Aðalfundur Félags kúabænda á Suðurlandi 28. febrúar 2024

Aðalfundur Félags kúabænda á Suðurlandi, haldinn í Hvolnum Hvolsvelli 28. febrúar, kl. 12.30 Formaður félagsins Aðalbjörg Ásgeirsdóttir setur fundinn og tilnefnir starfsmenn fundarinns frá Búnaðarsambandi Suðurlands þau Svein Sigurmundsson sem fundarstjóra og Helgu Sigurðardóttur sem fundarritara. Var það samþykkt samhljóða.

Skýrsla formanns – Aðalbjörg Ásgeirsdóttir
Aðalbjörg bauð fundargesti velkomna á þennan 39. fund félagsins. Félagsráðið sem samanstendur af 18 aðal og varamönnum hittist 9 sinnum, 4 fjarfundir og 5 staðarfundir.
Á síðasta aðalfundi var Borghildur Kristinsdóttir endurkjörinn gjaldkeri félagsins og Haraldur Einarsson ritari. Í maí var haldinn spjallfundur með Rafni Bergssyni formanni nautgripadeildar BÍ, einnig tókum við þátt í fundarherferð BÍ. Í október fengum við til okkar Jóhannes H. Símonarson framkvæmdastjóra Auðhumlu í gott spjall um starfsemi félagsins og gang mála. Í nóvember fengum við Inger Erlu Thomsen, stjórnmálafræðing og meistaranema í evrópumálum til að fræða okkur um landbúnaðarstefnu ESB. Stjórnin fundaði tvisvar sinnum undir lok árs auk tölvupósta og símasamskipta innan stjórnar.
Árið hjá nautgripabændum hefur verið mörgum rekstrarlega erfitt, en höfum of átt á brattann að sækja. Rekstrarverkefni á vegum Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins sýnir aukinn hallarekstur bæði í nautakjöti og mjólkurframleiðslu. Ríkið viðurkenndi þessa erfiðu stöðu með aukagreiðslum úr ríkissjóði en ljóst er af umræðu meðal okkar félagsmanna að slíkir plástrar eru ekki af hinu góða enda eru nautgripabændur langhlauparar og þurfa að geta gert áætlanir sem ná lengra inn í framtíðina. Á árinu hefur umræða um nýjan verðslagsgrundvöll verið fyrirferðamikil á fundum okkar og þakka ég þeim sem að þeirri umræðu og fræðslu komu, mun sú vinna vonandi skila sér sem tól fyrir þá sem standa að kjarabaráttu fyrir mjólkurframleiðendur og að lokum betri starfskjörum.
Nýtt félagskerfi bænda þýddi talsverðar breytingar fyrir okkar félag og er nú öðru starfsárinu að ljúka. Starfsemi Landsambands kúabænda var færð undir Bændasamtök Íslands ásamt öðrum búgreinafélögum landsins og því aðkoma félagsins ekki bein að LK eins og áður var. Aðild að Bændasamtökum Íslands er einstaklingsaðild og ekki lengur í gegnum félag eins og okkar og þá koma upp spurningar hvort grundvöllur sé fyrir félagi eins og okkar. Þegar farið er yfir árið sést vel að þetta er góður grundvöllur fyrir umræður og sá eini sem stendur fyrir beinu grasrótarstarfi hjá nautgripabændum á Suðurlandi, bændur vilja hittast og ræða málin.
Mjólkurinnleggjendum fækkaði á síðasta ári úr 180 í 173 í árslok 2023, þessir bændur lögðu að meðaltali inn 331 þúsund lítra og árskýrin skilaði 6.452 lítrum miðað við 6.326 lítra árið áður.
Mig langar að nota tækifærið og þakka Búnaðarsambandi Suðurlands fyrir veitta þjónustu og aðstoð á árinu.
Kjörnum fulltrúum og starfsfólki Bændasamtakanna langar mig einnig að þakka samstarfið, sérstaklega fulltrúum okkar frá Suðurlandi sem þar gegna trúnaðarstörfum.
Að lokum þakka ég meðstjórnendum mínum serstaklega samstarfið á árinu sem og fulltrúum í félagsráði og þeim sem tóku að sér að sitja í uppstillingarnefnd fyrir þennan fund.

Reikningar – Borghildur Kristinsdóttir
Borghildur, gjaldkeri félagsins fór yfir reikninga FKS fyrir 2023, tap var á rekstri sem nam rúmum 318 þúsund króna, en félagið stendur þó ágætlega, þar sem það á peninga í sjóði.

