Verð á hveiti lækkar

Verð á hveiti lækkaði umtalsvert á mörkuðum í gær þegar Rússar seldu Egyptum verulegt magn á mun lægra verði en evrópskt og bandarískt hveiti hefur fengist á undanfarnar vikur. Á markaði í Chicago féll verðið um 2% og stóð í rétt um 30 kr/kg við lok viðskipta. Þetta verðfall bætir gráu ofan á svart fyrir Bandaríkin sem glíma nú við verulega efnahagsörðugleika. Hveitiverð hélst stöðugt á markaði í París í gær eða í kringum 33 kr/kg en í London lækkaði verðið í 27 kr/kg.
Sérfræðingar telja að verðið muni lækka þegar líður á haustið en hveitiuppskera í Rússlandi er nú um 50% meiri en í fyrra og í Úkraínu er uppskera mun betri en síðustu ár. Þetta þýðir mun meira framboð en Rússland og Úkraína eru stórir aðilar á heimsmarkaði fyrir kornvörur.
Hérlendis ættu áhrifin að verða þau að verð á kjarnfóðri lækki í haust ef spár sérfræðinga ganga eftir, þ.e. að kornverð fari lækkandi í haust.


back to top