Viagra hjálpar til við sauðfjárkynbætur

Á Sauðfjársæðingarstöð Suðurlands er nú unnið við sæðistöku úr hluta af bestu kynbótahrútum landsins. Hrútasæðið er síðan sent ferskt hvert á land sem er þar sem sauðfjárbændur nýta sér sæðið til kynbóta á sínu fé. Ýmis vandamál geta komið upp á Sauðfjársæðingarstöðinni eins og annars staðar en starfsmenn stöðvarinnar deyja sjaldan ráðalausir…

Í upphafi vertíðar kom í ljós að hrúturinn Gráni frá Stóru-Tjörnum í Ljósavatnsskarði ætti við risvandamál að stríða og að viljinn væri nokkru meiri en getan. Nú voru því góð ráð dýr enda er Gráni trúlega öflugasti misliti kynbótahrútur landsins sem enn hefur komið fram. Hann hefur þótt gefa kostamikil lömb, verulega þroskamikil, bollöng og með ákaflega góða vöðvafyllingu.

Starfsmenn stöðvarinnar brugðu því á það ráð að útvega sér töflu af Viagra sem þeir laumuðu ofan í Grána og viti menn. Gráni lifnaði allur við, varð býsna sperrtur og gaf sæði sem aldrei fyrr. Við skoðun á sæðinu kom í ljós að það var vel lifandi og í fullkomnu lagi.

Viagra er því ekki eingöngu gott fyrir karlmenn heldur greinilega allan karlpening yfirleitt sem eiga við svona vandamál að etja. Starfsmenn stöðvarinnar hafa nú tröllatrú á lyfinu og kalla hrútinn nú aldei annað en Viagra-Grána.

Ekki fylgir sögunni hver starfsmannanna gat útvegað lyfið…


back to top