Verklagsreglur um stuðning við nýliðun í mjólkurframleiðslu

Verklagsreglur um stuðning við nýliðun í mjólkurframleiðslu 

Reglur þessar fjalla um stuðning við nýliðun í mjólkurframleiðslu af lið 6.4 „Óframleiðslu-tengdar og/eða minna markaðstruflandi greiðslur“ í samningi um starfsskilyrði mjólkurframleiðslu frá 10. maí 2004. Kveðið er á um árlega heildarupphæð þessara fjármuna í „Reglugerð um greiðslu-mark mjólkur á lögbýlum og greiðslur til bænda“ eins og hún birtist hverju sinni.

1. gr.

Einstaklingur eða lögaðili getur sótt um framlög samkvæmt reglum þessum að fjárhæð allt að 5 milljónir króna við upphaf búskapar. Heimilt er að skipta útgreiðslu framlags á tvö ár.
Aðili eða lögaðili sem hann á meiri hluta í getur aðeins fengið framlag um stuðning við nýliðun í mjólkurframleiðslu einu sinni á búskapartíð sinni. Hjón og sambýlisfólk teljast einn aðili í skilningi þessara reglna.

2. gr.

Framlög eru veitt til nýliða í mjólkurframleiðslu. Aðili sem uppfyllir neðangreind skilyrði telst nýliði í skilningi þessara reglna:
a) Hefur ekki áður verið skráður handhafi beingreiðslna samkvæmt samningi um starfsskilyrði mjólkurframleiðslu á síðustu 8 árum, talið frá 1. janúar 2012.
b) Hefur ekki lagt inn mjólk eða verið eigandi að félagsbúum eða lögaðilum sem rekið hefur kúabú sl. 8 ár, talið frá 1. janúar 2012.
c) Hefur ÍSAT-númer í búnaðargjaldsskyldri búgrein og opið virðisaukaskattsnúmer.
d) Á eða leigir rekstur á lögbýli og reiknar sér endurgjald eða er launþegi við reksturinn.
e) Er aðili að gæðastýrðu skýrsluhaldi í nautgriparækt og uppfyllir kröfur þess.

3. gr.

Allir sem uppfylla skilyrði 2. gr. og hefja mjólkurframleiðslu á árinu 2012, geta sótt um fram-lög.
Umsóknum skal skilað á eyðublöðum sem Bændasamtök Íslands láta í té. Umsóknum skal skilað fyrir 1. október ár hvert og skal uppgjör hafa farið fram fyrir 31. desember ár hvert.

4. gr.

Bændasamtök Íslands annast afgreiðslu umsókna. Greiðslum er jafnað á umsækjendur með eftirfarandi hætti:
a) 20% þeirra fjármuna sem til ráðstöfunar eru er skipt jafnt á umsækjendur.
b) 80% þeirra fjármuna sem til ráðstöfunar eru, skal greiða með skírskotun til gripafjölda þannig að miðað verði við fjölda árskúa leiðrétt fyrir fjölda skýrsluhaldsmánaða. Þannig fær umsækjandi sem hefur framleiðslu 1. júní og skilar skv. skýrsluhaldi skýrslum fyrir 15 árskýr greitt á: 15/7 (fjöldi skýrsluhaldsmánaða) * 12 = 25,7 kýr.
c) Nýliði fær greiðslur á árskýr í samræmi við eignarhlut sinn í búinu.

5. gr.

Láti styrkþegi af búskap innan 5 ára frá styrkveitingu skal semja um hlutfallslega endurgreiðslu á framlaginu.
back to top