Verkun heys í útistæðum
Að undanförnu hefur vaknað áhugi meðal kúabænda á að verka hey sitt í útistæðum líkt og kollegar þeirra gera víða erlendis. Megintilgangurinn er að lækka framleiðslukostnað á fóðureiningu í gróffóðri.
Verkun votheys er ekki ný verktækni hér á landi. Sem kunnugt er var víða stunduð votheysgerð í flatgryfjum og í votheysturnum á sjöunda, áttunda og níunda áratug síðustu aldar og einhverjir hafa haldið því áfram allt fram á þennan dag. Með tilkomu rúlluvélarinnar og þá sérstaklega pökkunarvélarinnar sem kom hér á markað um 1990 breyttist heyverkun hér á landi hratt og á örfáum árum varð yfir 90% af heyfeng landsmanna verkaður í rúllur og pakkaður í plast. Kostir rúlluheyskapar voru og eru enn margir, þar sem aðeins hluti heyskaparins er kjörtímaháður en aðrir þættir s.s. hirðing rúllubaggana af velli má vinna í nánast hvaða veðri sem er. Afköstin við að bjarga heyinu í plastið eru víðast hvar ásættanleg og fóðurgæðin jafnari en áður var. Rúllubaggarnir gefa bændum auk þess kost á miklum sveigjanleika í gjöfum þar sem auðvelt er að flokka rúllurnar og merkja hvaða hey hentar hvar. Rúllubaggar hafa því átt og munu áfram eiga fullt erindi í heyverkun hér á landi á næstu árum.
Rúllubaggar eru hins vegar heldur litlar einingar fyrir stór kúabú þar sem heymagn er mikið. Í kjölfar hækkandi verðs á rúllubaggaplasti síðustu misseri og auknum áhuga kúabænda á heilfóðrun er horft til annarra heyskaparaðferða og kemur votheysverkun þar sterklega til greina. Ólíkt votheysverkun fyrri ára þegar vothey var verkað í flatgryfjum og turnum er nú einkum horft til verkunar í útistæðum þar sem stæðunni er pakkað í plast á góðu undirlagi en engin sérstök mannvirki reist. Tilgangurinn með verkuninni er jú fyrst og fremst að fá hverja fóðureiningu (FEm) sem ódýrasta.
Fyrir hverja eru útistæður?
Í dönskum og sænskum heimildum er talað um að kúabú þurfi að hafa 50-60 mjólkurkýr áður en skynsamlegt sé að huga að verkun heys í flatgryfjum (dk: plansilo) eða útistæðum (dk: markstak). Á bak við þessa tölu er ekki hagfræðilegt mat heldur hitt að í flatgryfjum eða útistæðum þarf að ganga ákveðið hratt á stæðuna til að ekki sé hætt við að hiti myndist í opna enda stæðunnar. Í þessum sömu dönsku og sænsku heimildum er talið að það þurfi að ganga um 1,5-2,5 metra inn í stæðuna á viku (15-30 cm að jafnaði á dag) til að tryggja að hitinn nái ekki að skemma heyið í opna enda stæðunnar. Rúmþyngd stæðunnar og umhverfishitastig ræður þó vissulega miklu um breytileikann í þessu efni en mikil rúmþyngd og lágt umhverfishitastig minnka hættuna á hitamyndun verulega.
Tökum dæmi:
Í útistæðum þar sem aðeins er þjappað langsum eftir stæðunni má ætla að lágmarksbreidd stæðu verði að vera 5 metrar svo hægt sé að þjappa með dráttarvél og skörun sé á þjöppuninni í miðju stæðunnar frá báðum hliðum. Ef stæðan er t.d. 2 metrar á hæð og rúmþyngdin 200 – 250 kg þe/m3, eins og líklegt má telja m.v. erlendar heimildir, inniheldur hver lengdarmeter stæðunnar 2.000 -2.500 kg þurrefnis. Ef fjarlægja þarf 25 cm úr enda stæðunnar að jafnaði á dag yfir gjafatímann þýðir það 500 – 625 kg þurrefnis. Ætla má að hver mjólkurkýr éti að jafnaði um 10 kg þe. á dag af gróffóðri og því þarf 50-60 mjólkurkýr til að nægilega hratt gangi á þessa stærð af flatgryfju.
