Fóðrun og framleiðslusjúkdómar mjólkurkúa

Fóðrun og framleiðslusjúkdómar mjólkurkúa
Grétar Hrafn Harðarson
Tilraunastjóri, Stóra-Ármóti

Inngangur 

Framleiðslusjúkdómar, þ.e. sjúkdómar tengdir ófullnægjandi aðbúnaði og fóðrun, eru mjög algengir og kostnaðarsamir hér á landi. Sjúkdómarnir sem um ræðir eru m.a. fitulifur, súrdoði, júgurbólga, fastar hildir, legbólgur og ófrjósemi og mynda þeir eins konar sjúkdómahóp kringum burð og fyrst á mjaltaskeiðinu. Sjúkdómarnir eru hver öðrum tengdir, en segja má að fitulifur og súrdoði séu grunnsjúkdómar þeirra allra.

Sýnilegt og dulið tjón af þessum sjúkdómum skiptir hundruðum milljóna árlega. Í nágrannalöndunum hefur náðst meiri árangur í baráttunni gegn framleiðslusjúkdómum en hérlendis. Tíðni sjáanlegs súrdoða á Íslandi er um 20% með 18% afurðatapi og áætlað er að tíðni dulins súrdoða sé um 30% með um 10% afurðatapi. Miðað við þessar forsendur má gera ráð fyrir að súrdoði kosti bændur um 400 milljónir á ári eða um 4 krónur á hvern innveginn mjólkurlítra. Kostnaðartölur vegna júgurbólgu eru mun hærri og varlega áætlað er heildarkostnaður vegna framleiðslusjúkdóma a.m.k. 1 milljarður króna eða um 1 milljón króna á hvert bú.

Fóðrun og fóðrunartækni 

Róttækar breytingar hafa orðið á heyskpartækni síðustu 15 ár. Bændur hafa horfið frá þurrheyi og nú er um 90% heyja verkað í rúllur. Þessi breyting hefur almennt gert heyfeng jafnari og betri að gæðum, bæði hvað orku og lystugleika varðar en aukið niðurbrot próteina við þessa heyverkunaraðferð er þó ókostur.

Gróffóður með hátt fóurgildi er forsenda þess að kýr svari mikilli kjarnfóðurgjöf, en hún hefur aukist mjög mikið undanfarin ár og er nú víðast á bilinu 15 –30 kg fyrir hverja 100 lítra mjólkur framleidda. Algengt er að hlutfall kjarnfóðurs í heildarfóðri sé nú um og yfir 50% á þurrefnisgrundvelli fyrri hluta mjaltaskeiðsins. Þannig hefur orkustyrkur heildarfóðurs aukist þetta tímabil og er nú að nálgast 1,00 FEm/kg þurrefnis.

Þessi mikla aukning á orkustyrk fóðursins hefur víðtæk áhrif á efnaskipti kýrinnar auk þess sem hátt hlutfall kjarnfóðurs í heildarfóðri eykur nokkuð hættuna á meltingartruflunum og sveiflum á sýrustigi í vömb. Erlendis hafa menn brugðist við þessu með því að gefa heilfóður þar sem hver tugga er í jafnvægi og rétt saman sett miðað við þarfir kýrinnar. Án efa á þessi fóðrunartækni eftir að ná útbreiðslu á Íslandi hjá þeim bændum sem þess óska að ná hárri nyt og jafnframt viðhalda góðu heilsufari. Út frá sjónarhóli kýrinnar er heilfóðrun besta fóðrunaraðferðin. Spurningin er hvort aðstæður á einstökum búum leyfi að hægt sé að koma heilfóðrunartækni við á hagkvæman hátt.

Afurðir og þættir sem stjórna nyt 

Afurðir íslenskra kúa hafa aukist mjög hratt undanfarin ár og hlutfallslega mun hraðar en í nágrannalöndunum. Það sem er líka athyglisvert er að þeim búum sem ná mjög miklum afurðum fer stöðugt fjölgandi. (tafla 1.)

