Félagsráðsfundur FKS 4. jan. 2005

Fundur í félagsráði Félags kúabænda á Suðurlandi haldinn í fundarsal MBF 4. janúar 2005.


Sigurður Loftsson, formaður, bauð fundarfólk velkomið og óskaði öllum gleðilegs árs.


1. Undirbúningur fyrir aðalfund FKS.
Formaður sagði ákveðið að halda aðalfund 31.janúar 2005 að Árhúsum á Hellu kl:12:00.
Sagðist hafa velt talsvert fyrir sér fyrirkomulagi kosninga á aðalfundi og hvort ástæða væri til að endurskoða samþykktir félagsins hvað þær varðaði. Í félagsráði hafi verið einhugur um að skipa uppstillingarnefnd fyrir aðalfund síðustu ár. Ljóst er að sú aðferð hefur reynst vel hvað það varðar að liðka fyrir störfum aðalfundar og eins er með þessu móti líklegra að tryggð sé jafnari dreifing fulltrúa um félagssvæðið. Aftur á móti  er alltaf nokkur hætta á óánægju innan félagsins þegar þessi aðferð er notuð. Eins og lög félagsins gera ráð fyrir hefur félagsráð verið kosið á aðalfundi, sem síðan kýs stjórn úr sínum röðum. Er ástæða að breyta þessu? Væri til bóta ef stjórn yrði kosin beint á aðalfundi? Eins er með fulltrúa á aðalfundi LK og BSSL, er nokkur ástæða til annars en að félagsráð gegni þeim störfum líka? Er ekki meginatriði að vel takist til við kosningu félagsráðsins þannig að hinn almenni félagsmaður finni til valds síns og ábyrgðar?
Lög félagsins voru síðast endurskoðuð 1995 og því vel við hæfi nú á afmælisári að fara yfir þau.


Ágúst Dalkvist tók undir orð formanns og vill sjá breytingu, taldi t.d. eðlilegt að aðalfundur kjósi stjórn félagsins fremur en félagsráð. Best væri að aðalfundur ályktaði um þetta fyrirkomulag.


Fundarmenn veltu fyrir sér hvort um lagabreytinga væri þörf, hvert hlutverk félagsráðsins er og hvort eðlilegra væri að stjórn sé kosin á aðalfundi eða af félagsráði. Eins hvernig eðlilegast væri að standa að kjöri fulltrúa á aðalfund LK og BSSL.


Birna á Reykjum sagði að þegar lögin voru upphaflega gerð hafi þótt eðlilegt að hafa þau nokkuð opin. En auðvitað væri alveg sjálfsagt að skipa nefnd til að fara yfir þau hvort sem þeim yrði breytt eða ekki.


Grétar í Þórisholti taldi nauðsynlegt að uppstillingarnefnd sé kosin á aðalfundi til að hafa öruggan stuðning að baki nefndinni. Einnig að í starfi hennar sé auglýst eftir fólki sem er tilbúið að starfa í félaginu. Það hafi verið gert sl. ár og gefist vel.

Flestir tóku undir orð Grétars og telja eðlilegt að félagsráð skipi stjórn og fulltrúa á aðalfundi LK og BSSL. Félagsráðið sé hinn virki kjarni félagsins sem móti áherslur þess og beri þannig hina félagslegu ábyrgð.  Í máli margra kom fram að best væri halda sama fyrirkomulagi en skoða þurfi lögin, það sé alltaf gott því tímarnir breytast.

Fundarmenn voru sammála um nauðsynlegt sé að þessi umræða komi upp á aðalfundi svo skoðun félagsmanna komi fram.


Birna á Reykjum benti á að í þau skipti þegar aðalfundur hafi kosið félagsráð beint án upppstillingar þá hafi gjarnan sömu nöfnin komið upp og voru fyrir. Því hafi störf uppstillingarnefndar í raun fremur stuðlað að endurnýjun en hitt. 

