Leiðbeiningar við töku jarðvegssýna


Efnagreiningum á jarðvegssýnum er ætlað að gefa vísbendingar um ástand jarðvegsins, þ.e. forða helstu næringarefna og sýrustig hans. Þau eru einkum tekin að hausti til eftir að gróður er hættur að spretta og taka til sín næringarefni úr jörðinni. Þau eiga því að gefa til kynna hve mikill næringarforði er í jarðveginum sem megi áætla að nýtist næsta/næstu ár.



Þegar tekin eru jarðvegssýni er notaður þar til gerður bor sem sker 5 cm langa jarðvegstappa. Athuga þarf sérstaklega að jarðvegstapparnir komi upp sem næst í fullri lengd. Því er gott að snúa bornum í hálfhring áður en hann er dreginn upp. Ekki er hægt, enda engin vinnubrögð, að taka sýni úr frosinni jörð.

Ekki er nauðsynlegt að taka sýni úr hverju túni eða akri. Því er gott að skipta spildunum í flokka, t.d. eftir aldri, meðferð, jarðvegsgerð o.fl. Þannig má t.d. fá 1-4 stykki í hvern flokk og taka aðeins eitt sýni úr einhverju stykkjanna úr viðkomandi flokki en sleppa hinum. Þannig má t.d. ætla að úr þremur mýrarskákum sem væru allar ræktaðar á sama tíma og hefðu hlotið sömu áburðargjöf, væri nóg að taka sýni úr einni þeirra. Niðurstöðurnar af þeirri skák væru síðan notaðar óbeint á hinar, t.d. við að ákveða kalk og áburðarþörf.

Þegar búið er að ákveða úr hvaða svæðum á að taka sýni á hverju túni eða akri fyrir sig skal gera það handahófskennt til að fá sem besta mynd af ástandi ræktunarlandsins. Taka skal 20-36 jarðvegstappa úr hverri einstakri spildu sem mynda þá eitt sýni (fer í einn poka). Fjöldi tappanna fer nokkuð eftir flatarmáli spildunnar.

Leitast skal við að dreifa tökustöðunum sem jafnast um spildurnar. T.d. er gott að ganga spilduna „sikk-sakk“ til að reyna að fá sem best yfirlit yfir ástand hennar. Stundum getur verið nokkur flýtisauki að því að taka tvo til þrjá tappa með 2-5 metra millibili á hverjum tökustað. Við sýnatökuna skal sneiða hjá skörpum hornum og blámiðju stykkja t.d. vegna óreglu í áburðardreifingu, umferð o.fl.

Jarðvegstapparnir eru settir í þar til gerðan poka úr seglstriga eða baðmullardúk, alls ekki plastpoka .   Þannig eru tapparnir úr einni spildu settir saman í einn poka og meðhöndlaðir sem eitt sýni er gildir fyrir alla spilduna í heild. Gert er ráð fyrir að á þennan hátt fáist meðaltalsmynd af jarðvegsástandi spildunnar. Merkja þarf sýnin með merkispjaldi, helst með blýanti til að merkingin máist ekki út þó merkimiðin drekki í sig raka úr jarðvegssýninu.


Á merkispjaldinu verður að koma fram:


  • Nafn sendanda
  • Bæjarnafn og hreppur
  • Heiti spildu og númer (annað hvort eða bæði)


Jarðvegssýnin skal síðan senda til viðkomandi búnaðarsambands eða beint til efnagreiningar á rannsóknastofu. Verði töf á því að senda sýnin skal geyma þau þar sem þau geta þornað. Ekki má stafla þeim upp eða geyma í plastpoka því þá geta þau myglað og eyðilagst.


 

back to top