Tafla 1: Yfirlit um framleiðslu árskúa á búum
með yfir 10 árskýr. (Bændasamtök Íslands 2002)


Ár

Fjöldi búa með
yfir 7 þús.l/kú

Fjöldi búa með
yfir 6 þús.l/kú

Fjöldi búa með
yfir 5 þús.l/kú

1993

0

5

65

1997

0

7

89

2000

3

25

227

2001

4

44

275

2002

3

59

345

Fóðrun, holdafar og erfðir eru mikilvægustu þættirnir sem stjórna afurðamagni. Nauðsynlegt er að gera sér grein fyrir langtímaáhrifum fóðrunar á afurðir. Fóðrun í geldstöðu hefur mikil áhrif á afurðir og heilsufar og fóðrun á einu mjaltaskeiði hefur áhrif á afurðir þess næsta. Í fóðrun hefur orku- og próteinstyrkur fóðursins og innbyrðishlutfall orku og próteins mest áhrif. Í byrjun mjaltaskeiðsins er átgeta ekki í samræmi við þarfir og kýrin leggur af. Svarið sem bóndinn hefur er að koma til móts við þarfirnar með því að hækka orkustyrk fóðursins þ.e. að auka hlut kjarnfóðurs á kostnað gróffóðurs. Hár próteinstyrkur í fóðri hvetur til mikilla afurða og að gripurinn gangi enn frekar á eigin forða.

Alkunna er að holdafar hefur mikil áhrif á afurðamagn og heilsufar mjólkurkúa. Kýr í góðum holdum hafa tilhneigingu til að mjólka meira en rýrar kýr. Feitum kúm er aftur á móti hættara við efnaskiptaröskun og framleiðslusjúkdómum en rýrum kúm. Til að ná viðunandi afurðum og góðri heilsu þarf að fara milliveg. Holdastigun er aðferð til að meta fituforða mjólkurkúa. Kúm er gefin einkunn á bilinu 1-5 þar sem 1 táknar grindhoruð og 5 akfeit.

Fimm staðir á kúnni eru notaðir til að meta holdin:

  1. þverþorn spjaldhryggjar
  2. neðanverð rifbein
  3. mjaðmahnútur
  4. halarót
  5. setbein

Almennt er talið að heppilegustu hold séu á bilinu 3-3,5. Aðferðinni er lýst í grein eftir Laufeyju Bjarnadóttur sem birtist í Frey 2001 (ekki til á vefnum því miður – innsk.BSSL)

Arfgengi mjólkurmagns (þ.e. sá hluti breytileikans sem stjórnast af erfðum) er tiltölulega hátt. Við getum því búist við umtalsverðum framförum gegnum kynbótastarfið eða um 50 lítrum á ári (1%).

Nythæð og framleiðslusjúkdómar 

Fyrir skömmu var hér á landi Klaus Lønne Ingvartsen sérfræðingur frá Foulum í Danmörku. Í fyrirlestri sínum tókst hann á við þá spurningu hvort há nyt leiði til aukinnar tíðni framleiðslusjúkdóma. Línurnar sem hann dró upp voru ekki skýrar. Margt bendir til að tíðni júgurbólgu og blaðra á eggjastokkum hækki með aukinni nyt. Ekki er hægt að staðfesta tengsl hárrar nytar og annarra sjúkdóma og er orsaka þeirra frekar að leita í lífeðlisfræðilegu ójafnvægi sem hlýst af ófullnægjandi fóðrun og aðbúnaði og að einhverju leyti erfðum.

Það er einnig reynsla þess sem þetta skrifar að framleiðslusjúkdómar eru síst algengari á þeim búum sem ná hárri nyt enda má segja að það sé forsenda til þess að ná góðum árangri að kýrnar séu heilbrigðar. Óhjákvæmilega er það þó meiri vandi og kallar á meiri gæðastjórnun að fóðra kýr sem auka nyt mjög hratt eftir burð og ná mjög hárri dagsnyt.

Gæðastjórnun á kúabúi 

Framleiðsluferli mjólkur á kúabúi byrjar á jarðrækt og endar ekki fyrr en mjólkinni hefur verið dælt í mjólkurbílinn. Það eru margir hlekkir í þessari framleiðslukeðju og mikilvægt að gera sér grein fyrir að þetta er raunveruleg keðja, þar sem einstakir þættir spila saman og hafa áhrif hver á annan. Hámarksafurðastefna kallar þess vegna á markvissa stjórnun á öllum þáttum búrekstar og best að sérfræðingar í jarðrækt, búfjárrækt og dýralækningum vinni saman að þessu flókna viðfangsefni.