Formaður lagði til, eftir umræður á fundinum, að viðhaft yrði óbreytt fyrirkomulag við kosningar á næsta aðalfundi og óskaði eftir tillögum að laga- og uppstillingarnefnd. Velti einnig fyrir sér hvort æskilegt væri að aðalfundur geri tillögu að uppstillingarnefnd þess næsta. Slíkt mundi á nokkurs vafa auka vægi hins almenna félagsmanns gagnvart félagsráði.


Sigurlaug vildi koma á framfæri að erindi á aðalfundi tækju of langan tíma og skemma fyrir öðrum málefnum kúabænda því þegar komið er að liðnum önnur mál þá er svo stuttur tími fram að fjósi að skoðanir manna koma ekki fram, það sé svo margt sem brennur á fólki.


Sveinn Ingvarsson tók undir þetta og telur nauðsynlegt að umræða um málefni félagsins fái sinn tíma.


Formaður ræddi um erindi sl. ára og taldi skipta máli að nota þennan vettvang til að ræða stærri málefni á þann hátt að það hreyfði við mönnum. Taldi að það sem helst yrði í deiglunni á næstu misserum væri sú þróun sem fjármálamarkaðurinn gengi í gegnum um þessar mundir. Mikilvægt væri að menn reyndu að átta sig á hvaða áhrif þetta kunni að hafa á aðgang dreifbýlis og landbúnaðar að hagstæðu lánsfé. Félagsráð ályktaði um málefni Lánasjóðs landbúnaðarins eftir allnokkra umræðu á fundi nú í haust. Ekki væri óeðlilegt að halda þeirri umræðu áfram, enda mætti búast við að málefni Lánasjóðsins verði eitt af helstu málum komandi Búnaðarþings. Lagði til að fenginn yrði utanaðkomandi aðili sem hefði haldgóða þekkingu í þessu efni.


Fundarmenn höfðu skiptar skoðanir hvað þetta varðaði og töldu sumir réttara að líta sér nær.


Ásta í Mástungu taldi umræðu um Lánasjóðinn dálítið þreytta og spurning hvort ekki ætti að láta hana Búnaðarþingi eftir.


Ólafur í Geirakoti stakk upp á að fá einhvern sem færi yfir uppbyggingu búa, nýju fjósin, róbótafjósin og ,,gömlu fjósin´´ og þess háttar. Fannst þörf á að ræða hvort þeir sem ekkert hefðust að væru að ,,úreldast´´.


Fundarmenn tóku undir að uppbygging búa væri misjöfn og í framhaldi var ákveðið að athuga hvort hægt væri að fá  Torfa Jóhannesson með erindi um þetta efni á aðalfund.


Gerðar voru tillögur um eftirtalda í uppstillinganefnd. Úr V-Skaft:  Grétar Einarsson, Þórisholti, sem formann. Úr Rang: Þorsteinn Markússon, E-Fíflholti, eða Þórir Jónsson, Selalæk. Úr Árn: Höllu Guðmundsdóttir, Ásum, eða Anna María Flygenring, Hlíð. Stjórn var síðan falið að vinna úr þessu.


Samþykkt var að leggja til við aðalfund að skipa þriggja manna milliþinganefnd til að skoða lög félagsins. Gerð var tillaga um eftirtalda: Ágúst Dalkvist, Eystra-Hrauni, Einar Haraldsson, Urriðafossi og Elvar Eyvindsson, Skíðbakka, sem formann. Gerður var fyrirvari um að Elvar fengist til þessa, en stjórn annars falið að finna einhvern annan jafn hæfan.



2. Afmæli FKS og árshátíð kúabænda.
Birna Þorsteinsdóttir, formaður afmælisnefndar, sagði frá stöðu mála. Hún ítrekaði að fléttuð yrði saman árshátíð kúabænda og afmælishátíð FKS, sem haldin yrði samhliða aðalfundi LK. 8. og 9. apríl nk. á Hótel Selfossi. Undirbúningur er hafinn við gerð afmælisrits sem ætlunin er að senda öllum kúabændum landsins. Lagði hún áherslu á að sunnlendingar fjölmenntu á árhátíðina. Búið væri að taka frá öll herbergi á Hótel Selfossi vegna þessa. Verð á gistingu er í tveggja manna herbergi er 8.800 kr., eins manns 6.650 kr. Miðaverð á árshátið er ekki endanlega ákveðið en verður nálægt 4.000 kr.  Taldi hún nauðsynlegt að auglýsa þetta í næsta Bændablaði. Rætt hefur verið við Hermann Árnason, sláturhússtjóra SS á Selfossi, um að vera veislustjóri.


