Niðurstöður heysýna 1997

Alls voru efnagreind tæplega 900 heysýni frá bændum á Suðurlandi frá sumrinu 1997. Niðurstöður þessara sýna bera það með sér að margir kúabændur hafa náð mjög góðum tökum á að afla gæðamikils fóðurs jafnvel í tíðarfari eins og var síðastliðið sumar. Heildarmeðaltal allra sýna af Suðurlandi eftir sumarið 1997 má sjá á eftirfarandi töflu en til samanburðar eru tölur fyrir 1996 og eins viðmiðunargildi fyrir gott hey. Tekið skal fram að flest sýnin eru hirðingasýni og allar tölur í töfluninni miðaðar við þurrefni. Einnig eru sett mæligildi fyrir votverkað bygg af Suðurlandi.Heildarprótein er heldur hærra í sýnum frá liðnu sumri en árið 1996, orkugildi (FEm) svipað þó er þar verulegur breytileiki milli bæja og sveita. Steinefnatölur eru svipaðar milli ára nema hvað Calsíumtalan er heldur hærri síðastliðið sumar en árið á undan. Athyglivert er munurinn á þurrefnisprósentunni milli ára.
Flestir þeir sem senda heysýni skrá sláttudag og miðað við þá skráningu má gróflega álykta sem svo að orkugildi hafi haldist lengur uppi en oft áður, að jafnaði fram um miðjan júlí.
Munur milli sýslna var hverfandi árið 1996 en mun meiri árið 1997 enda var tíðarfar á austurhluta svæðisins með eindæmum erfitt. Hér á eftir koma meðaltalstölur um heygæði eftir sýslum. Í þessum meðaltölum eru ekki niðurstöður grænfóðursýna, eingöngu fyrri og seinni sláttur.Eins og sést í töflunni er orkugildi (FEm) heldur lægra í V-Skaft en hinum sýslunum. Ekki er mikill munur á steinefnatölum milli sýslna, þó er Calsíum og Fosfór heldur hærri á vesturhluta svæðisins.
Greinilegur munur var á orkugildi fyrri og seinni sláttar og þá hánni í vil, þ.e. hún var yfirleitt orkumeiri en fyrri sláttur og einnig þurrari! Hins vegar er nýting hennar til fóðurs greinilega mismunandi en í gangi hefur verið verkefni meðal hóps kúabænda á Suðurlandi um fóðrunarvirði háar og væntanlega gefa þær niðurstöður ákveðnari vísbendingar um heppilegustu nýtingu seinni sláttar.
Mikilvægi heysýna eykst sífellt ekki síst eftir að fóðurmati var breytt. Með tilkomu þess aukast enn frekar möguleikar að velja saman mismunandi heygerðir og kjarnfóðurblöndur.
Á næsta hausti verður reynt að bjóða sem flestum þeim sem taka heysýni á komandi sumri upp á námskeið um fóðrun mjólkurkúa til að hagnýting heysýnanna verði sem mest.

back to top