Lykilþættir við verkun votheys í útistæðum
Hvort verkun heysins í útistæðum tekst eins og til er ætlast ræðst af fjórum lykilþáttum:
• Hráefninu
• Sýrustigi/íblöndun
• Rúmþyngd/þjöppun
• Frágangi
Hráefnið
Ekki þarf að fjölyrða um að gæði hráefnisins hafi áhrif á verkun heysins. Sama er hvaða heyverkunaraðferð er valin í sjálfu sér, slæmu hráefni verður ekki breytt í afurðafóður í verkuninni. Í vothey þarf orkuríkt og sykruríkt hráefni en það stuðlar að æskilegri mjólkursýrugerjun við loftfirrðar aðstæður. Slíkt hráefni fæst aðeins með því að slá gras sem enn er í örum vexti. Vallarfoxgras og rýgresi (einært eða fjölært) eru dæmi um tegundir sem henta afar vel í vothey.
Sýrustig/íblöndun
Til eru fjölmargar tegundir af hjálparefnum sem ætluð eru til íblöndunar í vothey. Tilgangurinn er að búa æskilegum örverum, þ.e. mjólkursýrugerlum, sem hagstæðust skilyrði og um leið að auka fóðrunarvirði heysins. Sýrustig (pH) heysins í stæðunni hefur þar mikið að segja en mikilvægt er að sýrustigið sé í kjörstig mjólkursýrugerlanna sem fyrst. Sé þurrefni heysins við hirðingu um 30-35% eins og æskilegt er, þarf að ná sýrustiginu niður fyrir pH 4,5. Lífræn sýra, s.s. maurasýra var aðalíblöndunarefnið hér á árum áður við votheysgerð en íblöndun hennar lækkaði sýrustig stæðunnar hratt. Fræðin sem lágu að baki íblöndunar á maurasýru lifa enn góðu lífi þó flestir hafi hætt að úða henni yfir stæðuna með garðkönnu. Nýting íblöndunarefna er nú talin best með fíngerðum úða í túðu múgsaxara.
Á síðustu árum hefur íblöndunarefnum á markaði fjölgað mjög. Gróflega má skipta þeim í tvennt, gerjunarhvata eða gerjunartálma. Efnum úr þessum flokkum er stundum blandað saman til að fá breiðari virkni. Erfitt er að fullyrða um ágæti einstakra efna en sitt sýnist hverjum og rannsóknaniðurstöður eru misvísandi.
Rúmþyngd/þjöppun
Rúmþyngd heysins í stæðunni er afar mikilvægur þáttur. Því meiri rúmþyngd, því betra. Mikilli rúmþyngd verður ekki náð nema með réttu þurrefnisstigi, söxun til að minnka loftrýmið í stæðunni og svo þjöppun.
- Þurrefnisstig grass við hirðingu skal vera sem næst 30-35%. Minna þurrefnisstig eykur hættuna á að votheyssafi leki frá stæðunni en í honum er mikið af næringarefnum sem þá tapast úr heyinu. Safinn er einnig hættulegur umhverfi sínu, sérstaklega ef hætta er á að hann nái að komast í skurði, ár og læki eða vatnsból. Ef bændur hyggjast byggja varanlegar flatgryfjur fyrir votheysverkun er nauðsynlegt að þeir geri ráðstafanir til að safna votheyssafanum saman. Þurrefni yfir 35-40% gerir bændum hins vegar erfiðara um vik með þjöppun þar sem heyið fer að „fjaðra“ undir þjöppunarvélinni og rúmþyngd heysins minnkar. Hættan á hitamyndun í stæðunni eykst jafnframt. Þurrefni yfir 35-40% er einnig óheppilegt sé ætlunin að nota votheyið í heilfóður.
Mynd 1. Heppilegt þurrefnisstig við hirðingu
- Hæfileg söxun grassins er mikilvæg til að minnka loftrýmið í stæðunni og bæta þjöppun. Söxunin verður líka til þess að næringarríkur plöntusafinn verður aðgegnilegri fyrir mjólkursýrubakteríurnar sem er forsenda þess að rétt gerjun eigi sér stað í votheyinu. Erfitt er að alhæfa um hver sé rétta stubblengdin og geta þar ráðið þættir eins og trénisinnihald gróffóðursins (NDF) og áætlað kjarnfóður/gróffóðurhlutfall þegar kemur að gjöfum. Alla jafna er hægt að stilla hve mikið múgsaxarar eiga að saxa heyið og liggur stillingin á bilinu 1 – 3 cm. Það þýðir þó ekki að hvert einasta strá verður af þessari stubblengd heldur verður einhver dreifing í kringum þá stillingu sem valin er. Hluti stráanna fer því lítið saxað í gegn um múgsaxarann á meðan önnur fara mun styttri.