Umræður um skýrslu stjórnar og reikninga
Berglind Hilmarsdóttir spyr hvort bankainnistæður séu á bestu vaxtareikningum?
Borghildur svaraði því að hún hefði farið í Landsbankann til að kanna þessi mál og fékk þau svör að félagið væri á bestu mögulegu vöxtum. Það er þó spurning um að setja eina milljón á bundinn reikning og fá þannig betri vexti. Fundurinn tók undir þá hugmynd.

Tillaga frá stjórn um árgjald FKS 2024 og stjórnarlaun.
Aðalfundur FKS haldinn á Hvolsvelli 26. febrúar samþykkir að árgjald verði miðað við útgefið lágmarksverð til bænda með greiðslumark í afurðastöð og jafngildi 80 lítra mjólkur á hvert bú. Laun formanns verði árlega miðað við jafngildi 2.500 lítra mjólkur. Laun ritara og gjaldkera verði árlega miðuð við 1.250 lítra mjólkur. Greitt verði fyrir akstur félagsráðsmanna og stjórnarmanna samkvæmt ríkistaxta pr.kílómeter.
Tillagan borin upp og samþykkt með öllum greiddum atkvæðum.

Reikningar og skýrsla bornir undir atkvæði og samþykktir með öllum greiddum atkvæðum

Verðlaunaafhending – Sveinn Sigurmundsson
Sveinn veitti verðlaun fyrir, afurðahæsta bú á Suðurlandi, sem í ár var Stóra-Mörk 1, en þau voru með 40,9 árskýr með meðalnyt upp á 8.903 kg/árskú. Aðalbjörg Ásgeirsdóttir kom og tók við viðurkenningunni fyrir hönd búsins.

Næstu verðlaun voru fyrir afurðahæstu kú á Suðurlandi og var það Droplaug frá Dalbæ í Flóa sem mjólkaði 13.999 kg. Bryndis Eva Óskarsdóttir, Dalbæ kom og tók við viðurkenningunni.

Þyngsta nautið er frá Nýjabæ og það er naut sem er undan Vísi sem er fyrsta naut úr Angus ræktuninni. Í móðurætt er hann m.a. út af Limousine nauti. Góður árangur hefur verið í Nýjabæ á að nota gripi úr Angus ræktuninni.

Kosning formanns
Niðurstöður úr formannskjöri eru að Aðalbjörg Rún hlaut 24 atkvæði af 30 sem greiddu atkvæði, aðrir fengu færri atkvæði.

