Verið að setja upp vélar í nýrri mjólkurstöð Vesturmjólkur

Verið er að setja upp vélbúnað í nýja mjólkurstöð í Borgarnesi að því er fram kemur í Skessuhorni. Að sögn Bjarna Bærings bónda og talsmanns eigenda fyrirtækisins Vesturmjólkur er stutt í að fyrsta framleiðslan komi á markað, en það verður þó ekki á þessu ári. Bjarni segir að vonast sé til að einhver súrvara verði framleidd núna fyrir jólin; skyr, jógúrt eða súrmjólk, en hún fari þá til stóreldhúsa, mötuneyta og hóteleldhúsa.

Vesturmjólk er í nýlegu húsi sem áður hýsti Borgarnes kjötvörur norðan til í iðnaðarhverfinu við Borgarnes. Mjólkurstöðin nýtir, alla vega ekki til að byrja með, nema hluta hússins.
Bjarni Bærings segir mjög hagkvæmt að fá þetta húsnæði undir starfsemina. „Það eru gerðar svo miklar kröfur í matvælavinnslu í dag að það munar öllu að geta farið inn í svona fullkomið hús. Til að byrja með verðum við með einfalda vinnslulínu, en síðan mun þetta þróast og þá er aldrei að vita nema við bætum við,“ segir Bjarni.


back to top