Vextir á lánum Lífeyrissjóðs bænda fara hækkandi

Á síðustu árum hefur opnast sá lánamöguleiki að sækja lánsfé til Lífeyrissjóðs bænda. Lífeyrissjóðurinn er einn af fáum lánveitendum sem er opinn í augnablikinu. Hámarkslán hjá þeim er 25 milljónir króna, lánstíminn er 5 til 40 ár og lánað er allt að 55% af áætluðu söluverði jarðeignar en 45% af áætluðu söluverði íbúðahúsnæðis. Lánin eru verðtryggð og bundin vísitölu neysluverðs. Vaxtakjör taka breytingum 15. hvers mánaðar og eru 0,7% hærri en meðalávöxtun í síðasta mánuði á nýjasta flokki íbúðabréfa til 30 ára í viðskiptakerfi Kauphallar Íslands. Þó aldrei hærri en hæstu lögleyfðu vextir Seðlabanka Íslands og aldrei lægri en 5%. Vextir eldri lána taka sömu breytingum.

Ávöxtunarkrafa á nýjasta flokki íbúðabréfa til 30 ára, í viðskiptakerfi Kauphallar Íslands, hefur hækkað nokkuð síðustu vikurnar. Meðalávöxtun í febrúar var nálægt 4,75% og 4,90% í mars. Þetta þýðir að vaxtakjör á lífeyrissjóðslánunum fara hækkandi hjá öllum sem hafa slík lán. Vextirnir í mars voru 5,46% og stefna í að verða nálægt 5,60% í apríl. Á móti má benda á að verðbólga er að lækka hratt þessa dagana. Hætt er við að vextirnir gætu hækkað enn frekar þegar líður á árið ef ekki rætist almennt úr á lánsfjármörkuðum. Leitnin hefur verið sú að verðið (ávöxtunarkrafan) á því litla lánsfjármagni sem er í boði hefur heldur hækkað síðustu vikurnar.

Rétt er samt einnig að benda á að vaxtakjör Íbúðalánasjóðs eru enn sem komið er óbreytt og Íbúðalánasjóður býður upp á lán með föstum vöxtum út allan lánstímann, ólíkt Lífeyrissjóði bænda. Hins vegar er hætt við að strax í næsta útboði Íbúðalánasjóðs á íbúðabréfum muni vaxtakjör sjóðsins hækka. Það ræðst af ástandi á lánsfjármarkaði þegar útboðið á sér stað.


back to top