Nú þegar er gæðastýring víða stunduð í nautgriparækt. Í áratugi hefur verið starfað eftir hugmyndafræði gæðastýringar í kynbótastarfinu og í eftirliti með afurðum. Aðrir þættir eru styttra á veg komnir og má þar nefna þætti eins og fóðrun, meðferð og heilsugæslu. Með því að koma á heilsteyptri gæðastýringu sem eykur upplýsingaöflun og úrvinnslu gagna, verður reksturinn markvissari og framleiðni eykst.

Heilsugæsla
Nauðsynlegt að átta sig á því að fyrir hvert sjáanlegt sjúkdómstilfelli eru mörg dulin tilfelli þ.e. truflun á líkamsstarfsemi sem er þó ekki nægjanleg til að kalla fram sjáanleg einkenni. Við getum líkt þessu við borgarísjaka sem er að 9/10 hlutum neðansjávar og aðeins 1/10 hluti er sjáanlegur.

Kostnaður við sjúkdóma felst fyrst og fremst í afurðatapi, meðhöndlun sjúkdómsins, kostnaði við fyrirbyggjandi aðgerðir og erfðafræðilegt tap vegna ótímabærrar endurnýjunar. Almennt er talið að kostnaður vegna dulinna sjúkdóma sé mun meiri á hjarðvísu en nokkurn tíma sjáanleg sjúkdómstilfelli. Markviss heilsugæsla og fyrirbyggjandi aðgerðir eru því mjög ábatasamar fyrir bóndann og ekki hægt annað en að hvetja bændur til að huga að þessum þáttum.

Kýr þurfa að vera í góðu líkamlegu ástandi til að standa undir mikilli framleiðslu. Reglubundin holdastigun er þess vegna liður í markvissri heilsugæslu. Hægt er að gera þetta á einstökum kúm á fyrirfram ákveðnum tímum mjaltaskeiðsins. Önnur aðferð sem einnig hefur gefist vel er að holdastiga allar kýrnar í fjósinu og raða þeim svo eftir tíma frá burði á línurit (mynd 1).

Mynd 1. Dæmi um holdastigun og samanburð við viðmiðunargildi. Nokkrar kýr í byrjun mjaltaskeiðs og margar kýr í lok mjaltaskeiðs og geldstöðu eru of rýrar.

Mynd 1. Dæmi um holdastigun og samanburð við viðmiðunargildi. Nokkrar kýr í byrjun mjaltaskeiðs og margar kýr í lok mjaltaskeiðs og geldstöðu eru of rýrar.

Niðurstöður þessara athugana eru bornar saman við viðmiðunargildi og hægt að bregast við á viðeigandi hátt ef settum markmiðum er ekki náð. Mikilvægt er að æskilegum holdum (3,0-3,5) sé náð fyrir geldstöðu og að þeim holdum sé viðhaldið án breytinga fram að burði. Eftir burð leggja kýrnar óhjákvæmilega af. Botninum (2,25-2,75) á að vera náð 8-10 vikum eftir burð og eftir það á kýrin að fara að bæta rólega við sig allt þar til burðarholdum er aftur náð í byrjun geldstöðu. 

Geldstaðan er undirbúningstímabil fyrir næsta mjaltaskeið og ber að líta á það sem slíkt. Geldstaða á að vera 6-8 vikur. Þetta er nauðsynlegur tími til endurnýjunar á júgurvefnum. Styttri geldstaða dregur úr afurðum og lengri geldstöðu fylgir meiri hætta á efnaskiptasjúkdómum í byrjun mjaltaskeiðsins. Til að gelda kýr upp er eðlilegast að draga úr fóðrun í nokkra daga og hætta svo mjöltum snögglega.

Athuga þarf júgurheilbrigði í lok mjaltaskeiðsins bæði með því að skoða einstaklingsfrumutölu síðustu mánuði og taka sýni til ræktunar úr þeim kúm sem eru grunsamlegar. Meta þarf í ljósi þessara upplýsinga hvernig meðhöndlun kýrin eigi að fá þegar mjaltaskeiðinu líkur. Gott er að verja heilbrigðar kýr fyrir umhverfissmiti (Step.uberis) t.d. með Dryflex® himnu í byrjun geldstöðu og aftur nokkrum dögum fyrir burð þegar mest hætta er á lekum spenum. Kýr með dulda júgurbólgu og háa frumutölu er eðlilegt að meðhöndla í byrjun geldstöðu með sýklalyfum. Kýr með langvarandi júgurbólgu svara yfirleitt ekki meðhöndlun og þeim ber að farga.
Í Bandaríkjunum, Hollandi, Bretlandi og fleiri löndum er almennt ráðlögð „blind“ geldstöðumeðhöndlun þ.e. allar kýr meðhöndlaðar, með þeim rökum að kúm sem ekki eru meðhöndlaðar er 10 sinnum hættara við sýkingu í geldstöðunni en þeim sem fá geldstöðulyf. Deilt er um þessa aðferðafræði. Almennt séð ber dýralæknum að forðast notkun sýklalyfja nema að vísindaleg rök liggi til grundvallar notkunar þeirra.

