Veðurstofan varar við slæmu veðri á sunnudag og mánudag

Veðurstofan vill vekja sérstaka athygli á slæmri veðurspá fyrir næstkomandi sunnudag og mánudag. Ferðafólki, bændum, sjómönnum og öðrum sem eru háðir veðri í leik og starfi er bent á að gera viðeigandi ráðstafanir. Sérstök ástæða er til þess fyrir bændur að huga að lambfénaði sem kominn er á beit en á sunnudag er spáð norðaustan 15-23 m/s með slyddu og síðar snjókomu um landið N- og A-vert, en rigningu S-lands framan af degi. Kólnandi veður, hiti um og undir frostmarki um kvöldið, en frostlaust syðst.
Á mánudag er útlit fyrir allhvassa eða hvassa norðanátt með snjókomu eða éljum, en þurru syðra. Víða vægt frost, en hiti 0 til 5 stig S-lands yfir daginn.


back to top