Vaxtaverkir, auknar kröfur og blýhúðun regluverks landbúnaðarins – Margrét Gísladóttir
Margrét byrjaði á að þakka fyrir boð á fundinn. Íslensk stjórnvöld eru loksins að vakna af löngum svefni hvað varðar blýhúðun regluverks, sem við tökum upp hérlendis í gegnum EES-samninginn. Það er búið að reyna að vekja athygli á þessu um árabil og loksins farið að vinda ofan af því sem kalla mætti „stjórnlausa innleiðingu aukinna krafna á íslenskt atvinnulíf“ umfram það sem þekkist í löndunum í kringum okkur. Samkeppnisstaða innlendrar framleiðslu vegna þessarar blýhúðunar hefur versnað, en er hún þó nógu erfið sökum hás launa- og vaxtakostnaðar, legu landsins, veðurfars og smæð markaðarins svo fátt eitt sé nefnt.
Við innleiðum meiri kröfur og göngum lengra en þekkist annars staðar og jú af hverju? Af því að það er heimilt. Eftirlitsstofnanir hérlendis túlka ákvæði oft mjög þröngt og líta oft á að leiðbeiningar og tilmæli séu ófrávíkjanlegar kröfur.
Í EES-samningnum eru möguleikar á að fá undanþágur út frá aðstæðum hvers ríkis fyrir sig, en við höfum verið arfaléleg í þessu. Við bætum frekar í regluverkið með séríslenskum lögum og reglugerðum sem við þurfum enga aðstoð við að kokka upp.
Í Brussel erum við með 10 fulltrúa frá mismunandi ráðuneytum sem sjá um að sía nýjar reglur sem innleiddar eru í EES-löggjöfinni, til samanburðar eru danir með 12 manna skrifstofu í Brussel bara fyrir landbúnaðinn. Þarna vantar mikið upp á að reglugerðir séu síaðar betur.
Samtök iðnaðarins gerðu könnun, þar sem þróun og staða á eftirliti var greind. Ljóst er út frá niðurstöðum könnunarinnar að opinberar eftirlitsstofnanir standa sig misjafnlega vel í sínu hlutverki. Svipaða sögu heyrum við oft frá bændum, þ.e. að fólk upplifir eftirlit mismunandi og telur geðþótta oft stýra niðurstöðum eftirlitsins, sem er sérstakur vandi út af fyrir sig.
Nýverið kom út skýrsla um innleiðingu EES-reglugerða í landsrétti þar sem skoðað var hvort gullhúðun hafi átt sér stað á málefnasviði umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins á tímabilinu 2010-2022. Ekki hefur verið farið í skoðun á málefnasviðum annarra ráðuneyta enn sem komið er. Í skýrslunni kom fram að oft var gengið lengra en lágmarkskröfur EES gerða kváðu um, þó að það sé heimilt þá þarf að tilgreina það sérstaklega og rökstyðja. Í helmingi tilfella þar sem gullhúðun er beitt, er ekki getið til um það og í hinum helmingi tilfella, þ.e. þegar þess er getið er rökstuðningurinn nær undantekningalaust mjög takmarkaður. Þetta er mjög ólýðræðislegt og íþyngjandi fyrir fólk að vinnubrögð séu með þessum hætti og ekki farið yfir þetta af þingi og þjóð.
Hvað getum við gert til að vinda ofan af blýhúðuninni? Við getum sent inn ábendingar til starfshóps sem vinnur að því að vinda ofan af blýhúðun í íslensku regluverki. Við getum lagt að stjórnvöldum að einblína á landbúnað í hagsmunagæslunni í Brussel. Þetta nær þó bara svo og svo langt. Við þurfum að þrýsta betur á að sótt verði um undanþáguheimildir vegna okkar sérstöðu þegar það á við. Ég vil líka hrósa sérstaklega samtökum smáframleiðenda sem hafa verið óþreytandi við að benda á íþyngjandi reglur sem lítil sem engin rök eru fyrir að séu settar.
Að lokum þakka ég áheyrnina og minni á að það er mikilvægara en áður að við vinnum saman að því að skapa íslenskum landbúnaði gott og gjöfult starfsumhverfi.

Umræður
Höskuldur Gunnarsson, telur Margrét þessar auknu kröfur runnar undan rifjum pólitíkur eða ráðuneytisstarfmanna, eða hvaðan koma þessar kröfur?
Margrét, þetta er sambland af öllu þessu, það er verið að vinna að einhverju í ráðuneytinu sem ekki er upplýst í þingi eða til þjóðarinnar sem er alvarlegast. Við erum að verða mjög leiðinleg þegar kemur að reglugerðarsetningu.
Ágúst Guðjónsson, hver er leiðin til baka ef gleymist að sækja um undanþágur? Er það einhver leið og hvernig fara menn til baka?
Margrét, það er starfshópur sem er að vinna í þessu en það þarf pólitískan vilja til að breyta þessu. Þekki ekki hvernig og hvort það er hægt að fara til baka þegar gleymst hefur að sækja um undanþágur, þarf að kanna það betur.
Varaðandi blýhúðunina hér heima er ekkert nema pólitískur vilji sem þarf til að vinda ofan af því.
Berglind Hilmarsdóttir, þakkar erindi, veltir því fyrir sér hvort félagsráð FKS sé góður hópur til þess að koma ábendingum á framfæri, eða hvaða aðferð telur þú að sé besta aðferðin. Hvernig er samvinna við BÍ eru þeir að gera eitthvað í að senda ábendingar á ráðuneytin?
Hverjir eru í þeim starfshóp þeim sem er að vinna í að skoða Blýhúðunina.
Margrét í starfshópnum eru Brynjar Níelsson lögmaður og fyrrverandi þingmaður, Dr. Margrét Einarsdóttir prófessor við HR og María Guðjónsdóttir lögfræðingur Viðskiptaráðs. Ég veit ekki alveg hvernig staðan er með BÍ en þar er einhver vinna í gangi. Mikilvægt að allir séu í sama liði og mikilvægt að vinna saman.
Reynir Jónsson, nefnir afurðastöðvafrumvarpið, hvernig getum við tryggt að ágóðinn skili sér til bænda.
Margrét, varðandi frumvarpið þá hefur SAFT verið mjög skýrt að þetta þurfi að gagnast þessum geira, hvernig þetta mun svo líta út er ekki ljóst. Frumvarpið ekki gott eins og það er í dag, en er í breytingum. Mikilir möguleikar á að ná fram meiri bestun í framleiðslunni, hvernig útfærsla verður er ekki komið í ljós.
Aðalbjörg Ásgeirsdóttir, er það rétt að það er komið af stað skoðun á blýhúðun í öllum ráðuneytum.
Margrét, Starfshópurinn mun koma með tillögur að úrbótum og skoða öll ráðuneyti. Erum við að fara lengra en ESB hér á landi en annarsstaðar. Gæti þurft að fara í að skoða hvert ráðuneyti og jafnvel einstök málefni.
Sveinn Sigurmundsson nefndi að oft er verið að setja of strangar kröfur, tók dæmi um innflutning á Angus sæði frá Noregi, en það þarf að greina sýni úr sjúkdómum sem hafa aldrei verið til í Noregi.