Að loknum burði er bakkaprófið (CMT prófið) ómetanlegt til að meta júgurheilbrigði. Hægt er að nota bakkaprófið á broddmjólkina og eðlilegt er að bóndinn fylgist með heilbrigði mjólkurinnar strax frá fyrsta degi. Ef mjólkin reynist óviðunandi er gott að nýta tímann til meðhöndlunar fyrstu dagana eftir burð áður en hægt er að fara að senda mjólk úr kúnni.

Í geldstöðu gengur líkaminn í gegnum miklar breytingar í efnaskiptum. Tímabil niðurbrots líkamsforða (catabolism) hefst 2-3 vikum fyrir burð (mynd 2).

efnaskiptahringur1-300x216Mynd 2. Efnaskiptahringur kýrinnar á mjaltaskeiðinu. Niðurbrot, jafnvægi og uppbygging

Þessi sveifla efnaskiptanna yfir í niðurbrot er háð hormónabreytingum sem verða fyrir og um burð. Samhliða þessum breytingum minnkar át einnig verulega þrátt fyrir auknar fóðurþarfir. Mikilvægt er að draga úr áhrifum þessara breytinga með því að gefa orkuríkt fóður síðustu 3 vikurnar fyrir burð. Óhjákvæmilega vantar þó orku og samfara því að kýrin fer að ganga á líkamsforðann safnast fita í lifur. Við það verður lifrin vanhæfari til að takast á við aukin umsvif sem tengjast efnaskiptunum í byrjun mjaltaskeiðsins með þeim afleiðingum að hættan á súrdoða eykst. Góð aðferð til að meta ástand lifrarinnar er að greina styrk fitusýra (NEFA) í blóðsýnum síðustu vikuna fyrir burð þar sem há fylgni er milli fitusýra í blóði og fitusöfnunar í lifur.

Undanfarin misseri hefur verið nokkur umræða um notkun sýrugefandi fóðurs (þ.e. fóður ríkt af klór og brennisteini, en snautt af natríum og kalíum) í geldstöðu til að draga úr hættu á bráðadoða. Sýrugefandi fóður leiðir til niðurbrots beina og eykur þar með styrk kalks í blóði. Ekki er alltaf auðvelt að koma þessu við, en mikilvægast í þessu sambandi er að forðast kalíríkt gróffóður. Til að fylgjast með doðahættunni er gagnlegt að skoða sýrustig þvags seinni hluta geldstöðunnar. Þetta er gert með því að dýfa Litmus pappír í þvagsýni. Eftir því sem sýrustig er hærra (pH yfir 7,0) er meiri hætta á doða. Æskileg sýrustig þvags í lok geldstöðu er pH 6-7. Aðrir þættir sem gætu komið að gagni til að draga úr doðahættu eru, í fyrsta lagi, að gefa magnesíum vambarstauta 10-14 dögum fyrir burð og í öðru lagi, að gefa kalsíum inngjöf kringum burð.

Nokkuð er um að legbólga fylgi burðinum og þarf bóndinn að hafa vakandi auga með því hvort hreinsun legsins, sem tekur venjulega viku til tíu daga, sé eðlileg. Legbólga er bakteríusýking í legi og einkennist af illa lyktandi útferð með eða án hita. Legbólga er algengur fylgikvilli fastra hilda, burðarhjálpar o.fl.

Ljóst er að stöðugt hærra hlutfall kjarnfóðurs í heildarfóðri mjólkukúa í byrjun mjaltaskeiðsins eykur líkurnar á súrri vömb. Sýrustig í vömb getur sveiflast frá pH 5,5-6,8 með æskileg gildi á bilinu pH 6,0-6,3. Hægt er að ná sýni af vambarvökva annað hvort með slöngu niður vélindað eða með því að stinga nál í vömbina. Til að fyrirbyggja súra vömb er nauðsynlegt að gefa kjarnfóðrið í litlum skömmtum (hámark 2,5 kg í einu). Ennfremur væri gagnlegt að fjölga atriðum í fóðurefnagreiningu, sérstaklega á þetta við um kolvetnaþættina, svo hægt sé að ráðleggja með markvissari hætti en nú er um val og magn fóðurtegunda í heildarfóðri.