3. Verkaskiptasamningur LK og BÍ.
Formaður fór lauslega yfir áherslur LK við endurskoðun verkaskiptasamningsins.  Sagði stefnt að fyrsta fundi 13. jan. nk. Sagðist ekki sjá ástæðu til annars en að vera bjartsýnn á að samningar náist, en þó væri kannski ekki líklegt að þeim ljúki fyrir næsta aðalfund LK eins og stefnt var að. 

Sveinn Ingvarsson greindi frá þeirri umræðu sem orðið hefði um málið innan stjórnar BÍ

All nokkrar umræður urðu um málið meðal fundarmanna.


4. Búnaðarlagasamningur.
Sigurður formaður ræddi um núgildandi samning um framlög ríkisins til verkefna samkvæmt búnaðarlögum.

Runólfur vakti máls á að samningurinn gildi til ársloka 2007 en endurskoðun sem átti að fara fram á liðnu ári hafi ekki farið fram. Telur að fjármunir hafi ekki gengið út í búrekstrartengdu ráðgjöfina sem ákvæði eru um í samningnum og vill fá betri skilgreiningu á lið sem heitir héraðsþjónusta sem er t.d. rekstraráætlanagerð ofl. Samkvæmt ákvörðun stjórnar BÍ í desember sl. þá verður stuðningur lækkaður við búrekstraráætlanir þannig að eftir 5 ár í verkefni þá fellur hann alfarið niður. Þessi ákvörðun virðist eiga gilda afturvirkt, þannig koma ekki til greiðslur vegna vinnu og eftirfylgni fyrir um 50 SUNNU-bú, bú sem hafa verið með í 5 ár eða fleiri.
Hann taldi mjög slæmt að þessi ákvörðun hefði verið tekin án samráðs við þá aðila sem ynnu á hverjum tíma við áætlanagerðina. Hugmyndafræðiin væri hins vegar rétt að vinna að sjálfbærni svona verkefnis en það yrði  þá að miða við til framtíðar og þá í tengslum við nýjan búnaðarlagasamning, ekki að útfæra reglur afturvirkt. Það er einfaldlega ekki í takt við nútíma stjórnsýslu.


Sveinn Ingvarsson útskýrði ákvörðun BÍ sem beindist fyrst og fremst að því að áætlun væri gerð til allt að fimm ára og að þeim tíma liðnum ætti starfið við verkefnið að hafa skilað það miklu að það væri undir bóndanum komið hvort hann væri tilbúinn að greiða sérstaklega fyrir þessa vinnu eða ekki.
 
Gunnar á Túnsbergi sagðist ætla að fara að byggja og þyrfti rekstraráætlun núna aftur, væri kannski betra að hætta í Sunnu og byrja aftur?


Sigurlaug og Elín segja nauðsynlegt að halda áfram í Sunnu því alltaf séu breytingar, þróun og ýmis önnur vinna frá ári til árs.


Sigurlaug í Nýjabæ spurði hvort ekki væri hægt að bæta við lið í þróunar- og jarðabótasamningi  t.d. styrkja nýrækt og margt fleira.


5. Starfsleyfi vatnsveitna.
Formaður rakti gang mála frá fundi félagsráðs nú í haust. Fundað hefði verið bæði með Heilbrigðiseftirliti Suðurlands og Katrínu Andrésdóttur, héraðsdýralækni. Í framhaldi af því var sent bréf til bænda þar sem þessi mál voru kynnt ásamt eyðublaði fyrir starfsleyfisumsókn.
Runólfur sagðist hafa haft samband við HES og var honum tjáð að mikil viðbrögð urðu eftir að bréfið var sent frá BSSL og FKS.


