of lengi, þ.e. eftir að nytin er orðin það lítil að heygjöfin ein og sér dugi mjólkurkúnni vel fyrir framleiðslunni. Á góðum heyjum er mjólkurkúm engin vorkun að framleiða 15 lítra af heyinu einu saman og eiga þ.a.l. ekki að þurfa kjarnfóður. Kýr í lélegum holdum og kvígur sem enn eru að taka út þroska eru þó hér undanskilin.
 • Hvað gefur þú mikið kjarnfóður í raun?
  Rúmþyngd kjarnfóðursins sem gefið er en það getur verið misjafnt milli sendinga. Dæmi eru um að „stöðluð“ 1 kg. ausa frá fóðurframleiðanda innihaldi í raun 1,25 kg sem þýðir með öðrum orðum að þegar bóndi telur sig vera að gefa 4 kg er hann í raun að gefa 5 kg. Nauðsynlegt er því að vigta innihald ausunnar eftir hverja sendingu svo bóndi viti upp á hár hversu mikið kjarnfóður hann er að gefa. Sömuleiðis þarf að stilla sjálfvirku kjarnfóðurbásana reglulega svo að kíló sé örugglega kíló!


 • Nýræktun eða endurræktun?
  Gerið greinarmun á hvort verið er að frumvinna land eða endrrækta land. Áburðarþörfin er misjöfn eftir því, sérstaklega hvað varðar fosfór (P) sem er dýrt áburðarefni. Undantekningalítið er frumjörð (óræktaður úthagi) fosfórsnauður þegar landið er brotið til ræktunar í fyrsta sinn. Ekki er ólíklegt að þörfin sé á bilinu 35-50 kg P á hektara. Sama gildir þegar land er endurræktað í fyrsta sinn. Oftast uppfyllir áburður sem líkist gamla 15-15-15 áburðinum þarfir fyrir slíka ræktun en stundum getur þurft að bæta P við. Land sem verið er að endurrækta í annað eða þriðja sinn, hvað þá meira, hefur eignast allnokkurn fosfórforða sem óþarfi er að bæta við, aðeins viðhalda. Sama gildir um land sem stöðugt er í grænfóðurræktun. Fosfórríkur túnáburður s.s. 20-12-8 / 20-5-7 getur alla jafna fullnægt fosfórþörfinni við slíka endurræktun.


 • Getur þú sparað áburð í vor?
  Áburðarkaup eru einhver stærsti kostnaðarliður í hefðbundnum búrekstri og það mun ekki breytast við áburðarkaup í vetur og vor. Trúlegt er að víða megi draga verulega úr fosfóráburðargjöf á eldri tún, a.m.k. tímabundið. Tún sem hafa árum og jafnvel áratugum saman fengið 15-25 kg/ha af fosfór ætti í mörgum tilfellum að vera óhætt að færa niður í 10-15 kg/ha. 


 • Getur þú sparað áburð í vor?
  Frjósöm og uppskerumikil mýratún í sveitum á láglendi (á framræstri mýrarjörð) ætti stórskaðalaust að mega færa niður í 80-100 kg N á hektara, í stað 100-120 kg/ha, með hliðsjón af reynslu og uppskeru fyrri ára.


 • Búfjáráburðurinn er gullið okkar!
  Geymslu og nýtingu búfjáráburðar þarf að vanda sem allra best. Nýting hans getur miðað við dreifingu á sem flest tún í einhverjum mæli eða í miklu magni á einstök tún og búfjáráburðurinn þá látinn uppfylla kalíþörf að mestu eða öllu leyti á móti tvígildum N og P-áburði.


 • Samnýting véla er hagur allra!
  Sjálfsagt er að kanna samnýtingu búa á vélum og tækjum, hverju nafni sem nefnast, hvar sem við verður komið. Þetta ætti ekki síst að liggja vel við búum sem hafa ekki alls kostar sömu þarfir til efnainnihalds heyja og þar með sláttutíma. Dæmi um það gæti verið samvinna kúa-, sauðfjár- og hrossaræktarbús. Þessu til viðbótar ættu vel tækjum búnir verktakar að geta boðið hagkvæm kjör – hafi þeir á annað borð næg og fyrirséð verkefni.

back to top