Tollvernd innflutningur og viðskiptasamningar – Erna Bjarnadóttir
Þakkaði boð á fundinn. Erna fór yfir tolla og hvernig þeir hafa þróast í áranna rás, búvörulögin nr. 99/1993 er bakgrunnur að stefnu stjórnvalda og heimilda þeirra til að velja stjórntæki til að ná markmiðum laganna. Markmið laganna voru m.a. að auka hagkvæmni, bæta kjör bænda, nýta innlend aðföng og jöfnuður framleiðanda, til að ná þessum markmiðum voru mörg stjórntæki t.d. tollar, tollkvótar, úthlutunaraðferðir ofl.
Segja má að innflutningur á kjöti og mjólk hafi verið bannaður til 1994 þegar Gatt samningurinn var gerður og bönnum breytt í tolla. Í Gatt samningnum eru tollabindingar, hæstu leyfilegir tollar gefnir upp í % og kr/kg í tollaskránni. Lægri tollar en tollabindingar eru MFN tollar sem bjóðast öllum aðildarríkjum WTO, sem áður var GATT.
Samningur var líka gerður 2007 þar sem nýir og lægri tollar og nýir tollkvótar tóku gildi 1.mars 2007, þetta virðist hafa átt sér stað í formi breytinga á tollskrá og reglugerðum um úthlutun tollkvóta. Í þessum samningi lækkuðu tollar á kjöti, það voru tollfrjálsir kvótar ESB (nautakjöt, svínakjöt, alifuglakjöt, ostar, unnar kjötvörur), tollfrjáls kvóti fyrir Ísland (skyr og aukinn kvóti fyrir lambakjöt). Annað í þessum samningi var að engin tollur var á fjölmargar afurðir hesta, hreindýrakjöt í heilum og hálfum skrokkum, tómata, ágúrkur og ýmislegt fleira.
Í samningi frá 2015 var viðurkenning á upprunamerkingum, tollfrjálsir kvótar ESB voru stórauknir, tollfrjálsir kvótar fyrir Ísland voru stórauknir fyrir lambakjöt og skyr og nýir tollkvótar fyrir svínakjöt ofl. Þá var einnig afnám tolla á fjölmörgum samsettum vörum (unnin matvæli).
Bændasamtök Íslands gagnrýndu samningana á sínum tíma. Tollvernd hefur rýrnað bæði skipulega en líka að því er virðist tilviljanakennt á þessum árum, sem vekur upp þá spurningu hvort það samræmist markmiðum búvörulaganna. Margir koma að þessum tollamálum og mikið ósamræmi milli aðila, sérstaklega þegar pólitísk sjónarmið eru tekin með. Víða erlendis eru sett verðjöfnunargjöld á og eins vantar að birta bindandi álit á tollflokkum hér á landi.
Víða má skoða betur tollamálin sem tengjast landbúnaði, en þakka gott boð á þennan fund.