Jóhann í Hildisey velti því upp hvort að sveitarsjóðir væri ekki að vissu leyti ábyrgir á starfsleyfum vatnsveitna.

Töluverð umræða varð um það hjá fundarmönnum því þessi leyfi kæmu afar misjafnlega niður á kúabændum.


Sigurður formaður taldi eðlilegt að fylgjast áfram með framvindu þessa máls.


6. Ályktun um Þorleifskot.
Formaður las ályktun sem stjórn var falið að semja í kjölfar umræðu á síðasta félagsráðsfundi. Hún er svohljóðandi.


“Félagsráð Félags kúabænda á Suðurlandi telur brýnt að nú þegar verði ráðist í endurbætur á nautauppeldisstöð BÍ í Þorleifskoti, þannig að hún standist kröfur reglugerðar nr. 438/2002 um aðbúnað nautgripa.”


Greinargerð:
Núverandi aðstaða í Þorleifskoti er orðin mjög gömul og byggð á tímum þegar allt aðrar aðstæður og kröfur ríktu. Inréttingar eru orðnar úreltar og standast engan veginn ákvæði reglugerðar um aðbúnað nautgripa. Umönnun gripanna þarna hefur hins vegar ætíð verið til fyrirmyndar og umsjónarmönnum til stakrar prýði. Eins er húsakostur stövarinnar ágætur og vel við haldið. Því ætti ekki að vera kostnaðarsamt að gera þær úrbætur sem þarf.  Þeir kálfar sem aldir eru upp í Þorleifskoti bera með sér framtíðar erfðaefni íslenskrar nautgriparæktar og því ætti það að vera metnaður okkar að búa þeim sem bestar aðstæður.


Birna á Reykjum spurði hvort aldrei hefði komið til tals hjá LK að sjá um reksturinn á kynbótastöðvunum.


Formaður sagði að öðru hvoru hefði komið upp umræða þess efnis.


Gunnar á Túnsbergi telur að sæðingar myndu hækka ef um einkarekstur yrði að ræða.


Sveinn Ingvarsson segir miklu betra að BÍ sjái um þetta eins og verið hefur.


Sigurlaug sagði að ef eitthvað væri verið að skoða hugmyndir um sameiningu stöðvanna, væri þá ekki alveg hægt að sameina þær hér á Suðurlandi?


Fundarmenn voru sammála að senda þessa ályktun til BÍ og afrit til framkvæmdastjóra Nautastöðvar BÍ, LK og BSSL.



7. Birting á verði greiðslumarks.
Formaður sagði að nú væri hægt að nálgast upplýsingar um verð á greiðslumarki úr gagnagrunni Bændasamtakana.


Jóhann í Hildisey telur að ekki verði tekið mark á þessum tölum því að ekki sé tekið fram hvort um er að ræða ónýttan eða nýttan rétt.


Fundarmenn eru ekki hrifnir af þessu, en fram kom að í bókun með nýgerðum mjólkursamningi kom fram viljayfirlýsing um þetta efni.


8. Önnur mál.
Grétar í Þórisholti spurði Runólf um Fréttabréf BSSL. v/ auglýsingar fyrir nefndaruppstillingu. Taldi Runólfur að Fréttabréfið gæti nýst til kynningar fyrir aðalfundinn.


Kristinn á Þverlæk hvort einhver vissi um raforkuhækkun til bænda.

Sveinn svaraði því að sennilega yrði mesta hækkunin í dreifbýlinu.


Jóhann í Hildisey spurði Runólf hvort efni á Ráðunautfundum (Fræðaþingi landbúnaðarins) væri að færast frá hefðbundinni dagskrá fyrir starfsmenn út í héruðum?

Runólfur sagði svo vera, því skógræktarmál og aðrar greinar tækju mestan hluta fundanna en aukafundir væru orðnir fyrir fundina til að ræða sérhæfð mál búgreinanna


Formaður þakkaði góðan fund og sleit fundi.


Katrín Birna Viðarsdóttir,
fundarritari.


back to top