Fréttir frá Nautís

Aðalfundur Nautís var haldinn 12. febrúar. Þar voru lagðir fram til afgreiðslu reikningar síðustu tveggja ára ásamt skýrslu stjórnar. Baldur Helgi Benjamínsson flutti erindi sem fjallaði um af hverju Aberdeen Angus kynið varð fyrir valinu sem m.a. er vegna þess að kynið kemur vel út í samanburði við önnur holdanautakyn í umræðunni um loftslagsmál. Angus gripir eru góð beitardýr, nýta gróffóður vel, gefa léttan burð og eru kollóttir. Sigurður Loftsson Steinsholti sem verið hefur stjórnarformaður frá upphafi gaf ekki kost á sér í stjórn og eru honum hér með færðar bestu þakkir fyrir vel unnið brautryðjandastarf. Jón Örn Ólafsson holdanautabóndi Nýjabæ kom nýr inn í stjórn en Gunnar Kr Eiríksson var kjörinn formaður.  Í einangrun eru nú 3 naut og 3 kvígur sem orðin eru 7 mánaða. Nautin eru að vaxa um og yfir 1500 gr/dag og vega liðlega 400 kg á fæti.  Kvígurnar eru eðlilega minni en þroskast vel. Kálfarnir eru góðir í umgengni og temjast vel. Á myndinni má sjá afturpartinn á þeim bræðrum talið frá vinstri, Emmi, Erpur og Eðall en þeir ásamt kvígunum eru undan Emil av Lillebakken.


back to top