Útlit skítsins gefur gagnlegar upplýsingar um fóðrið og fóðrunina. Skíturinn á að vera álíka þykkur og meðalhafragrautur. Til er kerfi til að gefa skítnum einkunn frá 1 til 5 þar sem 1 er eins og þunn súpa og 5 er eins og velformað hrossatað. Skítur með einkunn 1 eða 2 rennur út og gefur til kynna trénisskort í fóðrinu, ófullnægjandi meltingu í fremri hluta meltingarvegarins og gerjun næringarefna í ristli. Gerjun í ristli veldur lækkun á sýrustigi í skítnum en sýrustig í skítnum á ekki að fara niður fyrir pH 6,0 við eðlilegar aðstæður. Best er að sem flestar mjólkurkýr fái einkunnina 3 þ.e. að skíturinn myndi flata dillu sem er þó það blaut að skíturinn loðir vel við stígvél sé tánni stungið í. Kýr í fyrri hluta geldstöðu, sem eiga að fá þurrlegt síðslegið hey (FEm 0,75), fá einkunnina 4 þ.e. skíturinn myndar háa dillu sem loðir ekki við stígvél. Kýr með doða eða slæman súrdoða eru aftur á móti oft með mjög harðan skít og hljóta einkunnina 5 líkt og kýr sem fá hálm að éta.

Auk þykktar skítsins getur verið gagnlegt að meta kornastærð hans. Almennt eiga stráin ekki að vera lengri en 7 mm og lítið á að greinast af ómeltu korni í skítnum ef jórtrun og vambarstarfsemi eru eðlileg. Litur skítsins fer eftir samsetningu fóðursins og hversu lengi næringarefnin eru að fara eftir meltingarveginum. Kýr á beit eru almennt með grænan skít sem fær á sig gráleitan blæ þegar mikið kjarnfóður er gefið. Í súrdoða gengur meltingin hægt og skíturinn dökknar og fær á sig glansandi áferð. Yfirleitt er ekki hægt að segja að kúaskítur lykti illa nema að um meltingartruflun sé að ræða vegna ójafnvægis í fóðursamsetningu eða vegna sýkinga eins og Salmonella.

Enn einn þáttur sem gott er að skoða til að meta fóðrun og heilsufar er magn súrdoðaefna í mjólk. Handhæg próf fást nú til að greina magn þessara efna í mjólk en súrdoðaefnin eru mælikvarði á efnaskiptaástand kýrinnar. Algengast er að sjáanlegur súrdoði verði um þremur vikum eftir burð en hann er að búa um sig í nokkurn tíma áður. Með því að prófa mjólkina tveimur vikum eftir burð er hægt að greina flest tilfelli súrdoða á byrjunarstigi og koma í veg fyrir tjón með því að bregðast rétt við.

Efnasamsetning mjólkurinnar gefur líka ákveðnar vísbendingar um fóðrun og heilbrigði. Úrefni gefur upplýsingar um jafnvægi orku og próteins í fóðrinu. Æskilegt er að úrefni liggi á bilinu 3-6 mmol/l. Lágt hlutfall fitu í mjólk bendir til þess að sýrustig vambarinnar sé lágt og hætta á meltingartruflunum yfirvofandi. Lágt prótein/fitu hlutfall í mjólk (<0.65) gefur til kynna röskun á efnaskiptum lifrarinnar og að súrdoði gæti verið á næsta leyti.

Lögun mjaltakúrfunnar gefur miklar upplýsingar um fóðrun og heilbrigði kúnna. Mjaltaskeiðinu er oft skipt í fjóra hluta:

  1. Nyt fyrstu 50 dagana eftir burð endurspeglar geldstöðufóðrun, fóðrun um burð og hvernig kýrin tekst á við efnaskiptaálagið sem er óhjákvæmilegt í byrjun mjaltaskeiðsins.
  2. Nyt 50-100 dögum eftir burð endurspeglar fóðrun í byrjun mjaltaskeiðsins og holdafar. Svörun við aukinni fóðrun er mest þetta tímabil og þess vegna ráðast heildarafurðir mest hér.
  3. Nyt tímabilið 100-200 dögum eftir burð endurspeglar holdafar og stöðugleika í fóðrun og áti.
  4. Nyt 200-300 dögum eftir burð endurspeglar fyrst og fremst stöðugleika fóðrunar á þessum tíma. Nyt lækkar auðveldlega með rangri fóðrun, en svörun er jafnframt lítil við aukinni fóðrun.

