Viðhorfskönnun HS 2007
Hrossaræktarsamtök Suðurlands gerðu könnun á viðhorfi félagsmanna til starfseminnar og einstakra viðfangsefna hennar. Markmiðið var að fá félagsmenn til að leggja stjórninni lið við að móta starf og stefnu samtakanna og efla félagið. Könnunin var send út til félagsmanna HS í febrúar 2007.
Birna Baldursdóttir vann úr innsendum svörum og eru helstu niðurstöður þessar:
Karlar eru um 77% svarenda í könnuninni og konur um 23%. Um 71% þátttakenda býr í sveit en um 29% í þéttbýli. Langflestir stunda hrossarækt sem hlutastarf eða rúmlega 89% svarenda. Um 6% hafa hrossarækt sem aðalatvinnu en um 5% svarenda stunda ekki hrossarækt. Stærsti hópur svarenda telur áhuga á hrossarækt vera helstu ástæðu félagsaðildar sinnar.
Óháð kyni eru 13% þátttakenda óánægð með starfsemi HS, 42% eru í meðallagi ánægð eða óánægð og um 45% þátttakenda eru ánægð með starfsemi samtakanna. Ekki er marktækur munur á ánægju eftir búsetu. Í könnuninni fundust ástæður fyrir ríflega þriðjungi ánægju félaganna með HS. Þar skipta mestu máli hrossasýningar samtakanna og aðgangur að WorldFeng. Þarna eru þeir sem myndu vilja breyta hrossasýningum og þeir sem myndu segja sig úr samtökunum ef WorldFengur yrði tekinn út meginskýring óánægju með starfsemi félagsins. Þeir þættir sem koma næstir eru stóðhestahald HS, notkun gagnagrunnsins WorldFengs og mikilvægi hagsmunasamtaka fyrir hrossaræktina. Langflestir, eða 94% svarenda í könnuninni, telja það skipta miklu máli að rekin séu hagsmunasamtök. Ríflega 82% töldu ekki þörf á að breyta hrossasýningum samtakanna.
Um 70% svarenda segjast myndu halda áfram að vera félagar í HS þó svo að um aðgang að WorldFeng væri ekki að ræða en um 30% myndu hinsvegar segja sig úr samtökunum. Um 68% töldu að gagnagrunnurinn WorldFengur skipti máli fyrir ræktunina. Yfir 88% svarenda nota gagnagrunninn WorldFeng, fyrst og fremst til að skoða ætterni og dóma.
Um 40% þátttakenda í könnuninni nota aldrei heimasíðu HS, um 40% nota heimasíðuna sjaldan og um 18% nota hana stundum. Af þeim sem svöruðu voru 23% sem vissu ekki að heimasíðan væri til. Ríflega 80% svarenda skoða eða lesa fréttabréf HS en 12% þátttakenda vissu ekki að það væri til.
Margar hugmyndir komu fram að viðfangsefnum fyrir samtökin en flestir töldu að fræðslu- og útgáfustarf og hagsmunagæsla ættu að vera efst á baugi. Hvað varðar tillögur að úrbótum var oftast nefnt að starf samtakanna mætti vera sýnilegra og virkara og einnig að stóðhestahald eða betra aðgengi að stóðhestum myndi bæta starf samtakanna.