Umræður
Samúel Eyjólfsson spurning með tolla með fasta krónutölur hver getur breytt þeim?
Erna það er Alþingi sem getur breytt, en ekki hægt að breyta tollum sem hafa verið skrifaðir.
Reynir Jónsson spyr hvort hægt sé að átta sig á verðmæti tolla frá 1995 til dagsins í dag?
Þessi mál eru í ólestri og annað eigum við að sameinast um eitt upprunamerki?
Erna verðmæti tolla OECD WTO er ekki með tölur á hreinu en þetta hefur verið reiknað hjá þeim.
Varðandi eitt upprunamerki þá ætla ég ekki að blanda mér í þá umræðu, þetta snýst um samkeppnisstöðu PDO og PDI merki eigum við tækifæri þar?
Berglind Hilmarsdóttir Spurði út í tollkvótann sem var 1.mars 2007 ásamt fleiri spurningum og umræður urðu milli Ernu og Berglindar um þessi mál sem og mjólkurframleiðslu, mjólkurduft og skyldur tollmiðlara, en þeim ber ekki skylda til að skila inn gögnum og innflytjendur segja ekki alltaf satt.
Erna svarar að árið 2007 er 100 þús. tonna kvóti á osti, en 2018 þá er bætt við kvótann. Tollurinn er ekki með upplýsingar um magn, Hagstofan útbýr gögn um innflutning. Við höfum verið á fundi með fjármálaráðuneytinu um EES samninginn og þar er heimild á gagnvirkri könnu á hvert fer innflutningurinn ef hann er ekki skráður. Skatturinn hefur þó heimild til að finna út úr þessu. Við þurfum að bæta okkar hagsmunagæslu.
Ágúst Guðjónsson auknir tollkvótar í landbúnaði, skyr framleitt í Thise í Danmörku, en Brexit varð til þess að MS tók ekki áhættu á að framleiða sjálfir og flytja til Bretlands. Nú er útflutningur til Bretlands og Hollands, stefnan að fylla upp í tollkvótann sem er til útflutnings. Klárum að nýta próteinhallann á næstu 4 árum.
Erna Tollkvóta þarf að nýta, erum t.d. með próteinhalla sem er gott að nýta í þetta.

Niðurstöður kosninga í félagsráð
Borghildur kynnti niðurstöður
Bryndís Eva Óskarsdóttir, Dalbæ, 27 atkvæði.
Rafn Bergsson, Hólmahjáleigu, 25 atkvæði.
Samúel U. Eyjólfsson, Bryðjuholti, 24 atkvæði.
Bóel Anna Þórisdóttir, Móeiðarhvoli, 23 atkvæði.
Bergur Sigfússon, Austurhlíð, 21 atkvæði.
Þorsteinn Logi Einarsson, Egilsstaðakoti, 21 atkvæði.
Þórir Már Sævarsson, Stíflu, 20 atkvæði.
Carlotte Clausen, Hvammi, 19 atkvæði.
Páll Jóhannsson, Núpstúni 18 atkvæði.
Til vara
Guðmundur Bjarnason, Túni, 18 atkvæði.
Jóna Þórunn Ragnarsdóttir, Birnustöðum, 17 atkvæði.
Bjarni Bjarnason, Hraunkoti, 12 atkvæði.

Vísa kosningu á aðalfund BSSL til félagsráðs

Önnur mál

Brynjólfur Jóhannsson finnst þurfa að fara aðeins yfir endurskoðun á búvörusamningum. Samtal milli starfsmanna BÍ og formanns ekki mikið. Við þurfum að fara að skipta út ef þessir aðilar geta ekki talað saman.
Jökull Helgason, ræðir um búvörusamninga, sá fyrir sér hvernig kvótakerfið og annað liti út, sá meiri fjármuni í kvótakerfinu, og þrepaskiptingu. Búseta og byggðastefna. Flest allar breytingarnar gera ráð fyrir að búin stækki og vantar breytingu og mikið ójafnvægi milli landshluta. Lítil og meðalstór bú er ekki í boði m.v. búvörusamninga. Þrepaskipting átti að koma í veg fyrir, verið að eyða upp byggðum landsins og því miður samþykktu bændur þetta.
Daníel Magnússon, hefur áhyggjur af kvígum sem sjúga sig en það þarf að taka tillit til þess í ræktunarstarfinu en það er meginástæða fyrir júgurbólgu í kvígum. Sammála Jökli með að það vantar minni og meðalstór bú. Vantar að byggja upp jarðir sem eru með gott ræktunarland, er sjálfur búinn að rækta mikið.

Aðalbjörg Ég óska nýjum félögum í félagsráði til hamingju, vill minna á að það er verið að kjósa formann BÍ rafrænt 1.-2. mars. Minntist Egils Sigurðssonar á Berustöðum sem lést nýlega. Að lokum þakkar hún Sveini, Helgu og fyrirlesurunum Margréti og Ernu fyrir að koma á fundinn, sem og fundargestum og sleit fundi.

Fundi slitið kl. 15.15.


back to top