Hámarksdagsnyt, samkvæmt erlendum upplýsingum, á að nást 35-50 dögum eftir burð, en reynsla hérlendis sýnir að flestar kýr ná hámarksdagsnyt nokkru fyrr eða innan mánaðar frá burði. Spurningin er hvort hér sé um eðlismun að ræða eða hvort fóðrun í geldstöðunni og í kringum burð sé ábótavant hjá okkur. 

Það er eðli fyrsta kálfs kvígna að halda betur á sér en eldri kýr og almennt má áætla 6% lækkun hjá þeim á mánuði eftir hámarksdagsnyt samanborið við 9% hjá eldri kúm. Ef þessari viðmiðun er ekki náð þarf að huga að orku- og próteinstyrk fóðursins og innbyrðis hlutfalli þessara þátta. Hafa skal þó í huga að kýr á seinni hluta mjaltaskeiðsins svara oftast aukinni kjarnfóðurgjöf með aukinni holdasöfnun frekar en aukinni nyt, sem undirstrikar mikilvægi þess að viðhalda stöðugleika í fóðrun til að nýta framleiðslugetuna allt mjaltaskeiðið.

Fóðrun til hámarksafurða. Áhrif fóðrunar í geldstöðu og byrjun mjaltaskeiðs á afurðir, heilsufar og frjósemi – rannsóknarverkefni á Stóra Ármóti 2002-2004.
Í þessu verkefni, sem er aðalverkefni áranna 2002-2004, er rannsakað hvaða áhrif mismikil kjarnfóðurgjöf í geldstöðu og mismunandi stígandi í kjarnfóðurgjöf í byrjun mjaltaskeiðs hefur á afurðir, heilsufar og frjósemi mjólkurkúa. Í hnotskurn má segja að markmiðið með verkefninu sé að rannsaka orkuefnaskipti kýrinnar kringum burð og finna leiðir til að draga úr hættunni á myndun fitulifrar og súrdoða. Kýr eru teknar inn í tilraun 2 mánuðum fyrir burð. Allar kýr fá viðhaldsfóðrun + þarfir til fósturmyndunar tímabilið 8-3 vikum fyrir burð. Þremur vikum fyrir burð skiptast kýrnar niður í tvo sambærilega hópa með mismikilli kjarnfóðurgjöf (1,5 og 3,5 kg). Um burð skiptist síðan hvor hópur í tvær meðferðir með mismunandi stíganda í kjarnfóðurgjöf, annars vegar 0,3 kg/dag og

P0003478
Mynd 3. Eiríkur Þórkelsson tilraunamaður að vigta fóður í tilraunakýrnar á Stóra Ármóti

hins vegar 0,5 kg/dag. Hámarkskjarnfóðurgjöf er 11 kg og gott gróffóður er gefið að vild. Áhrif meðferða, sem eru fjórar, eru greind með því að fylgjast með holdafari, líkamsþyngd, áti, nyt, efnasamsetningu mjólkur, blóðefnum, ástandi lifrar með lífsýnum og frjósemi.Kýrnar eru vigtaðar og holdastigaðar vikulega. Át er mælt fimm daga vikunnar. Nyt er skráð sjálfvirkt alla daga og efnasamsetning greind vikulega. Blóðsýni eru tekin vikulega, alls 14 sýni úr hverri kú, en mæling ýmissa efna í blóði gefur góða mynd af efnaskiptaástandi líkamans. Góð leið til að meta ástand lifrarinnar er að taka lífsýni með nál og stiga fituinnihald frumanna undir smásjá. Þrjú sýni eru tekin úr hverri kú; þremur vikum fyrir burð, um burð og þremur vikum eftir burð.Virkni eggjastokka og þar með frjósemi er hægt að meta með styrk kynhormónsins prógesterón í mjólk. Styrkur prógesterón er mældur tvisvar í viku þar til fang hefur verið staðfest.Gert er ráð fyrir að a.m.k. 48 kýr taki þátt í verkefninu. Miðað við stærð búsins leyfir umfang tilraunarinnar ekki að henni sé lokið á einum vetri og eru áætluð verklok vorið 2004.

