Viðbótarútgjöld vegna eldgosanna á Suðurlandi

Viðbótarfjárveitingar vegna eldgosa á Suðurlandi frá því goshrina hófst þar í maí í hittifyrra nema um 1,3 milljörðum króna. Á föstudaginn samþykkti ríkisstjórnin viðbótarútgjöld til Vegagerðarinnar, Almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra og Landgræðslunnar upp á 88,5 milljónir króna vegna eldgosanna.
Kostnaður Vegagerðarinnar í kjölfar hamfaranna er talinn vera 110 milljónir, þar af 20 milljónir vegna Svaðbælisár. Samþykkt var að veita vegagerðinni 82,5 milljónir króna í viðbótarfjárframlag, sem eru þrír fjórðu af kostnaðinum og að Vegagerðin brúi mismuninn innan fjárheimilda og með forgangsröðun verkefna.

Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra fær 6 milljónir króna til að mæta auknum útgjöldum umfram það sem samþykkt var í fyrra.
 
Landgræðslan fékk 17,25 milljónir í fjáraukalögum í desember og tók á sig tæplega 6 milljónir í aukakostnað vegna verkefna síðasta sumar. Hún telur fjárþörf sína aukna á næsta ári og er því erindi  vísað til umhverfisráðuneytisins.
 
Frá því á fyrri hluta árs 2010 hefur samráðshópur ráðuneytisstjóra um viðbrögð við náttúruhamförum verið að störfum og með þeim fulltrúar úr ráðuneytum og almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra. Í byrjun maí er ætlun hópsins að fara í vettvangsferð á gossvæðin og kanna þar stöðu mála með lykilfólki á svæðinu auk forstjóra Vegagerðar og Landgræðslu. Í haust komu sveitarstjórnarmenn úr Skaftárhreppi, Mýrdalshreppi og Rangárþingi eystra á fund hópsins og fórur yfir mál og áherslur heima í héraði.


back to top