Aðilaskipti að greiðslumarki mjólkur

Markaðsfyrirkomulag við aðilaskipti að greiðslumarki mjólkur á lögbýlum
Þann 1. desember 2010 var tekið upp nýtt fyrirkomulag (kvótamarkaður) við aðilaskipti að greiðslumarki í mjólk. Þetta nýja fyrirkomulag byggir á danskri fyrirmynd, en þar í landi hefur kvótamarkaður verið við lýði síðan 1997. Kvótamarkaðurinn byggir nú á reglugerð nr. 190/2011 og hefur reglugerð nr. 430/2010 frá 17. maí 2010, sem breytt hafði verið með reglugerðum nr. 455/2010 og 561/2010, verið felld úr gildi. Reglugerðirnar eru settar með stoð í búvörulögum, nr. 99/1993.

 

Helstu atriði sem tilboðsgjafar þurfa að hafa í huga eru eftirfarandi:

 

 

 • Markaður fer fram tvisvar á ári, 1. apríl og 1. nóvember.
 • Matvælastofnun annast framkvæmd kvótamarkaðar.
 • Tilboð þar sem tekið er fram magn og kaup/söluverð skulu hafa borist til Matvælastofnunar eigi síðar en 25. mars þegar markaður er haldinn 1. apríl og 25. október þegar markaður er haldinn 1. nóvember.
 • Tilboð gerð um kaup eða sölu á greiðslumarki eru bindandi á markaðsdegi. Kaup- eða sölu-tilboð má draga til baka hvenær sem er innan hvers markaðstímabils, sem hefst að loknum hverjum markaðsdegi og stendur fram að þeim næsta.
 • Helstu gögn sem fylgja þurfa tilboðum eru; staðfesting á eignarhaldi að lögbýli, samþykki eigenda ef um leiguliða er að ræða, þinglýsingarvottorð og veðleyfi.
 • Kauptilboðum skal fylgja ábyrgðaryfirlýsing banka, sparisjóðs eða vátryggingafélags þar sem fram kemur að viðkomandi ábyrgðarveitandi tryggi að tilboðsgjafi geti staðið við tilboð sitt.
 • Aðilaskipti að greiðslumarki eftir aprílmarkað skulu taka gildi frá 1. janúar á yfirstandandi verðlagsári, aðilaskipti á nóvembermarkaði skulu taka gildi 1. janúar á næsta verðlagsári á eftir.
 • Einungis verður hægt að selja greiðslumark sem ekki hefur verið framleitt uppí.
 • Við opnun tilboða, skráir Matvælastofnun magn og verð á hverju tilboði um kaup eða sölu. Við flokkun tilboða um sölu skal þeim raðað upp eftir hækkandi verði við hvert innfært tilboð. Kaup-tilboðum skal raðað upp eftir lækkandi verði við hvert innfært tilboð á sama hátt.
  Náist ekki fullt jafnvægi á milli framboðs og eftirspurnar greiðslumarks skiptist greiðslumark sem selt verður hlutfallslega milli kaupenda í samræmi við magn hvers tilboðsgjafa. Jafnvægisverð er það verð sem myndast þegar framboðið magn er jafnt og eftirspurt magn eða lægsta verð sem jafnvægismagn getur verið selt og keypt á. Jafnvægismagn er framboðið magn greiðslumarks, sem getur gengið kaupum og sölum á markaðnum hverju sinni á jafnvægisverði.
  Greiðslumarki sem boðið er til sölu á hærra verði en jafnvægisverði skal vísað frá markaði og á sama hátt kauptilboðum sem eru lægri en jafnvægisverð, sbr. þó ákvæði 7. gr. reglugerðar nr.190/2011 um sölu á sérskráðu greiðslumarki lögbýla í leiguábúð á forræði leiguliða.
  Öll viðskipti sem fara fram á viðkomandi markaðsdegi skulu fara fram á því jafnvægisverði sem markaðurinn gefur í það sinn. Þeir tilboðsgjafar sem bjóða kaupverð sem er jafn hátt eða hærra en jafnvægisverð, fá allir keypt á jafnvægisverði. Þeir tilboðsgjafar sem bjóða lægra kaupverð en jafnvægisverðið fá ekki keypt á viðkomandi markaði. Kaupendur eru því öruggir um að þurfa ekki að kaupa á hærra verði en þeir voru tilbúnir að greiða samkvæmt innsendu tilboði.

 

Þeir tilboðsgjafar sem bjóða söluverð sem er jafn hátt eða lægra en jafnvægisverð, fá allir selt á jafnvægisverði. Þeir tilboðsgjafar sem vilja hærra söluverð en jafnvægisverðið fá ekki selt á viðkomandi markaði. Seljendur hafa tryggingu fyrir því að þurfa ekki að selja á lægra verði en þeir kröfðust samkvæmt því tilboði sem þeir sendu inn.

Upplýsingasíða Matvælastofnunar um uppboðsmarkað með greiðslumark mjólkur

Leiðbeiningar um greiðslumark mjólkur á uppboðsmarkaði

Kauptilboð á greiðslumarki mjólkur

Sölutilboð á greiðslumarki mjólkur

back to top