Við áramót

Veðurfar var óvenjulegt á síðasta ári.  Miklir þurrkar framan af sumri og dró úr sprettu, einkum á sandatúnum.  Nýting heyja var góð enda veðrátta til heyskapar einmuna góð.  Margir luku fyrsta slætti um mánaðarmótin júní-júlí.  Um miðjan ágúst fór að rigna með fáum uppstyttum fram að jólum. Uppskerustörf haustsins voru erfið vegna bleytu og dæmi um að ekki næðist að uppskera korn og garðávexti.  Hálmur sem víða er notaður sem undirburður er ýmist enn úti á akrinum eða illa þurr í rúllum. Að hauststörfum slepptum var árið gott til búskapar. Fleira hefur áhrif á bóndann en veðráttan, staðan á markaðnum hefur verið í nær öllum búgreinum góð sem er mikil breyting frá því sem var fyrir 5 árum.  Kemur þar einkum þrennt til;  mikill fjöldi ferðamanna, þúsundir útlendinga hér við störf og mikil kaupgeta.

Horfurnar á sölu afurða til næstu framtíðar eru góðar. Kúa- og garðyrkjubændur hafa verið að fjárfesta og stækka einingarnar mikið nú á síðustu árum. Þessi uppbygging á eftir að nýtast vel í framtíðinni sem hagræðing í þessum búgreinum svo fremi að fjármagnskostnaðurinn verði viðráðanlegur.  Þessum framkvæmdum fylgir hins vegar mikil skuldsetning sem tekur verulega í þegar vaxtastig er svo hátt sem nú.  Það sem blasir við á nýju ári er að áburður og kjarnfóður hækka verulega milli ára að ógleymdu olíuverðinu sem er í hæstu hæðum. Venjan hefur verið sú  að bændur fá seint hækkanir á afurðum á móti hækkandi aðföngum. Því má ætla að þetta nýbyrjaða ár verði erfiðara afkomulega séð en það nýliðna. Sá bóndi sem framleiðir mjólk með minna af aðkeyptum áburði, kjarnfóðri og olíu en aðrir hefur það betra. Í Sunnu-verkefninu er ótrúlegur munur milli manna hvað þessa liði snertir, þarna reynir  á búmennskuna.  Nú frekar en áður ættu bændur að láta gera áburðar-  og fóðuráætlanir til að nýta aðföng sem best.

Starfsemi  Búnaðarsambandsins hefur verið með hefðbundnum hætti og gengið vel, þó alltaf séu breytingar í gangi má segja að umhverfið og búskapurinn breytist hraðar. Nú er nefnd starfandi sem er að skoða alla starfsemi Búnaðarsambandsins og kemur með tillögur þar að lútandi á næsta aðalfund.  Starfsemin þarf stöðugt að vera í endurskoðun því ekkert er sjálfgefið í þeim efnum í stöðugt breyttu umhverfi.

Búnaðarsambandið verður 100 ára  þann 6. júlí n.k. Þessi tímasetning var að loknum vorönnum en fyrir slátt við stofnun þess. Nú er þetta ekki heppilegur tími til afmælisfagnaðar og því dreifum við honum á árið.  Landbúnaðarsýning á Hellu 22.-24. ágúst er stærsta  verkefnið. Undirbúningur er þegar hafinn og væntingar miklar hjá sýnendum. Afmælisrit  um sögu Búnaðarsambandsins kemur út með vorinu undir ritstjórn Páls Lýðssonar. Þegar Búnaðarsambandið var 50 ára kom út veglegt afmælisrit sem Páll ritstýrði einnig.

Um áramótin verða samskipti bænda við stjórnvöld í gegnum þrjú ráðuneyti í staðinn fyrir að landbúnaðarráðuneytið sá um flesta þætti áður. Búnaðarskólarnir, rannsóknastofnanir, þar með rannsóknarþátturinn á Stóra-Ármóti tilheyra nú menntamálaráðuneytinu. Landgræðslan verður vistuð í umhverfisráðuneyti en verkefnið „Bændur græða landið“ og fyrirhleðslur verða áfram fjármagnaðar í gegnum landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneyti en í umsjón Landgræðslu ríkisins. 
Skógræktin verður ýmist undir umhverfisráðuneytinu eða landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneyti og fer það eftir því hver plantar trjánum.

Í heild er bjartsýni á framtíðina í sveitum landsins,  þróunin ör og kraftur í mönnum að sækja fram.

Óska bændum og starfsfólki Búnaðarsambandsins gleðilegs afmælisárs og þakka fyrir það liðna.

Þorrfinnur Þórarinsson


back to top