Samantekt – Áhersluatriði í fóðrun til að stuðla að góðu heilsufari
Fóðrun í seinni hluta mjaltaskeiðsins á að miðast við það að ná upp viðunandi burðarholdum áður en í geldstöðuna er komið. Það er tvennt sem vinnst við þetta. Í fyrsta lagi eru efnaskiptin hagkvæmari til holdasöfnunar meðan kýrin mjólkar og í öðru lagi er óæskilegt að kýr safni holdum í geldstöðu. Holdasöfnun í geldstöðu leiðir til fitusöfnunar í lifur og röskunar á eðlilegri starfsemi hennar. Þegar átgeta minnkar og fóðurþarfir aukast síðustu þrjár vikurnar fyrir burð þarf að auka orkustyrk fóðursins. Almenn ráðgjöf hingað til hefur ofmetið átgetu þetta tímabil og þar með vanmetið þörf á fóðri með háum orkustyrk. Líklega er flestum kúm gefið kjarnfóður sem nemur 1,5-2,0 kg/dag síðustu vikuna fyrir burð. Erlendar rannsóknir á þessu sviði eru nokkuð misvísandi en flestar niðurstöður sýna að aukin kjarnfóðurgjöf síðustu vikurnar fyrir burð hafi jákvæð áhrif á afurðir og heilsufar.

Kjarnfóðurgjöf á Íslandi hefur aukist mikið undanfarin ár og nú liggur hámarks kjarnfóðurgjöf hjá framsæknum bændum á bilinu 10-12 kg/dag eða um 50-60% af heildaráti þurrefnis. Skiptar skoðanir eru um það hvernig eigi að haga kjarnfóðurgjöf eftir burð, sérstaklega á þetta við um það hve hratt eigi að auka gjöfina. Vonandi fæst svar við þessari spurningu í tilrauninni sem nú er gerð á Stóra Ármóti. Til að koma í veg fyrir miklar sýrustigssveiflur í vömbinni er best að skipta dagskammtinum í marga hluta og gefa kjarnfóðrið aldrei á tóma vömb.
Nú er algengast að gróffóður og kjarnfóður sé gefið aðskilið. Þessi fóðrunaraðferð er fullþróuð og ekki hægt að búast við frekari framförum. Eðlilegt framhald er að fara yfir í heilfóðrun sem hefur ótvíræða kosti fram yfir hefðbundna fóðrun:

  1. Aukin nákvæmni í fóðrun. Vagninn er útbúinn með vigt og er hver fóðurtegund vigtuð.
  2. Hægt er að búa til einsleita heilfóðurblöndu þar sem tekið er tillit til efnasamsetningu fóðurtegundanna og vankantarnir sniðnir af með íblöndun bætiefna sem oft er erfitt að gefa á annan hátt.
  3. Át þurrefnis eykst miðað við aðrar aðferðir. Skýringin á þessu er sú að með heilfóðrun fæst aukin samhæfing á efnaskiptum í vömb, minni sýrustigssveiflur og aukið niðurbrot á tréni.
  4. Heilfóðrun hefur jákvæð áhrif á mjólkurmagn, efnasamsetningu mjólkur og framleiðslusjúkdóma.
  5. Heilfóðrun gefur aukna möguleika á að tæknivæða gjafir.
  6. Hægt er að auka fjölbreytni í vali fóðurtegunda.

Heilfóðrunaraðferðin er ekki gallalaus. Þar má nefna:

  1. Til heilfóðurgerðar þarf sérstakan búnað og miðað við stærð meðalkúabús á Íslandi er hér um umtalsverða fjárfestingu að ræða.
  2. Heilfóðurvagninn þarf að vera innandyra, sem kallar á meira húsnæði. Á móti kemur að gangarými í fjósi getur sparast.
  3. Gróffóður þarf að vera saxað og þess vegna þarf sérbúnað fyrir rúllur.
  4. Á litlum búum getur verið erfitt, eins og með fleiri fóðrunaraðferðir, að mismuna kúm í fóðri.

Það er von mín að þróa megi heilfóðrun fyrir íslenskar aðstæður undir rannsóknaþemanu „Fóðrun til hámarksafurða“ sem nú er starfað eftir á Tilraunabúinu Stóra Ármóti.

Þessi grein birtist í nóvemberhefti Freys 2003

back to top