Þjöppunin er gríðarlega mikilvæg við verkun heys í útistæðum og/eða flatgryfjum eins og sjá má á mynd 2. Þannig setur þjöppunin í stæðunni hirðingarhraðanum skorður en ekki öfugt. Til að tryggja góða þjöppun verður að þjappa heyið í þunnum lögum (10 cm) með eins þungu tæki og mögulegt er. Bandarískar ráðleggingar miða við að það þurfi 0,64 tonnklukkustundir á hvert tonn af heyi. Það þýðir í raun að dráttarvél sem vegur 6,4 tonn getur að hámarki þjappað 10 tonn af heyi á klukkustund. Ef lagið sem þjappa má í einu er 10 cm þýðir það að innihald vagns sem tekur 40 m3 af heyi þarf 400 m2 flöt til að þjöppunin sé ásættanleg. Þjöppunin hefur úrslitaáhrif á rúmþyngd heysins sem ásamt umhverfishitastigi ræður miklu um hættuna á hitamyndun í enda stæðunnar og þar með geymsluþoli hennar. Sjá töflu 1.
Tafla 1. Aðgengi lofts að stæðu við mismunandi rúmþyngd
Rúmþyngd,
kg þe./m 3
Aðgengi lofts í enda stæðu, cm
120
50-100
150
45-80
180
30-60
210
25-40
240
20-30
270
15-20
Mynd 2. Áhrif þjöppunar á næringaefnatap |
Frágangur
Góður frágangur stæðunnar er lokaferlið á vel heppnaðri stæðugerð. Grundvallaratriði við votheysverkun er loftfirrt umhverfi heysins og rétt sýrustig. Við slíkar aðstæður ná æskilegir mjólkursýrugerlar að fjölga sér gríðarlega hratt og ná yfirhöndinni í baráttunni við óæskilega ediksýru- og smörsýrugerla. Til að hefta aðgengi súrefnis að heyinu er nú mælt með tveimur lögum af plasti yfir stæðuna. Næst stæðunni skal vera örþunnt plast (0,04 mm) sem ætlað er að fylgja vel yfirborði stæðunnar og leggjast vel ofan í allar lautir. Yfir þunna plastið skal síðan leggja þykkara plast (0,1-0,15 mm). Þykka plastið takmarkar mjög aðgengi súrefnis að heyinu en þunna plastið innan við bætir um betur. Plastendunum báðum er síðan rúllað saman við plastið sem sett var undir stæðuna í upphafi, líkt og sýnt er á mynd 3. Ofan á upprúllaða endana er settur sandur, möl eða jarðvegur til að halda plastinu upprúlluðu. Skynsamlegt er að leggja eitthvað ofan á þykka plastið því til hlífðar og reyna þannig að koma í veg fyrir slysagöt. Um getur verið að ræða sérstakt hlífðarnet sem hægt er nota í allmörg ár ef farið er vel með en einnig er mögulegt að nota loðnunót eða eitthvað slíkt til hlífðar.
Nauðsynlegt er að fergja plastið og hlífðarnetið til að koma í veg fyrir að það blakti í vindi. Erlendis eru víðast hvar notaðir ónýtir hjólbarðar til að leggja ofan á plastið og eru þeir ágætlega hentugir til þess. Einnig er vel mögulegt að nota poka eða pulsur sem fylltir eru sandi.
Mynd 3 . Frágangur stæðu |
|
Helstu heimildir:
Bjergmark, E.H., Olesen, S.G., Mikkelsen, M. Og Nielsen, K.A. 2005. Dyrkning af grovfoder.Dansk Landbrugsrådgivning, Landscentret Landbrugsforlaget.
Harris, Barney 2003. Harvesting, storing and feeding silage to Dairy cattle. University of Florida.
Slottner, David. Efni á vefslóðinni http://www.ensilagenytt.se/plansilo.htm í maí 2007.
Ítarefni á íslensku
Þóroddur Sveinsson, Bjarni E. Guðleifsson og Jóhann Örlygsson, 2001. Fjölrit RALA nr. 209. Efna- og eðliseiginleikar votheys í rúlluböggum. Rannsóknastofnun landbúnaðarins.
Bjarni Guðmundsson, 1990. Votheysgerð með hjálparefnum. Handbók bænda 1990. Bændasamtök Íslands.
Óttar Geirsson 1990. Gerlar í votheyi. Handbók bænda 1990. Bændasamtök Íslands
Jóhannes Hr. Símonarson
Búnaðarsambandi Suðurlands